Skóböðullinn í Holuhrauni
„Ég var samanlagt í níu vikur hérna í Holuhrauni við eftirlit og rannsóknir á meðan gosið stóð sem hæst. Á þeim tíma gekk ég meira en 20 kílómetra á spánnýju hrauni. Ganga á nýrunnu hrauni er seinlegri og erfiðari en nokkuð annað sem ég hef reynt hingað til og skórnir mínir eru í henglum!“
Þetta segir Daninn Morten S. Riishuus skellihlæjandi þar sem við hittum hann í síðsumarblíðunni í Holuhrauni – við erum að vinna að þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar en upptökur í Holuhrauni tengjast rannsóknum á eldsstöðvum og eldgosum og áhrifum þeirra á landið okkar, umhverfið og samfélagið. Morten er að safna gögnum til viðbótar þeim sem safnað var í gosinu sjálfu. Riishuus sýnir okkur skóna til að færa sönnur á hversu óvægið hraunið reyndist þeim.
„Ég mun samt eiga þá til minja,“ bætir Riishuus við og skellir aftur upp úr. „Hvert eldgos er ný lexía,“ segir hann „en atburðirnir hérna í eldstöðvakerfi Bárðarbungu voru einstakir. Ekki eingöngu á jarðfræðilegum tímaskala heldur einnig í æviskeiði jarðfræðings. Ákaft sprungugos stóð hér yfir í sex mánuði og úr varð stærsta eldgos á Íslandi frá því í Skaftáreldum fyrir meira en 200 árum.“
Daninn Morten S. Riishuus
„Hvert eldgos er ný lexía, en atburðirnir hérna í eldstöðvakerfi Bárðarbungu voru einstakir. Ekki eingöngu á jarðfræðilegum tímaskala heldur einnig í æviskeiði jarðfræðings.“
Auk mikils útstreymis á eitruðu brennisteinsdíoxíði var hraunflæði úr eldgosinu í Holuhrauni um 1,6 rúmkílómetri. Þegar við horfum yfir biksvart hraunið með Morten Riishuus, hálfu ári eftir að gosinu lauk, er ljóst að hamfarirnar hafa verið miklar en hraunið nær nú yfir svæði áþekkt Þingvallavatni að stærð.
Að sögn Riishuus stunduðu vísindamenn eftirlit í Holuhrauni meðan á gosinu stóð en auk þess gerðu þeir ýmsar athuganir og mælingar og tóku sýni. Til viðbótar þessu aðstoðuðu vísindamennirnir þau fjölbreyttu rannsóknateymi sem sóttu svæðið heim.
„Það er skylda okkar að sinna rannsóknum til að auka skilning manna á þessari tegund eldgosa og kanna áhrif þeirra á umhverfið,“ segir Riishuus. Veigamikill hluti vísindastarfs Riishuus snýr að eldfjallavirkni og flekahreyfingunum á Íslandi á jarðsögulegum tíma. Í því sambandi bendir hann á margra milljóna ára gamla jarðlagastafla sem séu sýnilegir í fjöllunum fyrir vestan, norðan og austan.
„Þessir staflar bera allir vitni um gríðarleg hraungos á forsögulegum tíma. Þótt eldsumbrotin í Holuhrauni séu miklu umfangsminni en hin fornu flóð blágrýtis, þá er hin mikla sandbreiða á gosstöðvunum hér mun líkari hinum fornu aðstæðum en í nokkru öðru eldgosi samtímans. Við getum þess vegna notað það sem við lærum af gosinu í Holuhrauni til að túlka það sem við sjáum í gömlum jarðlagastöflum. Þannig getum við reynt að endurskapa jarðsögulegt umhverfi og umfang eldsumbrotanna í fortíðinni.“