Skip to main content

Auka veg rannsókna innan Háskóla Íslands

Bent Scheving Thorsteinsson viðskiptafræðingur og kona hans, Margaret Scheving Thorsteinsson, eru meðal mestu velgjörðamanna Háskóla Íslands en þau hafa á undanförnum árum fært háskólanum alls um 60 milljónir króna sem hafa runnið til stofnunar þriggja sjóða til stuðnings vísindum og rannsóknum.  

Sjóðirnir sem Bent og Margaret kona hans stofnuðu eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis, Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar. Sjóðirnir heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands.  

Frá upphafi hafa um fjörutíu rannsóknastyrkir verið veittir úr sjóðunum sem hafa gefið ungum vísindamönnum ómetanleg tækifæri til rannsókna. Í viðtali sem birt er á vef háskólans segir hann m.a. um þessar rausnarlegu gjafir: „Með því að styðja við vísindarannsóknir við háskólann hafa fjölmargir sýnt þjóð sinni sóma og það er mér sannur heiður að fá að komast í hóp þeirra manna sem hafa stutt skólann. Háskólinn hefur sett sér það markmið að verða á lista hundrað bestu háskóla í heimi. Ef ég get stutt skólann á þeirri vegferð með því að auka veg vísindarannsókna við skólann, þá finn ég til stolts.“   

Bent Scheving Thorsteinsson var fæddur árið 1922 og hann lést í byrjun árs 2015 á 93. aldursári. Hann var sonur Guðrúnar Sveinsdóttur og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Fyrstu æviárin ólst Bent upp í Danmörku hjá dönskum fósturforeldrum en um níu ára aldur fluttist hann hingað til lands þar sem hann ólst upp með móður sinni og eiginmanni hennar, Óskari Þórðarsyni barnalækni. Bent átti síðar ágæt samskipti við föður sinn.  

Bent hóf nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1943 en lauk námi í hagfræði frá The Wharton School of Finance and Commerce í Bandaríkjunum. Bent kynntist eiginkonu sinni, Margaret Scheving Thorsteinsson, í Bandaríkjunum og eignuðust þau sjö börn. Bent vann lengst af hjá Rafmagnsveitum ríkisins, bæði sem innkaupastjóri og sem fjármálastjóri. Hann lét sig ýmis velferðar- og félagsmál varða og var m.a. skátaforingi og formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar.   

Bent Scheving var í mun að gefa til baka til samfélagsins af því sem hann hafði aflað sér. Um það sagði hann í viðtali: „(e)ftir að ég hætti vinnu fór ég að sýsla með sparnaðinn og sá að hægt var að ávaxta peningana betur en bauðst í bönkunum. Ég hóf því viðskipti með verðbréf. Þegar ég var kominn fyrir vind vildi ég að aðrir gætu notið ávaxtanna af því sem ég hafði verið að sýsla.“  

Bent var mikill áhugamaður um vísindarannsóknir og þekkingarsköpun og af þeim sökum naut Háskóli Íslands velvilja þeirra hjóna. Styrktarsjóðir á borð við þá sem þau hjónin stofnuðu eru mjög mikilvægir, ekki síst fyrir unga vísindamenn sem eru að hasla sér völl og sækja fram innan greinar sinnar. Það er rannsóknastarfi Háskóla Íslands mikil lyftistöng að eiga jafn mikla velgjörðamenn og Bent Scheving Thorsteinsson og Margaret, konu hans, og munu sjóðirnir halda minningu Bents á lofti um ókomin ár.  
 

Bent Scheving Thorsteinsson

Bent Scheving Thorsteinsson

Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis var stofnaður árið 2000 en markmið hans er að veita verðlaun fyrir vísindaafrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga. Bent stofnaði sjóðinn til minningar um fósturföður sinn, Óskar Þórðarson barnalækni, sem gekk honum í föðurstað.   

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar var stofnaður árið 2001, en sjóðurinn veitir verðlaun fyrir vísindaafrek og styrkir rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði. Sjóðinn stofnaði Bent til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson.  

Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður árið 2001 og veitir styrki til að rannsaka einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að koma í veg fyrir einelti og bæta fyrir afleiðingar þess.    Frekari upplýsingar um Styrktarsjóði Háskóla Íslands er að finna á sjóðavef háskólans.  

Viðtal við Bent Scheving Thorsteinsson    

Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson með styrkhöfum úr Verðlaunasjóði
 Bent Scheving Thorsteinsson og Margaret ásamt styrkhöfum úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar í júní 2013 en sjóðurinn veitir viðurkenningar fyrir vísindaleg afrek og rannsóknir í barnalækningum. Í efri röð frá vinstri eru þau Þórður Þórkelsson, Ingibjörg Georgsdóttir og Þórólfur Guðnason.