Skip to main content

Jaðrakan kemur fyrr að vorinu

José Alves, nýdoktor við Háskóla Íslands

„Ég vil skilja hvernig dýr bregðast við breytingum á umhver sínu,“ segir Portúgalinn Jose Alves, nýdoktor við Háskóla Íslands, um leið og hann lyftir kíki sínum og horfir athugull yfir leirurnar í Álftafirði eystra. Þar hafa þúsundir jaðrakana viðkomu eftir langflug frá Evrópu og þeir nýta tímann vel á fjörunni til að hlaða tankinn. Þeir eiga margir eftir talsvert flug til að komast áfram á varpstöðvar sínar víða um land. „Farfuglar eins og jaðrakaninn,“ heldur Jose áfram, „og aðrir sem verpa nærri norðurheimskautinu kljást nú við örar breytingar á umhver sínu sem helgast meðal annars af sviptingum í loftslagi.“

Það er snemma vors og erfitt að ímynda sér að varp sé á næsta leiti hjá þessum fallega fugli. Hitinn er rétt yfir frostmarki og slydda bylur á vísindamönnunum og á fuglunum sem láta sér fátt um finnast. Í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar fylgjumst við með rannsóknum á fuglum og förum með vísindamönnum Háskóla Íslands í Álftafjörð og einnig á varpslóðir jaðrakana í Flóanum.

„Jaðrakaninn og margar aðrar tegundir vað- og strandfugla fljúga suður á bóginn til vetursetu við sjávarsíðuna. Þar verða breytingar á búsvæði þeirra æ meira áberandi,“ segir Jose.

„Hér á ég við breytingar af manna völdum eins og breytingar á strandlínu, nýjar byggðir manna og jafnvel byggingu stórra hafna. Þessir hópar fugla eru því tilvalið viðfangsefni til að sjá hvernig dýrategundir kljást við umhverfisbreytingar.“

Jaðrakaninn er svipaður spóa að stærð. Hann er hálslangur vaðfugl af snípuætt, með langt og mjótt nef sem hann borar í leirurnar án afláts. Jose bendir á stóran hóp fugla býsna nærri og segir okkur að sperra eyrun. „Ef vel er hlustað er eins og jaðrakaninn segi í sífellu vaddúddí, vaddúddí, vaddúddí.“

José Alves

„Farfuglar eins og jaðrakaninn og aðrir sem verpa nærri norðurheimskautinu kljást nú við örar breytingar á umhver sínu sem helgast meðal annars af sviptingum í loftslagi.“

José Alves

Og svo heldur Jose áfram. „Í nýlegri rannsókn okkar kemur fram að jaðrakani verpi fyrr þegar vorin eru hlý. Merking einstaklinga og rafeindabúnaður gera okkur kleift að sjá að þeir fuglar sem klekjast fyrr úr eggi að sumrinu eru líklegri til að komast snemma inn í hóp fullorðnu fuglanna. Þar sem íslenska vorið hefur orðið æ hlýrra, auk þess sem fyrr vorar en áður víða á Íslandi, hefur jaðrakanastofninn vaxið og ha ð varp á nýjum svæðum um allt land.“

Varpið hjá jaðrakananum Tveimur mánuðum síðar hittum við Jose Alves á nýjan leik en í þetta skiptið í Flóanum. Hann er með laxaháf sem hann læðist með að hreiðri jaðrakana og eins og hendi sé veifað er fuglinn fangaður. „Þessi var á leirunum í Álftafirði í vor og ég ætla að merkja hann,“ segir Jose og bíður ekki boðanna. Hann segir okkur að ný rannsókn vísindamanna Háskólans sýni að fuglar geti í ákveðnum tilfellum hagnýtt sér breytt veðurfar. „Varp jaðrakana fyrr að vorinu helgast af auknum og hraðari vexti gróðurs snemma vors en jaðrakan felur hreiður sín í þéttum gróðri. Það var til dæmis útilokað að sjá þetta hreiður með berum augum,“ segir Jose og bendir yfir engjarnar.

„Breytingar á gróðri af öðrum orsökum, t.a.m. vegna mikillar beitar eða aukins landbúnaðar, gætu einnig haft áhrif á varptíma og viðkomu hjá tegundum eins og jaðrakan sem fela hreiður sín.“ Jose segir gríðarmargt ólært um fugla um leið og hann smellir merkjum á fætur fuglsins.

„Til dæmis er enn ráðgáta hvernig þessi fugl ratar án korts, áttavita eða GPS um víðáttur himinsins. Sumir fuglar geta flogið miklar vegalengdir, t.d. sex til ellefu þúsund kílómetra án hvíldar. Slíkir fuglar nota flugvöðva sína sleitulaust í óra til níu daga. Eins og staðan er höfum við ekki hugmynd um hvernig fuglarnir geta unnið úr orkunni til að takast á við slíkt erfiði í svo langan tíma. Þetta eru bara nokkur dæmi um ótrúlegar lausnir sem lífverur hafa fundið í glímunni við krefjandi áskoranir. Það væri synd að öðlast ekki þekkingu á því hvernig þeir fara að þessu.“

Um leið og Jose sleppir orðinu sleppir hann fuglinum og kallar á eftir honum: „Sjáumst í Portúgal.“