Rannsókna- og þróunarsetur um ICNP (International Classification for Nursing Practice) á Íslandi var formlega stofnað árið 2020. Það er starfrækt innan Heilbrigðisvísindastofnunar Háskóla Íslands og hýst hjá Hjúkrunarfræðideild. ICNP setrið er viðurkennt af Alþjóðaráði hjúkrunarfræðinga (International Council of Nurses, ICN) sem rannsókna- og þróunarsetur og er starfsemi þess því í samræmi við sýn ICN á e-Health. Setrið er í samstarfi við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Embætti landlæknis og ýmsa aðra hagsmunaaðila. Hvað er ICNP? ICNP (International Classification for Nursing Practice) er safn samþykktra orða sem nota má til að skrá athuganir og íhlutanir hjúkrunarfræðinga um heim allan. ICNP mótar umgjörð til að skiptast á gögnum um hjúkrun og auðvelda samanburð innan hjúkrunar þvert á lönd og svið. Það er faglegur ávinningur af því að nota fagmál eins og ICNP í hjúkrun því: ICNP eykur sýnileika hjúkrunar, hjálpar til við að tryggja öryggi og efla gæði ICNP hjálpar til við að framlag hjúkrunar komi fram í þverfaglegum heilbrigðisupplýsingakerfum ICNP hjálpar til við að tryggja að hjúkrunarfræðingar hafi þau tól og tæki í formi upplýsinga sem þeir þurfa til að bregðast við breytingum á heilsu og hjúkrunarþörfum borgaranna ICNP hjálpar til við að efla þjónustu og styðja við stefnumótun með notkun upplýsingastaðla ICNP hjálpar til við að styðja almenna og sérhæfða hjúkrunarþjónustu þvert á svið ICNP hjálpar til við að tryggja að stjórnunarupplýsingar nái utan um framlag hjúkrunar ICNP hjálpar til við að styðja við gagnreynda starfshætti ICNP hjálpar til við að sameina mismunandi flokkunarkerfi í hjúkrun Uppbygging ICNP Uppbygging ICNP er nokkuð ólík þeim flokkunarkerfum sem mest hafa verið notuð á Íslandi. Í ICNP eru um 4000 hugtök. Flokkunarkerfið byggir á 7 ásum og er hægt að byggja upp hjúkrunargreiningar og -meðferð. Þeir eru: Viðfang (Focus): Viðfangsefni sem skiptir máli fyrir hjúkrun (verkur, útskilnaður, þekking) Afstaða, ákvörðun (Judgement): Klínískt álit/ákvörðun sem tengist viðfangi (truflað, skortur á, hætta á, minnkað, aukið) Hjúkrunarþegi (Client): Sá sem greining á við og sem nýtur hjúkrunar/ meðferðar (einstaklingur, fjölskylda) Framkvæmd (Action): Verknaður sem beitt er gagnvart hjúkrunarþega (að kenna, hagræða, skola) Aðferðir (Means): Það sem notað er til að framkvæma (áhöld eða þjónusta) Staðsetning á líkama eða í rúmi (Location): Höfuð, fótur, heima, vinnustaður eða líkamleg staðsetning út frá miðpunkti líkama (vi/hæ) Tími (Time): Getur verið tímapunktur, tímabil (við útskrift, í aðgerð) Alltaf þarf tvo ása hið minnsta. Við samsetningu hjúkrunargreininga þarf ásana viðfang og afstöðu (eða ákvörðun), t.d. ófullnægjandi (afstaða) aðlögunarleiðir (viðfang), skert (afstaða) hreyfigeta (viðfang). Við samsetningu hjúkrunarmeðferða þarf ásana viðfang og framkvæmd, t.d. meta (framkvæmd) aðlögunarleiðir (viðfang), aðstoða (framkvæmd) við göngu (viðfang). Tilurð ICNP Í maí 2019 var fulltrúum skilgreindra hagsmunaaðila boðið að taka þátt í vinnusmiðju til að undirbúa umsókn um viðurkennt ICNP setur (ICN Accredited ICNP Research & Development Centre in Iceland), hlutverk þess, markmið og að skilgreina leiðir sem álitnar voru mikilvægar og þeir voru reiðubúnir að taka þátt í. Allir sem tóku þátt í vinnusmiðjunni undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis. Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (International Council of Nurses, ICN) viðurkenndi Rannsókna- og þróunarsetur um ICNP á Íslandi 16. ágúst 2019. Eftirtaldir aðilar hafa verið skilgreindir sem hagsmunaaðilar: Hjúkrunarfræðideild, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) Fagdeild um upplýsingatækni í hjúkrun Embætti landlæknis (EL) Landspítali (LSH) Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) Reykjalundur – Endurhæfing Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK) Origo – Heilbrigðislausnir Hjúkrunarfræðideild, Heilbrigðisvísindasvið, Háskólinn á Akureyri Tilgangur og hlutverk Megintilgangur ICNP setursins er að vinna að rannsóknum og þróunarverkefnum sem stuðla að þróun og notkun flokkunarkerfisins ICNP (International Classification for Nursing Practice) til samhæfingar og skráningar í hjúkrun á Íslandi. Hlutverk Rannsókna- og þróunarseturs um ICNP á Íslandi er að mynda og standa vörð um tengslanet hjúkrunarfræðinga, heilbrigðis- og menntastofnana og annarra hagsmunaaðila á Íslandi til að þróa, þýða, innleiða og nota ICNP í kennslu, rannsóknum og klínísku starfi. Markmið Rannsókna- og þróunarseturs um ICNP er: Að vera virkur þátttakandi í þróuninni á ICNP; Að á hverjum tíma sé til uppfærð og aðgengileg íslensk þýðing á ICNP; Að ICNP sé innleitt á öllum sjúkrastofnunum á Íslandi og þar með hluti af rafrænni sjúkrakrá; Að ICNP endurspeglist í námskrá í hjúkrunarfræði og kennslu til hjúkrunarfræðinema; Að hvetja til og styðja við rannsóknir til að þróa og efla ICNP; Að skilgreina þarfir fyrir tæknilausnir og veita ráðgjöf um hvaða tæknilegi stuðningur þurfi að vera til staðar við innleiðingu og notkun ICNP í rafrænum sjúkraskrárkerfum og sem lýtur alþjóðlegum stöðlum Hafa samband Forstöðumaður setursins er Ásta Thoroddsen, prófessor. Nafn setursins: Rannsókna- og þróunarsetur um ICNP á Íslandi Aðsetur: Hjúkrunarfræðideild, Eirbergi, Eiriksgötu 34, 101 Reykjavík, Iceland Sími: +354 525 4960 Netfang: icnp@hi.is Myndmerki ICN, Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga facebooklinkedintwitter