Skip to main content

FUTUREVOLC stórbætt möguleika til hamfaravöktunar

FUTUREVOLC stórbætt möguleika til hamfaravöktunar

Mælitæki sem sett hafa verið upp hér á landi fyrir tilstuðlan samevrópska verkefnisins FUTUREVOLC á síðustu árum hafa leitt til þess að nýlegar náttúruhamfarir eru svo vel skráðar að þess eru fá ef nokkur dæmi annars staðar í heiminum.

FUTUREVOLC-verkefnið hófst haustið 2012 og hafði það að markmiði að koma á fót samhæfðu vöktunarkerfi á eldfjöllum, að þróa nýjar aðferðir til að meta hættu á eldgosum, að efla skilning á myndun og hreyfingu kviku í jarðskorpunni, að bæta gæði mælinga á stærð og afli eldgosa og að bæta upplýsingagjöf til almannavarna og yfirvalda, ekki síst með tilliti til flugsamgangna.

Verkefnið hlaut um sex milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu sem er einn sá hæsti sem íslenskum vísindamönnum hefur hlotnast. Verkefnið hefur verið unnið undir forystu Jarðvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofu Íslands en auk þess hafa almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og upplýsingatæknifyrirtækin Miracle og Samsýn komið að verkefninu hér á landi. Samstarfsaðilar í verkefninu eru alls 26 í tíu Evrópulöndum, þar á meðal evrópskir háskólar í fremstu röð, ýmsar stofnanir og fyrirtæki.

Freysteinn Sigmundsson

Mælitæki sem sett hafa verið upp hér á landi fyrir tilstuðlan samevrópska verkefnisins FUTUREVOLC á síðustu árum hafa leitt til þess að nýlegar náttúruhamfarir eru svo vel skráðar að þess eru fá ef nokkur dæmi annars staðar í heiminum.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, stýrði þessu viðamikla samevrópska verkefni fyrir hönd Háskóla Íslands og í nýjum þætti um rannsóknir á áhrifum eldgosa er spjallað við Freystein um verkefnið í yngsta hraun Íslands - Holuhrauni.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010 en það hafði eins og kunnugt er mikil áhrif á flugsamgöngur í Evrópu og yfir Atlantshaf. Ísland hefur frá upphafi verið í miðpunkti þessa verkefnis og fjöldi innlendra og erlendra vísindamanna hefur í tæp þrjú ár unnið að söfnun margvíslegra jarðvísindalegra gagna í íslenskri náttúru, túlkun þeirra og framsetningu niðurstaðna í viðurkenndum tímaritum og á öðrum vettvangi. Á vegum þessa verkefnis hafa vísindamennirnir sett upp í sameiningu umfangsmikinn tækjabúnað fyrir vöktun og rannsóknir á eldfjöllum.

Mælitæki nýttust vel í hamförum

Það sem enginn gat aftur á móti séð fyrir voru þær miklu hamfarir sem dunið hafa yfir hér á landi á síðustu mánuðum og misserum. Fyrst er að nefna eldgosið í Holuhrauni sem var að magni til mesta eldgos á Íslandi í 230 ár. Og þó að á smærri skala sé var Skaftárhlaupið um daginn það mesta sem komið hefur í ána og olli það fyrir vikið bæði skemmdum og landbreytingum í byggð.

Við umbrotin í Bárðarbungu fengust með staðsetningartækjum og jarðskjálftamælum FUTUREVOLC stöðugar upplýsingar um hreyfingu kviku undir jöklinum og undan honum og út í Holuhraun. Margvíslegur tækjabúnaður FUTUREVOLC sem notaður er í flugvélum og á jörðu niðri nýttist við mat á hraunrennslinu og hegðun hraunflákans. Þá skiptu gasmælar FUTUREVOLC miklu máli við að meta gasflæðið og hættu vegna þess. Gögn úr mælitækjum FUTUREVOLC reyndust því mikilvæg við alla gerð viðbragðsáætlana, ekki síst vegna hættu af völdum flóða og gass.

Í aðdraganda Skaftárhlaups um mánaðamótin september og október sl. sýndi GPS-staðsetningartæki, sem komið hafði verið fyrir á íshellu Skaftárketils vegna rannsókna, ris og sig ketilsins sem gaf til kynna að hlaup væri í aðsigi nokkrum dögum áður en vatnið kom undan jöklinum. Fyrir vikið gafst mikilvægur fyrirvari sem hægt var að nýta til fyrirbyggjandi aðgerða. Fjöldi annarra mælitækja á svæðinu sýndi þegar vatnið braut sér leið frá katlinum að jökuljaðri. Upplýsingarnar eru mikilvægar við rannsóknir á þróun og hegðun katlanna og nýtast við spár um framtíðarhegðun þeirra; þær varpa ljósi á eðli jökulhlaupa og geta nýst s.s. við hönnun brúa og annarra mannvirkja.

Sú þekking og þau tæki sem aflað hefur verið innan FUTUREVOLC hafa því reynst mikilvæg í þróun viðvörunarkerfis vegna náttúruhamfara hér á landi. Auk þess að veita mikilvægar upplýsingar í ofangreindum atburðum hafa tækin, sem sett hafa verið upp fyrir tilstilli verkefnisins, safnað gögnum sem vísindamenn munu vinna úr á næstu mánuðum og árum til að auka við og dýpka skilning okkar á eðli hamfara eins og eldgosa og flóða.