Hinn stóri samhljómur sandsins frumsýndur í HÍ
„Heimildarmyndin Hinn stóri samhljómur Sandsins fjallar um Breiðamerkursand og Breiðamerkurjökul frá sjónarhólum jarðvísindamanns, landslagsfræðings, þrívíddarhönnuðar og vídeólistamanns.“ Þetta segir vísindamaðurinn Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, um kvikmynd með þessu nafni sem verður frumsýnd í Hátíðasal Háskóla Íslands á föstudaginn kemur. Myndin er eftir Þorvarð og Gunnlaug Þór Pálsson kvikmyndagerðarmann en stjórnun upptöku var í höndum Ólafs Rögnvaldssonar.
Í nýju myndinni er linsunni beint að landsvæði sem hefur löngum verið þekkt fyrir sérstæða fegurð og mikilfengleik en það skartar meðal annars Jökulsárlóni og Fjallsárlóni. Á þessu svæði blasa áhrif lofslagsbreytinga jafnframt afar vel við en Jökulsárlón var t.d. varla til fyrir tæpri öld.
Þorvarður eða Þorri eins og hann er oftast kallaður hefur farið nýstárlegar leiðir í rannsóknum og ekki hvað síst í miðlun á niðurstöðum þeirra. Þar hefur hann oft notað snjallmiðlun og helgað sig alls kyns formi ljósmyndunar, notað hefðbundnar ljósmyndir, kvikmyndir og skeiðmyndir, ekki síst til að sýna þróun yfir tíma. Sú aðferð hefur skilað mjög miklu þegar sýndar eru breytingar á bráðnandi jöklum og á landslagi sem kemur undan þeim þegar þeir hopa.
Það má því segja að Þorri taki með þessari snjallmiðlun beinan þátt í mikilvægum breytingum háskólastarfs en þróun þess á næstu árum mun skipta sköpum fyrir viðureign samfélaga við þau flóknu viðfangsefni sem heimurinn stendur frammi fyrir. Þar er loftslagsváin ekki síst sú áskorun sem vísindamenn verða að beina sjónum að í enn ríkari mæli og almenningur sömuleiðis. Sú aðferð að birta rannsóknir í formi kvikmynda, sem ætlaðar eru öllum, jafnt vísindafólki og almenningi, er þess vegna líklegri en margt annað til að auka traust á vísindum og gera jákvæð áhrif þeirra á samfélagið enn sýnilegri.
Áskoranir mannkyns í snjallmiðlun
Í myndinni um Samhljóminn er tekist á við áskoranir mannkyns út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og sjónum beint að áhrifum loftslagsbreytinga á jökla. „Breiðamerkurjökull er fjórði stærsti skriðjökull landsins og sá þeirra sem hefur bráðnað hraðast og mest á undanförnum áratugum. Hraði bráðnunarinnar er eiginlega ótrúlegur. Að meðaltali hopar jökullinn um 70-100 metra á ári, hraðast þar sem hann kelfir í Jökulsárlón. Á síðasta ári var hopunin á þeim hluta jökuljaðarins allt að 250 metrar milli ára.“
Þorri segir að bráðnun Breiðamerkurjökuls af völdum hnattrænna loftslagsbreytinga sé einkar skýrt dæmi um þau tröllauknu umskipti sem hafi þegar átt sér stað og jafnframt þá miklu hættu sem að okkur steðji, ef við bregðumst ekki skjótt og ákveðið við „hamfarahlýnunni“ eins og hann orðar það.
Mikil reynsla á sviði kvikmyndagerðar um jökla
Aðspurður um tilurð myndarinnar segir Þorri að hún hafi upphaflega verið hugarfóstur Gunnlaugs Þórs Pálssonar. Gunnlaugur Þór vakti mikla athygli fyrir heimildarmynd sína „Jöklaland: Veröld breytinga“ sem frumsýnd var í Háskóla Íslands árið 2016. Í þeirri heimildamynd ræddi hann við fjölda vísindamanna við skólann um þær miklu sviptingar sem nú eiga sér stað í veröld jöklanna. Þorri segir á hinn bóginn að reynsla sín af gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Breiðamerkursand hafi verið helsta eldsneytið af hans hálfu við upphaf myndarinnar.
„Vinna við þá áætlun hófst fljótlega eftir að þetta merka svæði var loks friðlýst, í júlí 2017. Ég fór fyrir hópi ráðgjafa sem unnu með svæðisráði og starfsfólki á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs að gerð áætlunarinnar. Þetta var mikil vinna og flókin á köflum en í alla staði mjög gefandi og lærdómsrík. Stjórnunar- og verndarætlunin var svo endanlega samþykkt af umhverfis- og auðlindaráðherra í júní síðastliðnum.“
Þorri segist hafa t.d. lært einkar mikið af samvinnunni við Snævarr Guðmundsson, jöklajarðfræðing hjá Náttúrustofu Suðausturlands, sem þekkir Breiðamerkursand einstaklega vel. Snævarr er einn af viðmælendunum í myndinni en Þorri segir að Snævarr hafi opnað augu sín fyrir umfangi og mikilvægi landmótunarferla á Breiðamerkursandi og til hans er titill myndarinnar sóttur.
„Leiðir okkar Gunnlaugs lágu einmitt saman á Breiðamerkursandi sumarið 2015, þegar hann kvikmyndaði vinnu þverfaglegs rannsóknahóps sem ég var þátttakandi í. Nokkru síðar aðstoðaði ég Gunnlaug við gerð myndar um Hoffellsjökul. Hinn stóri samhljómur Sandsins er sjálfstætt verk sem er jafnframt hugsað sem kynningarmynd eða svokallað pilot fyrir mun viðameira verkefni sem við Gunnlaugur höfum verið að vinna að um töluverða hríð. Vinnuheiti þess er Í ríki Vatnajökuls og snýst – eins og nafnið bendir til – um Vatnajökul í heild sinni, svo og nærliggjandi svæði.“
Undraveröld jökla, lóna og svartra sanda
Þorri segir að landslagið á Breiðamerkursandi – með jöklunum, fjallgörðunum og jökullónunum – sé einfaldlega stórfenglegt á að líta. „En svo sterk upplifun af einum þætti getur skapað ákveðna hættu á því að fólk horfi fram hjá öðrum verðmætum svæðisins, til dæmis menningargildi þess og því sem við gætum kallað landslag í minni skala, sem samanstendur af öllum þeim landformum sem hafa orðið til við framrás og hopun Breiðamerkurjökuls.“
Þorri segir að þessi landform, svo sem jökulgarðar, kembur, malarásar og jökulker, vitni um þá síkviku og mikilvirku jarðfræðilegu ferla sem hafa leikið um þetta svæði og geri enn.
„Sandurinn í heild sinni er nokkurs konar lifandi kennslustofa um þá landmótun sem bráðnun jökulsins leysir úr læðingi. Landformin geyma til samans sögu þessarar virku landmótunar síðastliðin 120-130 ár; sögu sem vel er hægt að lesa út úr landinu, ef maður kann að horfa á það frá réttu sjónarhorni. Eða með öðrum orðum, það leynist miklu, miklu meira á Breiðamerkursandi en maður kynni að ætla í fyrstu og önnur megináhersla myndarinnar er að varpa ljósi á ríkuleika og fjölbreytni hans. Þótt Breiðamerkursandur í núverandi mynd sé ungur að árum, er hann alls engin eyðimörk.“
Fjármagnað úr Loftslagssjóði
Þorri segir að Gunnlaugur Þór hafi aflað fjármagnsins sem þurfti til að gera myndina um Samhljóminn með styrkjum frá Loftslagssjóði og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
„Leiðir okkar Gunnlaugs lágu einmitt saman á Breiðamerkursandi sumarið 2015, þegar hann kvikmyndaði vinnu þverfaglegs rannsóknahóps sem ég var þátttakandi í. Nokkru síðar aðstoðaði ég Gunnlaug við gerð myndar um Hoffellsjökul. Hinn stóri samhljómur Sandsins er sjálfstætt verk sem er jafnframt hugsað sem kynningarmynd eða svokallað pilot fyrir mun viðameira verkefni sem við Gunnlaugur höfum verið að vinna að um töluverða hríð. Vinnuheiti þess er Í ríki Vatnajökuls og snýst – eins og nafnið bendir til – um Vatnajökul í heild sinni, svo og nærliggjandi svæði.“
Þorri er sjálfur menntaður kvikmyndagerðarmaður sem hefur nýst honum vel í þessu nýja verki en hann segir það samt ómetanlegt fyrir sig sem háskólamann að geta verið í samstarfi við fagmann eins og Gunnlaug Þór sem hafi áratuga reynslu af framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis. „Umframt allt byggir samstarf okkar félaganna á sameiginlegri sýn á mikilvægi ábyrgrar, heildstæðrar miðlunar um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Jörðina, og þá ekki síst hina viðkvæmu og mörgu leyti einstæðu náttúru Íslands.“
Eins og áður sagði verður myndin frumsýnd í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 24. september kl. 16:30. Stuttmyndin After Ice eftir Kieran Baxter, M Jackson og Þorvarð verður einnig sýnd við sama tækifæri. Öll eru velkomin meðan húsrúm leyfir en grímuskylda er í Hátíðasalnum.