Pétur Halldórsson, MS-nemi við Líf- og umhverfisvísindadeild
Það er farið að vora á Melrakkasléttu en enn má þó sjá skafla á víð og dreif þegar ekið er eftir sléttunni. Lofthitinn er ekki ýkja mikill en það hefur ekki mikil áhrif á Pétur Halldórsson, meistaranema í líffræði, þar sem hann liggur í leyni milli þúfna við lítið vatn rétt sunnan við Raufarhöfn. Kvikmyndateymi Háskóla Íslands er með í för til að festa Pétur á myndflöguna þegar hann reynir að fanga einn af grimmustu farfuglum landsins, himbrima. Honum til aðstoðar eru þrír vinir og sjálfboðaliðar. Pétur hefur undanfarin ár unnið brautryðjendastarf í rannsóknum á þessum tignarlega fugli.
„Það mætti segja að áhuginn á himbrimanum hafi fyrst kviknað vorið 2011 í fuglafræðitíma í Háskóla Íslands en með upplýsingum frá kennara og eftir nokkra leit tókst mér að sjá himbrima í eitt augnablik áður en hann hvarf í kaf. Sumarið 2014 var ég síðan að aðstoða hóp frá Nottinghamháskóla við hornsílarannsókn víðs vegar um landið og sá fyrir tilviljun himbrimahreiður í fyrsta skipti. Þá ákvað ég að mig langaði að vinna eitthvað með himbrima og eftir Google-leit og nokkra tölvupósta var mér boðið að aðstoða rannsóknarhóp hjá Upper Midwest Environmental Sciences Center hjá U.S. Geological Survey í Bandaríkjunum í ágúst sama ár,“ segir Pétur um leið og hann grípur í kíkinn og kannar hvort hann sjái glitta í himbrima á vatninu.
300 himbrimapör verpa á Íslandi
Himbrimastofninn á Íslandi er ekki ýkja stór, en hann telur aðeins um þúsund fugla. Ísland er eina landið utan Ameríku þar sem fuglinn verpir en 200-300 pör verpa hér árlega. Pétur og félagar hafa komið fyrir neti úti á vatninu og á því Pétur Halldórsson, MS-nemi við Líf- og umhverfisvísindadeild Glímir við hinn háskalega himbrima hvílir gervihimbrimi. Með því að spila hljóð himbrimans í gegnum hátalara vonast Pétur til að vekja áhuga lifandi himbrima sem eru á vatninu þannig að þeir geri atlögu að gervihimbrimanum með flugbeittum gogginum úr kafi. Um leið vonast hann til að fanga dýrið í netið. Himbrimapar siglir forvitið hjá en lætur ekki blekkjast.
„Helsta markmiðið með rannsóknum mínum er að safna grunnupplýsingum um íslenska himbrimastofninn, t.d. til að áætla meðalþyngd en sáralítið er til af gögnum um fuglana hér á landi. Einnig hef ég sett sérstök litmerki á fuglana, sem ég hef náð, til þess að geta þekkt sömu einstaklingana aftur.
Til viðbótar hafa þrír himbrimar fengið svokallaða dægurrita, þökk sé styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar, en þeir gefa okkur möguleika á að fylgjast með ferðum fuglanna. Ef okkur tekst að fanga sömu fuglana aftur getum við séð hvar þeir hafa verið veturinn á undan,“ segir Pétur en ekki er vitað hvar himbriminn, sem sækir til Íslands á sumrin, heldur sig nákvæmlega yfir vetrartímann.
Pétur Halldórsson
„Helsta markmiðið með rannsóknum mínum er að safna grunnupplýsingum um íslenska himbrimastofninn, t.d. til að áætla meðalþyngd en sáralítið er til af gögnum um fuglana hér á landi.“
Eftir töluverða bið er útséð með að fuglarnir á vatninu láti til skarar skríða gegn gervihimbrimanum og því er tími til kominn að færa sig um set að öðru vatni norðar á Melrakkasléttu þar sem Pétur hefur haft fregnir af himbrimapari. Pétur og félagar hans bera sig fimlega þegar þau koma fyrir gildru og gervifugli úti á vatninu en réttu handtökin lærði Pétur þegar hann dvaldi í Bandaríkjunum sumarið 2014.
„Ég hef fengið gífurlega mikla aðstoð frá samstarfsfólki í Bandaríkjunum í gegnum tölvupóstsamskipti. Einnig hef ég fengið mikla hjálp frá fólki hjá Biodiversity Research Institute en til þeirra sendi ég erfða- og eiturefnasýni til greiningar.
Án þessara sambanda hefði verkefnið aldrei orðið að veruleika,“ segir Pétur og skimar yfir vatnið. 550 vinnustundir farið í að ná sjö fuglum Ekki þarf að bíða lengi áður en himbrimi sést á vatninu og gerir atlögu að gervifuglinum. Hann flækist um leið í netið og Pétur og samstarfsfólk hendast út í mitt vatn til að handsama fuglinn.
„Það er enginn barnaleikur,“ segir Pétur enda fuglinn ekki aðeins grimmur og sterkur heldur getur hann orðið allt að sjö kíló. Pétur ber merki grimmleikans þegar hann kemur í land með fuglinn en fingur hans eru alblóðugir eftir kröftug högg fuglsins.
„Síðan rannsóknin hófst vorið 2015 höfum við náð sjö fuglum en til samanburðar má geta þess að fyrir rannsóknina höfðu einungis verið merktir fimm himbrimar frá upphafi á Íslandi og enginn af þeim mældur,“ segir Pétur þar sem hann og samstarfsfólk hans ber sig fimlega við að vigta fuglinn, mæla hann og taka úr honum blóð- og fjaðrasýni. En hvað er það skemmtilegasta við þessar rannsóknir og hvað er það erfiðasta?
„Það skemmtilegasta er eflaust að komast í návígi við þessa mögnuðu fugla en það erfiðasta er svo sannarlega að ná þeim.Til marks um það hafa 24 sjálfboðaliðar lagt fram samtals u.þ.b. 550 klukkustunda vinnu til að ná þessum sjö fuglum og þá er undirbúningur ekki talinn með,“ segir hann. Pétur reiknar með að halda rannsóknunum áfram næstu árin.
„Lágmarkið er að ná nógu mörgum til að áætla meðalþyngd himbrima í íslenska stofninum, sem tekur líklega nokkur ár, en ég mun eflaust halda þessu áfram eins lengi og ég get,“ segir hann sposkur á svip. Talið berst að þýðingu rannsóknanna fyrir vísindin og samfélagið.
„Rannsóknirnar veita okkur upplýsingar um lítt rannsakaða tegund á landinu og auka vonandi áhuga fólks á vísindum og náttúruvernd,“ segir Pétur um leið og hann sleppir himbrimanum aftur út í frelsið.
Sjón er sögu ríkar í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar á RÚV þar sem við fáum að fylgjast með Pétri við rannsóknir sínar.