Jóhanna og Sigurður Reynir sæmd fálkaorðunni
Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor í upplýsingafræði og skjalastjórnun við Háskóla Íslands, og Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlutu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til vísinda við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag.
Þau Jóhanna og Sigurður Reynir, sem eru í forystuhlutverkum á sínu sviði, voru í hópi 14 Íslendinga sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerkinu að þessu sinni.
Jóhanna Gunnlaugsdóttir hlýtur orðuna fyrir kennslu og rannsóknir á sviði upplýsingafræði og skjalastjórnunar en þar hefur hún unnið brautryðjendastarf á Íslandi. Hún lauk BA-prófi í bókasafnsfræði og sagnafræði frá Háskóla Íslands 1985 og MS-prófi í stjórnun og rekstri fyrirtækja með áherslu á upplýsingastofnanir og upplýsingakerfi innan fyrirtækja frá Háskólanum í Wales 1998. Hún varð svo fyrsti Íslendingurinn til að ljúka doktorsprófi í upplýsinga- og skjalastjórnun árið 2006 en prófinu lauk hún frá Háskólanum í Tampere í Finnlandi.
Jóhanna hefur kennt við Háskóla Íslands frá árinu 1997 en hún varð lektor við skólann árið 1999, dósent 2007 og prófessor ári síðar. Hún hefur enn fremur verið gestakennari við ýmsa háskóla bæði hér heima og erlendis ásamt því að leiðbeina fjölda meistara- og doktorsnema og sitja í ritstjórnum fagtímarita innan lands og utan.
Rannsóknir Jóhönnu eru á sviði upplýsinga- og skjalastjórnar, þekkingarstjórnunar, gæðastjórnunar og flokkunaraðferða og -kenninga. Hún hefur m.a. unnið athyglisverðar rannsóknir á persónulegri samfélagsmiðlanotkun starfsfólks á vinnutíma og viðhorfi almennings til upplýsingagjafar stjórnvalda og hlotið ýmsa styrki til þeirra. Auk þessa hefur Jóhanna sinnt ýmsum nefndarstörfum innan Háskólans og víðar og enn fremur haldið ýmis námskeið og fyrirlestra um skjala- og upplýsingamál fyrir félagasamstök, stofnanir og háskóla hér á landi undanfarna þrjá áratugi.
Nánar um störf Jóhönnu á Wikipedia
Sigurður Reynir Gíslason hlýtur fálkaorðuna fyrir framlag til íslenskra jarðvísinda og kolefnisbindingar. Hann hefur gegnt forystuhlutverki í hinu heimsþekkta CarbFix-verkefni sem Háskóli Íslands og Orkuveita Reykjavíkur standa að í samvinnu við erlenda samstarfaðila en það snýst um að binda koltvíoxíð í berg.
Sigurður Reynir útskrifaðist með BS-próf í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og lauk doktorsprófi í jarðefnafræði frá Johns Hopkins-háskólanum í Bandaríkjunum árið 1985. Hann hefur fram þeim tíma sinnt rannsóknum og kennslu við Háskóla Íslands.
Rannsóknaráherslur Sigurðar Reynis hafa verið á sviði efnaskipta vatns, bergs, lofttegunda og lífvera í náttúrunni og á tilraunastofum, með sérstaka áherslu á hringrás kolefnis á jörðinni, og áhrifa eldgosa á loft vatn og lífverur. Hann hefur t.d. ásamt samstarfsfólki varpað ljósi á áhrif eldgossins í Holuhrauni á umhverfi en gosið spúði um ellefu milljónum tonna af eitruðu brennisteinstvíoxíði yfir Ísland og stór svæði í Evrópu. Rannsóknirnar leiddu m.a. í ljós að styrkur brennisteinstvíoxíðs í andrúmslofti fór langt yfir heilsufarsmörk dögum og vikum saman á Íslandi en það var lán í óláni að mengunarinnar gætti mest á svæðum sem ekki eru í byggð.
Sigurður Reynir er hins vegar þekktastur fyrir forystuhlutverk sitt innan CarbFix-verkefnisins en hann hefur í yfir áratug verið formaður Vísindaráðs þess. Sem fyrr segir snýst verkefnið um að binda koltvíoxíð í basaltjarðlögum. Tilraunir rannsóknahópsins með bindingu koltvíoxíðs með niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun hafa gefið góða raun og binst koltvíoxíðið berginu á um tveimur árum en áður var talið að það tæki mörg þúsund ár. Fjöldi vísindamanna hefur tekið þátt verkefninu auk íslenskra og erlendra doktorsnema og hefur það vakið heimsathygli. CarbFix-verkefnið hefur enn fremur hlotið fjölda stórra rannsóknastyrkja bæði hér heima og erlendis.
Nánar um verkefnið á YouTube-rás Háskólans
Sigurður Reynir hefur skrifað yfir 100 greinar í alþjóðleg ritrýnd vísindatímarit og bók á íslensku um kolefnihringrásina á jörðinni en auk þess hefur hann leiðbeint miklum fjölda meistara- og doktorsnema. Sigurður Reynir hlaut á síðasta ári Clair C. Patterson verðlaun Bandarísku jarðefnafræðisamtakanna (Geochemical Society) sem eru ein þau af virtustu sem veitt eru á sviði jarðefnafræði. Hann er enn fremur forseti Evrópusambands jarðefnafræðinga og mun gegna því embætti til loka árs.