FX Vélþjarkur Sívalur vélþræll (Cylindrical Robot) sem var hannaður og smíðaður af Mareki Antoni Kraciuk og Robert Konrad Kraciuk í áfanganum Mekatrónísk Kerfi árið 2018. Grettir - Fimm ása vélþjarkur Grettir er fimm liða vélþjarkur sem var hannaður og smíðaður af Atla Fannari Skúlasyni og Þóri Sævari Kristinssyni á lokaári í Mekatróník hátæknifræði árið 2017. Verkefnið var unnið í áföngunum Mekatrónísk Kerfi I og II. Hann var hannaður frá grunni og m.a. notast við hönnunarbúnaðinn Autodesk Inventor fyrir burðarþolsútreikninga og útlitshönnun, og Eagle Cadsoft fyrir hönnun á rafrásum og stýrieiningum. Gerð var krafa um að vélarmurinn hafi að lágmarki 500 gr lyftigetu í ystu stöðu, hafi a.m.k fimm frelsisgráður og vinnslusvið upp á 50 cm radíus. Vélarminum er stjórnað af 8-bita PIC örtölvu sem mótar rafræn stýrimerki fyrir mótorstýringar vélarmsins út frá áætluðu færsluferli notenda. Örtölvan heldur einnig utan um alla skynjara- og gagnavinnslu eins og merkjum frá kóðara (e. encoder), endastöðurofum og samskiptum við notenda. Hönnuð var sér prentplöturás sem hýsir örtölvuna ásamt þeim rafeindaíhlutum sem þarfir eru til að gegna fyrirgreindu hlutverki. Grettir er gott dæmi um praktískt verkefni sem reynir á stöðu þekkingar og sameinar marga þætti sem snúa að hönnun, smíði og útfærslu á vél- og rafeindabúnaði. Skittles litaflokkari Tækið var upphaflega hannað og smíðað af Guðmundi Arnari Grétarssyni og Sigurði Erni Hreindal árið 2013. Markmið verkefnisins var að hanna búnað sem getur flokkað mislitaðar einingar eftir lit. Til lausnar er notuð örtölva og ljósnemi. Búnaðurinn er með forðabúri sem gefur frá sér eina einingu á færibandshjól í einu fyrir ljósnemann til að greina. Þegar sú greining er búin setur búnaðurinn eininguna í viðeigandi hólf eftir litum. Flokkarinn getur tekið sporöskjulaga einingar sem hafa radíus 7.5 mm og þykkt 10 mm og flokkað þær eftir fimm mismunandi litum. Þeir eru rauður, fjólublár, grænn, gulur og appelsínugulur. Eitt aukahólf er síðan fyrir óskilgreinda liti sem litaskynjarinn greinir ekki. Árið 2014 var síðan uppfært stýribúnaðinn og tækið endurforritað frá grunni af þeim Thomas Edwards og Guðmundi Þóri Ellertsyni. Táknmálshanski Markmið verkefnisins var að búa til hanska sem getur numið táknmál og þýtt það yfir í texta eða tal sem auðveldar heyrnalausu fólki að eiga samskipti við aðra. Verkefnið var unnið af Hirti Elí Steindórssyni og Pétri Frey Kristmundssyni í áfanganum Leiðbeint Nám árið 2017. Hanskinn notast tvo flex-skynjara og einn þrýstiskynjara fyrir hvern fingur til að mæla og fylgja eftir hreyfingu, ásamt tveimur þriggja-ása snúðvísum til að vita stefnu og hreyfingu handarinnar miðað við stöðu framhandleggsins og handleggsins í heild. Lítil örtölva sér um að safna gögnum frá öllum skyjurum, ásamt greiningu á táknum. Í lok verkefnins gat hanskinn greint tölur á bilinu núll til tíu eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan. Næsta skref er að útbúa tauganet svo auðveldara sé að greina tákn eins og bókstafi og í framhaldi af því, orð. Núna í dag er enn verið að vinna í verkefninu, en næsta skref er að koma upp tauganeti svo auðveldara sé að greina tákn eins og bókstafi og í framhaldi af því, orð og setningar. facebooklinkedintwitter