Skip to main content

Rektorskjör 2025

Rektorskjör 2025 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þar sem enginn frambjóðenda fékk meirihluta greiddra atkvæða í rektorskjöri 18. og 19. mars verður kosið aftur á milli prófessoranna Magnúsar Karls Magnússonar og Silju Báru R. Ómarsdóttur. Kjörfundur hefst kl. 9.00 miðvikudaginn 26. mars og lýkur fimmtudaginn 27. mars kl. 17.00.

Kjörskrá liggur fyrir – hvernig er kosið?

Kjörskrá liggur fyrir og er kærufrestur liðinn. Á kjörskrá eru 14.557 einstaklingar, 1.752 starfsmenn og 12.805 nemendur. Ef kjósandi á í vandræðum með að kjósa af persónulegum eða tæknilegum ástæðum er aðstoð veitt við að kjósa af starfsfólki Upplýsingatæknisviðs HÍ. Það er gert á þjónustuborði á Háskólatorgi frá kl. 9-15 báða kjördaga

Eftirstandandi frambjóðendur í rektorskjöri (í stafrófsröð)

Í seinni umferð rektorskjörs stendur valið á milli tveggja frambjóðenda.

Nánar um fyrirkomulag rektorskjörs

Rektorskjör skal fara fram eigi síðar en sjö vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Kosning er rafræn og skal kjörfundur standa í rúman sólarhring frá kl. 9:00 fyrri daginn til kl. 17:00 síðari daginn. Talning atkvæða hefst strax að kjörfundi loknum.

Umsækjandi telst hafa hlotið tilnefningu í embætti rektors sem hlýtur meirihluta gildra atkvæða í kosningunum. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju viku eftir að úrslit fyrri umferðar liggja fyrir um þá tvo sem fengu flest atkvæði.

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skipar háskólarektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs að loknum kosningunum. Nýr rektor Háskóla Íslands tekur við embætti 1. júlí nk. og er skipunartíminn til 30. júní 2030.

    Atkvæðisréttur

    Atkvæðisrétt við rektorskjör hefur bæði starfsfólk og nemendur sem hér segir:

    Starfsfólk

    Öll sem skipuð eru eða ráðin í starf við háskólann og stofnanir hans í samræmi við gildan ráðningarsamning hafa atkvæðisrétt.

    • Starfsfólk í 75% starfshlutfalli eða hærra hefur heilt atkvæði.
    • Starfsfólk í 37-74% starfshlutfalli hefur hálft atkvæði.
    • Starfsfólk í lægra en 37% starfshlutfalli hefur ekki atkvæðisrétt.
    • Akademískt starfsfólk á samstarfsstofnunum Háskóla Íslands, sem starfa á grundvelli sérlaga hefur hálft atkvæði. Stofnanirnar eru:
      • Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
      • Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
      • Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

    Nemendur

    Allir nemendur, sem skrásettir eru í Háskóla Íslands við upphaf kjörfundar, hafa atkvæðisrétt.

    Atkvæði starfsfólks vega 70% í kjörinu og atkvæði nemenda 30%.

    Kjörskrá

    Nemendur og starfsfólk getur komist að því hvort það er á kjörskrá með því að smella hér. Kærufrestur rann út kl. 23:59 þann 11. mars nk. 

    Kjörstjórn

    Kjörstjórn vegna rektorskjörs er skipuð af háskólaráði. Hún annast framkvæmd kosningarinnar fyrir hönd háskólaráðs. Meðal hlutverka hennar er:

    • Umsjón með gerð kjörskrár
    • Að ákveða kjördag
    • Að úrskurða í kærumálum
    • Sjá um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar

    Í kjörstjórn sitja:

    • Víðir Smári Petersen, prófessor við Lagadeild, formaður
    • Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við Lagadeild
    • Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild
    • Gréta Dögg Þórisdóttir, nemandi við Lagadeild
    • Jens Ingi Andrésson, nemandi við Lagadeild
    • Sverrir Guðmundsson, verkefnisstjóri á vísinda- og nýsköpunarsviði

    Reglur um rektorskjör

    Nánari upplýsingar eru í reglum fyrir Háskóla Íslands, 6. grein: Kosning, tilnefning og embættisgengi rektors.

    Einnig í Verklagsreglum um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænnar kosningar til embættis rektors Háskóla Íslands og gerð rafrænnar kjörskrár.