Jón Atli og Guðmundur Fertram hljóta heiðursverðlaun Ásusjóðs

Jón Atli Benediktsson, rektor og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, frumkvöðull og stofnandi heilbrigðistæknifyrirtækisins Kerecis, hlutu í dag heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum af Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands.
Verðlaun úr sjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi. Til að leggja áherslu á tengsl vísinda og nýsköpunar og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag eru nú í fyrsta sinn veitt verðlaun til frumkvöðuls sem hefur náð framúrskarandi árangri í nýsköpun.
Jón Atli ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. Í bakgrunni er Einar Stefánsson, prófesssor emeritus við Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Ásusjóði. MYND/Kristinn Ingvarsson
Jón Atli Benediktsson er rektor og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. Hann er eini vísindamaðurinn sem starfar á Íslandi á virtum alþjóðlegum lista (Clarivate) yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Hann hefur verið á þeim lista sjö ár í röð fyrir rannsóknir sínar á sviði fjarkönnunar. Listinn nær til eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Rannsóknir Jóns Atla hafa einkum beinst að þróun aðferða við úrvinnslu fjarkönnunarmynda sem fengin eru með skynjurum frá flugvélum eða gervitunglum. Fjarkönnunarmyndir hafa á undanförnum árum orðið mjög flóknar í úrvinnslu. Jón Atli og samstarfsfólk hafa þróað aðferðir sem vakið hafa mikla athygli og beinast að því að greina saman róf- og rúmupplýsingar fjarkönnunarmyndanna. Þessar aðferðir hafa meðal annars byggst á tölfræðilegum aðferðum, gervigreind, stærðfræðilegri formsíun og vélrænu námi.
Jón Atli er höfundur einnar fræðibókar og yfir 400 ritrýndra vísindagreina. Hann hefur hlotið margar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir vísindastörf sín. Hann var aðalritstjóri ISI-fræðitímaritsins IEEE Transactions on Geoscience and Remote Sensing á árunum 2003-2008. Þá var hann forseti IEEE Geoscience and Remote Sensing Society á árunum 2011 og 2012. Jón Atli var um fjögurra ára skeið forseti Aurora sem er samstarfsnet öflugra evrópskra háskóla sem hafa það að markmiði að auka vægi nýsköpunar og rannsókna í sínum samfélögum og hafa áhrif til úrbóta á háskólastarfi í álfunni og víðar.
Guðmundur Fertram ásamt Höllu Tómasdóttur. MYND/Kristinn Ingvarsson
Guðmundur Fertram Sigurjónsson er frumkvöðull og einn af afkastamestu uppfinningamönnum Íslands en hann er að baki fleiri en 200 einkaleyfum og einkaleyfaumsóknum. Með reynslu sem starfsmaður og stofnandi fyrirtækja á sviði heilbrigðistækni, fjártækni og endurnýjanlegrar orku, stofnaði hann og er í dag forstjóri Kerecis, heilbrigðistæknifyrirtækis sem notar fiskroð til að lækna sár og skaðaðan líkamsvef og er einkaleyfavarið sáraroð fyrirtækisins m.a. markaðsleiðandi í Bandaríkjunum.
Fiskroðið, sem áður var úrgangsafurð í sjávarútvegi, er unnið í hátæknisetri Kerecis á Ísafirði. Árið 2023 varð Kerecis fyrsti íslenski einhyrningurinn, þegar fyrirtækið var selt danska fyrirtækinu Coloplast fyrir 1,3 milljarða dollara. Einhyrningar eru óskráð fyrirtæki sem ná eins milljarðs Bandaríkjadala verðmæti í hlutabréfaviðskiptum. Vörur Coloplast eru seldar í 140 löndum og er markmið Kerecis að sáraroðið verði selt í þeim öllum og verði sú lausn sem leitað er til á heimsvísu þegar upp koma alvarleg sár og vefjaskaði.
Guðmundur hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir nýsköpun, þar á meðal Nýsköpunar- og frumkvöðlaverðlaun frá forseta Íslands árin 2015 og 2018. Hann var útnefndur frumkvöðull ársins hjá Ernst & Young árið 2021, frumkvöðull ársins á Íslandi árið 2015 og viðskiptamaður ársins á Íslandi árið 2023. Árið 2024 hlaut hann Útflutningsverðlaun forseta Íslands. Kerecis hlaut Vaxtarsprotann sem það fyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi árin 2017 og 2020, auk Nordic Scale-Up verðlaunanna árið 2023.
Um Verðlaunasjóð Ásu Guðmundsdóttur Wright
Ása Guðmundsdóttir Wright stofnaði Verðlaunasjóð Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 1968 í tengslum við hálfrar aldar afmæli Vísindafélags Íslendinga. Sjóðurinn er skipaður þremur stjórnarmönnum. Í stjórn sjóðsins eru nú þau Einar Stefánsson, prófesssor emeritus við Háskóla Íslands, Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og Sigrún Ása Sturludóttir, M.Sc. sem jafnframt er stjórnarformaður. Þau sem hlotið hafa verðlaun úr sjóðnum hafa verið kallaðir Æsir eða Ásynjur.
Sjóðurinn hefur frá upphafi veitt heiðursverðlaun til 56 einstaklinga sem unnið hafa veigamikil vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Íslands hönd. Áfram er haldið í þá hefð að verðlauna fyrir afrek á sviði vísinda en einnig er nú verðlaunað fyrir afrek á sviði nýsköpunar.
Verðlaunin eru heiðursskjal, silfurpeningur, verðlaunastytta og peningagjöf. Silfurpeningurinn er með lágmynd Ásu og merki Vísindafélags Íslendinga, nafni þiggjanda og ártal er grafið í jaðarinn.
Styrktaraðilar eru HS Orka, Orkuveita Reykjavíkur og Oculis. Þakkar sjóðstjórnin þeim kærlega fyrir stuðninginn.