Skip to main content

Gallar í nýbyggðum fjölbýlishúsum á Íslandi

""

Um verkefnið

Rannsóknarverkefnið fjallar um algengi og eðli galla í nýbyggðum íbúðum á Íslandi. Við einblínum á reynslu íbúðareigenda, ábyrgð húsbyggjenda og eftirlitshlutverk opinberra aðila. 

Undanfarin ár hafa borist fjölmargar fréttir af byggingargöllum í nýjum íbúðarhúsnæðum. Slík vandamál geta haft veruleg áhrif á fjárhag, öryggi og lífsgæði íbúðareigenda.

Markmið rannsóknarinnar er að safna upplýsingum um þessa reynslu og varpa ljósi á umfang og orsakir vandans. 

Lagalegt umhverfi 

Í lögum um fasteignakaup nr. 40/2002 er kveðið á um réttindi kaupenda þegar kemur að byggingargöllum. Seljandi ber ábyrgð á göllum sem koma í ljós innan fimm ára frá afhendingu, og í sumum tilfellum getur ábyrgðin verið lengri ef gallar teljast alvarlegir. Opinberar stofnanir, þar á meðal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, gegna mikilvægu hlutverki í eftirliti og fræðslu. 

Þrátt fyrir þessi lög virðist framkvæmdin oft ábótavant, og margir kaupendur standa frammi fyrir flóknum ferlum við að ná fram réttarvernd. Þess vegna er mikilvægt að kortleggja raunveruleg viðbrögð íbúðareigenda og hverju þau skila. 

Hverjir geta tekið þátt? 

Rannsóknin er tvískipt. Starfsmenn rannsóknarinnar hafa samband við hluta eigenda og formenn húsfélaga fjölbýlishúsa sem byggð eru árin 2014, 2018 og 2022 ( hér er miðað við fokheldisár).

Hinn hlutinn er að taka við ábendingum frá öðrum eigendum fjölbýlishúsa sem kláruðust eftir árið 2014.  Við viljum fá upplýsingar frá sem flestum, líka þar sem lítið eða ekkert er um byggingargalla.  

Við tryggjum fulla nafnleynd þátttakenda og gögn verða meðhöndluð samkvæmt lögum um persónuvernd (nr. 90/2018). Niðurstöður verða ekki birtar fyrir tilteknar eignir eða einstaklinga. 

Taktu þátt í rannsókninni

Ef þú vilt taka þátt þá er langt best ef þú fyllir út þennan spurningalista.(Í vinnslu 12. mars 2025 kemur fljótlega.)

Við erum einnig með netfangið gallar@hi.is  

Við metum framlag þitt og þökkum fyrir þátttökuna! 

Samfélagslegur ávinningur

Með þátttöku húsnæðiseigenda nýbygginga stuðlum við að aukinni þekkingu á þeim göllum sem kunna að koma upp við nýbyggingar íbúahúsnæðis. Niðurstöður könnunarinnar geta nýst húsbyggjendum, verktökum og kaupendum ef í ljós kemur að hönnun, efni eða verklag megi bæta. 

""