Skip to main content

Málþing: Örsögur í nútíð og þátíð

Málþing: Örsögur í nútíð og þátíð - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
19. janúar 2023 15:00 til 18:30
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Heimasvæði, 2. hæð

Nánar 
Aðgangur ókeypis

STUTT-rannsóknastofa í smásögum og styttri textum efnir til málþings um örtexta, gamla og nýja í Veröld - húsi Vigdísar (heimasvæði á 2. hæð) fimmtudaginn 19. janúar kl. 15:00-18:30. Markmið þingsins er að veita svigrúm fyrir fræðilega umræðu um örstutt bókmenntaverk. Smellið hér fyrir nánari upplýsingar um STUTT-rannsóknastofu

Verið hjartanlega velkomin. Opið öllum áhugasömum. Léttar veitingar.

Dagskrá:

  • Ármann Jakobsson: „Fátækur maður týndi fjötri góðum“: Andstæður þessa heims og annars í 37 orðum við upphaf 13. aldar. 
  • Ásdís Rósa Magnúsdóttir: „Ýmsir eiga högg í annars garð.“ Nokkrar dæmisögur úr Kvöldvökunum 1794. 
  • Kristín Guðrún Jónsdóttir: Sætróma söngur eða fiskifýla? Um sírenur og hafmeyjur í örsögum.
  • Magnús Sigurðsson: Upplestur úr eigin verkum.
  • Áslaug Agnarsdóttir: Danííl Kharms og rússneska örsagan.
  • Guðrún Björk Guðsteinsdóttir. Örsagnasveigur um Gimli, Manitoba eftir David Arnason. 
  • Hólmfríður Garðarsdóttir. Sérherbergi skortir en þær skrifa samt. Örsagnaritun kvenna í Mið-Ameríku.
  • Aðalheiður Guðmundsdóttir. Íslensk ævintýri: Miðlun og möguleikar.

Útdrættir erinda:

Ármann Jakobsson: „Fátækur maður týndi fjötri góðum“: Andstæður þessa heims og annars í 37 orðum við upphaf 13. aldar.

Íslenskar jarteinir eru meðal elstu varðveittu texta á okkar máli en lítið hefur verið fjallað um málfar þeirra, byggingu og önnur bókmenntaleg einkenni. Þar er stundum fjallað í fáum orðum um viðburði sem eru þó stórvægir í lífi einstaklinga og eru þetta einna bestu heimildir frá miðöldum um daglegt líf fólks á þeirri tíð.

Ásdís Rósa Magnúsdóttir: „Ýmsir eiga högg í annars garð.“ Nokkrar dæmisögur úr Kvöldvökunum 1794. 

Kvöldvökurnar 1794 komu út í tveimur bindum á árunum 1796-97. Verkið var ætlað íslenskum almúgabörnum, til upplestrar á vetrarnóttum, og það inniheldur fjölbreytt efni úr ýmsum áttum, þýtt og frumsamið af Hannesi Finnsyni biskupi í Skálholti. Þar er m.a. að finna 38 dæmisögur, langflestar í anda Esóps. Svo virðist sem a.m.k. tæplega helmingur þeirra séu þýðingar Hannesar sjálfs á fabúlum eftir Jean de La Fontaine (1621-1695) sem komu út í lok 17. aldar. Hér verður sagt frá vali Hannesar og úrvinnslu hans á fabúlunum. 

Kristín Guðrún Jónsdóttir: Sætróma söngur eða fiskifýla? Um sírenur og hafmeyjur í örsögum

Í örsagnaskrifum spænskumælandi höfunda hefur verið vinsælt að endurtúlka og endurrita gamla texta, meðal annars goðsagnir úr grísk-rómverskri hefð. Staðlaðar útleggingar eru teknar til bæna, fornar hetjur felldar af stalli sínum og nýjar túlkanir settar fram. Í erindinu verður þetta samtal við bókmenntir fortíðarinnar skoðað og sjónum beint að mismunandi túlkunum á sírenum Ódysseifskviðu og síðari tíma hafmeyjum eins og þær koma fram í nútíma örsögum.

Áslaug Agnarsdóttir: Danííl Kharms og rússneska örsagan

Örsögur hafa ekki verið áberandi í rússneskum bókmenntum. Rússneski 19. aldar höfundurinn Ívan Túrgenev er talinn hafa verið frumkvöðull á því sviði, en á 20. öldinni var það fulltrúi framúrstefnubókmenntanna, skáldið Danííl Kharms, sem bar höfuð og herðar yfir aðra þegar kom að því að semja stutta texta af ýmsu tagi. Kharms var lengi vel nánast óþekktur jafnt í heimalandi sínu sem og erlendis, en eftir að glasnost-stefnan kom til sögunnar var farið að birta verk eftir fjölmarga höfunda sem höfðu verið á bannlista kommúnistastjórnarinnar, þar á meðal sögur Kharms. Hann er nú talinn einn fremsti höfundur Rússa á fyrri helmingi síðustu aldar.

Guðrún Björk Guðsteinsdóttir: Örsagnasveigur um Gimli, Manitoba eftir David Arnason.

Íslensk-kanadíski rithöfundurinn David Arnason gaf út smásöguna „50 Stories and a Piece of Advice“ eða „50 sögur og eitt heillaráð“ í samnefndu smásagnasafni árið 1982, og er titill sögunnar mjög lýsandi. Hún sver sig í ætt við þekktustu smásagnasveiga um smábæjarlífið í norður-amerískum bókmenntum: Sunshine Sketches of a Little Town sem Stephen Leacock gaf út árið 1912 í Kanada og Winesburg, Ohio: A Group of Tales of Ohio Small-Town Life sem Sherwood Anderson gaf út í Bandaríkjunum árið 1919. Leacock hefur góðlátlegan húmor að leiðarljósi í verki sínu en umfjöllunarefni Andersons eru skuggahliðar andlegra þrenginga bandaríska smábæjarlífsis. Smásaga Davids víkur frá þessum verkum með mjög afgerandi hætti; hún er samsett úr fjölda örsagna og er því nýbreytni í formgerð, sem nefna mætti örsagnasveig.

Hólmfríður Garðarsdóttir: Sérherbergi skortir en þær skrifa samt. Örsagnaritun kvenna í Mið-Ameríku.

Umfjöllun um örsöguna í smáríkjum Mið-Ameríku hefur staðið utan eða til hliðar við almenna bókmenntaumræðu lengst af. Ljóðið hefur gegnt lykilhlutverki, smásagan verið vinsæl, og skáldsagan drottningin. Í erindinu verður brugðið upp svipmyndum af örsagnaskrifum kvenna frá smáríkjum álfunnar og farið með áheyrendur í ferðalag til þessara fjarlægu landa og til umhverfis sem um margt er framandi – en þó ekki því í ljós kemur að umfjöllunarefni örsagnanna eru um margt kunnugleg.

Aðalheiður Guðmundsdóttir: Íslensk ævintýri: Miðlun og möguleikar

Fyrirlesturinn fjallar um Ævintýragrunninn – gagnagrunn sem var settur saman í þeim tilgangi að auðvelda rannsóknir á íslenskum ævintýrum og samanburð á þeim. Grunnurinn var upphaflega kennsluverkefni og aðgengilegur í tilraunahefti, en var að lokum sameinaður sagnagrunninum (Sagnagrunnur.com) árið 2016. Sagnagrunnurinn, og Ævintýragrunnurinn þar með, voru svo fluttir yfir til Ísmús.is árið 2022 en við það breyttist viðmót þeirra og leitarmöguleikum fjölgaði (https://www.ismus.is/tjodfraedi/aevintyri/). Í fyrirlestrinum verður farið yfir þetta nýja viðmót og notkunarmöguleika grunnsins. Sýnt verður fram á nytsemi grunnsins við rannsóknir á íslenskum ævintýrum og dæmi tekið, þar sem nánar verður litið á ævintýragerð nr. ATU 480 og varðveitt tilbrigði hennar á Íslandi.

STUTT-rannsóknastofa í smásögum og styttri textum efnir til málþings um örtexta, gamla og nýja í Veröld - húsi Vigdísar 19. janúar kl. 15:00-18:30.

Málþing: Örsögur í nútíð og þátíð