Skip to main content
21. janúar 2015

Hlutu Fjöruverðlaunin fyrir fræðibók og unglingabók

Hlutu Fjöruverðlaunin fyrir fræðibók og unglingabók - á vefsíðu Háskóla Íslands

Bókin „Ofbeldi á heimili – Með augum barna“, sem er í ritstjórn Guðrúnar Kristinsdóttur, prófessors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og rituð af henni ásamt hópi fræðimanna og fyrrverandi nemenda við Háskóla Íslands, og „Hafnfirðingabrandarinn" eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, meistaranema í ritlist við Hugvísindasvið skólans, hlutu í dag hin virtu Fjöruverðlaun, bókmenntaverðlaun kvenna. Tilkynnt var um vinningshafa við hátíðlega athöfn í Höfða í dag.

Níu bækur í þremur flokkum voru tilnefndar til verðlaunanna, í flokkum fagurbókmennta, fræðibóka og rita almenns eðlis og barna- og unglingabókmennta. Auk bókarinnar „Ofbeldi á heimili“ voru  „Saga þeirra, saga mín“ eftir Helgu Guðrún Johnson og „Kjaftað um kynlíf með Siggu Dögg“ eftir Sigríði Dögg Arnardóttur, einnig tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Í flokki barna- og unglingabókmennta voru auk „Hafnfirðingabrandarans“ tilnefndar bækurnar „Á puttanum með pabba“ eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur og „Vinur minn vindurinn“ eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Þá var bókin Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttir, meistaranema í ritlist, tilnefnd í flokki fagurbókmennta en verðlaunin hlaut Elísabet Jökulsdóttir fyrir bókina „Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett“.

Um Ofbeldi á heimili - Með augum barna
Auk Guðrúnar Kristinsdóttur rita þær Ingibjörg H. Harðardóttir, lektor í sálfræði við Menntavísindasvið, Margrét Ólafsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið, og Steinunn Gestsdóttir, dósent í þroskasálfræði við Sálfræðideild, kafla í bókinni ásamt þeim Margréti Sveinsdóttur og Nönnu Þ. Andrésdóttir, sem báðar rituðu meistararitgerðir um ofbeldi á heimilum, Margrét undir leiðsögn Guðrúnar Kristinsdóttur og Nanna undir leiðsögn Guðrúnar og Ingibjargar H. Harðardóttur. Bókin, sem Háskólaútgáfan gaf út, hefur vakið verðskuldaða athygli enda í fyrsta sinn sem ofbeldi á heimili frá sjónarhóli barna er rannsakað.

Í rökstuðningi dómnefndar um bókina segir m.a. að þar sé á ferðinni yfirgripsmikil rannsókn á upplifun barna á heimilisofbeldi. „Höfundar nálgast efnið frá mörgum sjónarhornum og sýna fræðilegan metnað með því að byggja rannsóknina á breiðum grunni megindlegrar og eigindlegrar aðferðafræði.

Bókin samþættir niðurstöður yfirgripsmikillar könnunar á þekkingu barna á heimilisofbeldi, viðtöl við börn og mæður þeirra sem búið hafa við ofbeldi á heimilum ásamt greiningu á orðræðu fjölmiðla um heimilisofbeldi. Þetta er frumkvöðlarannsókn sem á sér fáar hliðstæður erlendis og er einstök í íslensku samfélagi, þar sem ofbeldi á heimilum hefur ekki áður verið rannsakað frá sjónarhóli barna.

Áhersla er lögð á börn sem áhrifavalda í eigin lífi, frekar en óvirka þolendur. Á þessari sýn er hnykkt í lokakafla bókarinnar þar sem fjallað er um ráðleggingar barna til annarra barna um viðbrögð við ofbeldi á heimilum.

Þótt umræða um ofbeldi á heimilum hafi aukist hér á landi á síðustu árum ríkir þó enn viss þögn um það. Bókin er því mikilvægt framlag til þessara mála og er vel til þess fallin að skapa um þau breiðan umræðugrundvöll.“

Um Hafnfirðingabrandarann
Unglingabókin Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur kom út nú fyrir jólin en Bryndís hefur unnið að bókinni í meistaranámi sínu í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þetta eru ekki fyrstu verðlaunin sem Bryndís hlýtur því árið 2011 hlaut hún Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina „Flugan sem stöðvaði stríðið“.

Í umsögn dómnefndar um „Hafnfirðingabrandarann“ segir að bókin sé vel skrifuð og skemmtileg, söguþráður frumlegur og listilega fléttaður. „Frásagnarstíllinn er ærslafullur og myndrænn og lestrarupplifunin á stundum eins og horft sé á kvikmynd. Frásögnin er margradda og þær segja grípandi sögu sem vekur sterka samlíðan með persónunum.

Helsti styrkur sögunnar er hvernig hún fjallar samskipti kynslóða og dregur upp flóknar sögupersónur af eldri kynslóðinni, persónur sem eru margbrotið og áhugavert fólk. Heimur eldri borgara er gerður merkingarbær og spennandi fyrir ungt fólk og veitt er óvenjuleg innsýn í líf þeirra.

Viðfangsefni sögunnar eru viðkvæm málefni eins og einelti, kvíðaröskun unglinga, ástin og ástarsorgin og er fjallað raunsæislega um þau án þess að bjóða einfaldar lausnir. Átakafletirnir eru ekki settir upp eins og vandamál sem þurfi að sigrast á, heldur sem áskoranir til að lifa með. Enginn stendur uppi sem sigurvegari. Sagan fjallar um það að taka ábyrgð á eigin lífi og sínum nánustu og horfast í augu við sjálfan sig.

Dómnefnd telur að Hafnfirðingabrandarinn hafi alla burði til að verða sígild unglingabók.“

Þess má geta að Bryndís er einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina.

Um Fjöruverðlaunin
Fjöruverðlaunin hafa verið afhent frá árinu 2007 en markmið þeirra er m.a. að hvetja kvenrithöfunda til dáða. Þetta því í níunda skipti sem verðlaunin eru veitt en fram kemur á heimasíðu verðlaunanna að þetta sé í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt frá því að borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna.

Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramik-egg eftir listakonuna Koggu en að þessu sinni steig frú Vigdís Finnbogadóttir á svið og afhenti verðlaunahöfum gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði,

""
""
Verðlaunahafar ásamst þeim Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Frá vinstri: Elíabet Jökulsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir. Myndin er fengin af heimasíðu Fjöruverðlaunanna.
Verðlaunabækurnar Ofbeldi á heimilum - Með augum barna og Hafnfirðingabrandarinn hafa báðar vakið mikla athygli.