Skip to main content
24. júní 2017

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata

""

Fyrrverandi rektorar, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, kandídatar, starfsfólk Háskóla Íslands, góðir gestir. 

Ég óska ykkur, kæru kandídatar, innilega til hamingju með daginn og árangurinn sem staðfestur er með prófskírteinum sem þið takið við hér á eftir. Ég óska einnig fjölskyldum ykkar til hamingju, sem og vinum og öðrum vandamönnum, er stutt hafa ykkur af heilindum. 

Brautskráning frá Háskóla Íslands markar tímamót í lífi ykkar. Markmiðinu sem þið settuð ykkur er náð og þið uppskerið nú laun erfiðisins. Þið hafið lagt hart að ykkur í náminu og framtíðin blasir við ykkur með öllum þeim tækifærum sem lífið hefur upp á að bjóða. 

Brautskráningardagur er einnig hátíð starfsfólks Háskólans sem hefur gert allt til að tryggja að prófgráðan frá Háskóla Íslands sé traustur vitnisburður um þekkingu og hæfni ykkar.

Nú þegar við fögnum þessum áfanga, kandídatar góðir, er við hæfi að staldra við og leiða hugann að gildi háskólamenntunar og hlutverki háskóla í samfélaginu. 

Sá tími er liðinn að færa þurfi fram vörn fyrir efnahagslegu gildi háskólamenntunar. Dæmin blasa við á öllum sviðum mannlífsins. Námsgreinar, sem í dag virðast hafa takmarkað hagnýtt gildi, geta skyndilega komist í lykilstöðu með breyttum aðstæðum. Og við þekkjum líka dæmi um hið gagnstæða. Greinar sem haft hafa mikið hagnýtt gildi geta skyndilega misst samkeppnisforskot sitt með breyttum atvinnuháttum eða nýjum áherslum. Því má segja að grundvöllur háskólamenntunar sé fyrst og fremst að miða að því að kenna nemendum að læra, að tileinka sér sífellt nýja þekkingu með fjölbreyttum aðferðum og að leita fanga sem víðast bæði innanlands og utan. Við í Háskóla Íslands erum mjög meðvituð um þetta og leggjum því áherslu á að skapa nemendum okkar víðtæk tækifæri til að vinna að raunhæfum og krefjandi verkefnum. 

Kæru kandídatar, háskólamenntun hefur ekki síður andlegt og menningarlegt gildi. Hún gerir okkur betur í stakk búin til að skilja okkur sjálf, umheiminn og stöðu okkar í heiminum. Slíkur skilningur hefur gildi í sjálfu sér og háskólar þjóna þessari leit að sannleikanum. Við höfum verið rækilega minnt á þetta undanfarin misseri þegar aðför hefur verið gerð að vísindum og staðreyndum og þeim hafnað í nafni efnahagslegra eða pólitískra stundarhagsmuna.  

En háskólamenntun er ekki einungis ætlað að skapa atvinnutækifæri eða auka skilning á náttúrunni, manninum og samfélaginu. Hún eflir einnig ábyrgðartilfinningu okkar gagnvart öðru fólki og náttúrunni allri og gerir okkur færari um að vera virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Hún hefur þannig bæði siðferðilegt og félagslegt gildi. Hér er mikilvægt að minnast þess að háskólar eru samfélag nemenda, kennara og annars starfsfólks þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytni eru höfð að leiðarljósi. Þegar þið, kæru kandídatar, lítið til baka munuð þið minnast samstarfs við kennara ykkar og þeirra vinatengsla sem þið mynduðuð á háskólaárunum. Slík tengslanet endast oft út ævina og skapa sjálf andleg og veraldleg verðmæti. 

Góðir gestir, ég hef gert þessi ólíku sjónarhorn á gildi háskólamenntunar að umtalsefni til að varpa ljósi á hversu margbreytileg hún er. Hlutverk Háskóla Íslands er víðtækt. Gæta verður þess vel þegar við rækjum eitt hlutverk háskólastarfsins að missa ekki sjónar á öðrum þáttum. 

Á næsta ári minnumst við þess að liðin verða 100 ár frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Stofnun Háskóla Íslands sjö árum fyrr, 17. júní 1911, er órjúfanlega tengd sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar. Það var engin tilviljun að þeir sem börðust fyrir stofnun háskóla á Íslandi völdu afmælisdag Jóns Sigurðssonar sem stofndag skólans. Í huga þeirra var Háskóli Íslands verðugt tákn fyrir þær hugsjónir sem sjálfstæðishetjan hélt á lofti um leið og þeir litu á skólann sem eina helstu forsendu þess að þjóðin gæti náð þeim markmiðum sem Jón Sigurðsson barðist fyrir. Þannig var eitt helsta báráttumál hans einmitt efling menntunar á Íslandi. Sagði hann ekkert málefni vera „eins áríðandi og afdrifamikið fyrir Íslands velferð og viðreisn“ enda væri menntun alls staðar „talin aðalstofn allra framfara, andlegra og líkamlegra“. 

Stórhugur frumherjanna í hinu fátæka íslenska bænda- og fiskimannasamfélagi við upphaf síðustu aldar og skilningur þeirra á margþættu gildi háskólamenntunar ætti að vera okkur, sem búum við margfalt betri lífskjör, áminning og leiðarljós. Sagan sýnir ótvírætt að háskólar eru mikilvægasta uppspretta nýrra hugmynda og óþrjótandi aflvakar framfara. Þeir hafa frá alda öðli verið miðstöðvar frjálsrar hugsunar og þekkingarleitar. 

Vissulega eru háskólar í harðri alþjóðlegri samkeppni um nemendur og starfsfólk, en þeir keppa ekki á markaði á sama hátt og atvinnufyrirtæki og þeir lúta ekki skammtíma arðsemiskröfu eigenda sinna. Eigandi Háskóla Íslands er íslenskur almenningur, við öll, og hann deilir afrakstri starfs síns með þjóðinni og í raun öllum heiminum.

Kæru kandídatar, fyrirtækin og atvinnulífið þurfa sífellt á nýrri þekkingu að halda. En fyrirtæki standa sjaldnast ein og sér að þróun þeirrar grunnþekkingar sem þau byggja á. Hátæknirisar á borð við Google og Apple nýta sér tækniþróun sem iðulega er fóstruð í háskólum og rannsóknastofnunum og byggja ábatasama framleiðslu sína á þeim. Tæknibylting síðustu áratuga – ég nefni til dæmis GPS-tæknina, snertiskjáinn og internetið – hefði aldrei átt sér stað án opinberrar fjárfestingar í háskólamenntun, rannsóknum, þróun og nýsköpun. Þetta á ekki síður við ef horft er til framtíðar og þeirra risavöxnu áskorana sem mannkynið stendur nú frammi fyrir, svo sem ört þverrandi auðlinda, loftslagsbreytinga, misskiptingar auðs og fólksflótta. Þær þjóðir sem fjárfesta í sjálfbærni í víðasta skilningi munu uppskera aukinn hagvöxt, ný atvinnutækifæri og nýja þekkingu. Hinar, sem ekki byggja á menntun heldur treysta alfarið á hefðbundna nýtingu náttúruauðlinda og vélvæddan iðnað, munu sitja eftir og staðna.

Áhrif rannsókna og háskólastarfs í samfélaginu takmarkast síður en svo við tæknigreinar. Þvert á móti hefur nýsköpun í öllum greinum bein og óbein áhrif á auðlegð, framfarir og lífsgæði. Rannsóknir í hug- og félagsvísindum eru grundvöllur skynsamlegar ákvarðanatöku á fjölmörgum sviðum í lífi okkar og almenn menntun eykur starfshæfni, þroskar okkur sem manneskjur og dýpkar skilning okkar á umhverfinu.  

Nýlega kom út á vegum Evrópusambandsins merk skýrsla um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif vísinda og nýsköpunar. Þar kemur ótvírætt fram að beint orsakasamband er á milli útgjalda til rannsókna, nýsköpunar og menntunar annars vegar og framleiðniaukningar og hagvaxtar hins vegar. Áhrifin eru víðtækust í þeim ríkjum sem fjárfesta mest í háskólastarfi, svo sem í Bretlandi og Finnlandi, en áhrifanna gætir mun minna í ríkjum á borð við Ungverjaland, Grikkland og Slóveníu sem verja hlutfallslega álíka miklu fé til háskóla og Íslendingar. Þetta verða íslensk stjórnvöld og við öll að ígrunda. Það er grafalvarlegt mál ef fjárhagsleg staða íslenskra háskóla torveldar þeim að sinna síaukinni eftirspurn atvinnulífsins eftir háskólamenntuðu og sérhæfðu vinnuafli.

Í áðurnefndri skýrslu er sýnt fram á að 10% aukning útgjalda til rannsókna og nýsköpunar skilar vexti þjóðartekna sem nemur fimmfaldri þeirri aukningu. Fjárfesting í rannsóknum og menntun skilar sér þannig margfalt til baka í auknum hagvexti og lífsgæðum. 

Atvinnulíf framtíðarinnar mun einkennast af hátæknistörfum, síaukinni menningarsköpun og það verður sérstök áskorun að tryggja stöðu íslenskrar tungu og menningar á tímum alþjóðavæðingar. Háskóli Íslands er skóli atvinnulífs framtíðarinnar. Sökum stærðar sinnar og alþjóðlegs samstarfsnets hefur Háskólinn allar faglegar forsendur til að veita ungu fólki samkeppnishæfa háskólamenntun fyrir eftirsótt og krefjandi störf. En til að Háskóli Íslands geti rækt þetta mikilvæga hlutverk sitt þarf að tryggja að hann njóti sambærilegrar fjármögnunar og háskólar í nágrannaríkjunum. Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni.  Samkeppnishæfni Íslands, lífskjör og farsæld samfélagsins til framtíðar er í húfi. 

Kæru kandídatar, það er góð tilfinning að horfa yfir þennan glæsilega útskriftarhóp hér í dag. Stór hluti ykkar hyggur á þátttöku í atvinnulífinu og eflaust eru mörg ykkar þegar komin með starf á meðan aðrir munu sérhæfa sig enn frekar í þágu samfélagsins og vísindanna.

Sum ykkar munu fara í frekara nám erlendis og er það vel enda opnar það augun fyrir nýjum hlutum og sjónarmiðum og nýrri nálgun á mörgum sviðum. En þótt háskólanámið ljái ykkur vængi er mikilvægt að þið gleymið aldrei hvar rætur ykkar liggja og að þið sækið aftur í heimahagana og auðgið íslenskt samfélag með þeirri þekkingu og reynslu sem þið eigið eftir að afla ykkur. Gerum Ísland áfram að eftirsóttum valkosti fyrir komandi kynslóðir. 

Kæru kandídatar, það er einlæg von mín að við vinnum öll saman að því að byggja upp gott, réttlátt og farsælt samfélag. Því hér við hafið eigum við heima, eins og segir í einu fallegasta lagi sem fjöllistakonan Björk hefur samið og ber heitið „Anchor Song“ eða „Um akkeri“.

Ég bý við sjóinn

og á nóttunni

þá kafa ég niður

alveg á hafsbotninn

undir allar iður

og set akkerið mitt út

hér vil ég vera

hér á ég heima

Kæru kandídatar, um leið og ég þakka ykkur samfylgdina fyrir hönd Háskóla Íslands óska ég ykkur velfarnaðar í þeim ævintýrum sem bíða ykkar og þeim fjölbreyttu verkefnum sem þið takið ykkur fyrir hendur. Ég er þess fullviss að hvert sem leiðir ykkar liggja munið þið verða Háskóla Íslands, fjölskyldum ykkar og þjóðinni til sóma. Orðspor okkar er nú samofið lífi ykkar og starfi.

Njótið dagsins. Framtíðin er ykkar. 

Jón Atli Benediktsson ávarpar kandídata í Laugardalshöll.