Veglegur styrkur til að meta breytingar á viðhorfum Evrópuþjóða
Vísindakonur við Háskóla Íslands eru meðal þeirra sem standa að Evrópsku samfélagskönnuninni sem hlaut á dögum nærri fimm milljóna evra styrk, jafnvirði nærri 700 milljóna króna, frá Evrópusambandinu. Markmiðið er að sögn aðstandenda m.a. að geta lagt betur mat á samfélagsþróunina í Evrópu, svo sem hvort og þá hvernig félagsleg, stjórnmálaleg og siðferðisleg umgjörð í Evrópulöndum er að breytast.
Til þess að geta áttað sig á því hvar við Íslendingar stöndum í samanburði við aðrar þjóðir á ýmsum sviðum skiptir máli að hafa traust gögn sem byggjast á alþjóðlega viðurkenndum rannsóknum. Evrópska samfélagskönnunin (European Social Survey (ESS)) hefur verið lögð fyrir annað hvert ár allt frá árinu 2002 og hafa Íslendingar tekið þátt í henni fjórum sinnum.
„Í könnuninni eru viðhorf og hegðun almennings í meira en 30 löndum skoðuð. Markmiðið er að skoða stöðugleika og breytingar í félagsgerð, aðstæðum og viðhorfum í Evrópu. Jafnframt er markmiðið að kynna vísa um framþróun samfélaga sem byggjast á gögnum sem uppfylla strangar gæðakröfur þar sem skoðuð eru viðhorf og mat almennings á mikilvægum þáttum í samfélaginu og einnig að auka sýnileika og notkun gagna um félagslegar breytingar á meðal háskólafólks, stefnumótenda og almennings,“ segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði í Háskóla Íslands. Hún stýrir rannsókninni hér á landi ásamt Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur, forstöðumanni Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Sigrún bætir við að markmiðið með rannsókninni sé ekki síður efla enn frekar gæði og áreiðanleika alþjóðlegra rannsókna í félagsvísindum og þjálfa evrópskt félagsvísindafólk í að hanna og greina samanburðargögn.
Mikilvægt að fá samfellu í alþjóðlegum rannsóknum
„Könnunin er byggð þannig upp að spurt er ákveðinna grunnspurninga í hvert sinn. Þessar spurningar taka til dæmis á notkun á fjölmiðlum og neti, félagslegu trausti, stjórnmálum, vellíðan, félagslegri útskúfun, glæpum, trúmálum, mismunun og sjálfsmynd. Síðan eru tveir efnishlutar í hverri könnun, sem samanstanda af 30 spurningum og eru þeir breytilegir á milli kannana. Þeir eru ákvarðaðir á þann hátt að félagsvísindafólki er boðið að senda inn tillögur og eftir strangt jafningjamat eru tveir efnishlutar valdir. Dæmi um slíka hluta eru t.d. ójöfnuður í heilsu, lýðræði, öldrunarfordómar og fjölskyldulíf. Ísland tók síðast þátt 2016 en þá var spurt um viðhorf til loftslagsbreytinga og til velferðarkerfisins, og við vorum að klára að safna gögnum fyrir árið 2018 en þar var spurt um tímasetningu lífsviðburða og réttlætti og sanngirni í Evrópu,“ útskýrir Sigrún og bætir við að einnig sé spurt um bakgrunn svarenda eins og í flestum könnunum.
Sigrún hefur um árabil lagt mikla áherslu á að Ísland taki þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem þessum. Hún segir skort á fjármagni hafa ráðið því að Íslendingar hafi aðeins tekið þátt í ESS-könnuninni fjórum sinnum. „Ein ástæða þess að könnunin er mjög dýr er að þetta er heimsóknakönnun, en önnur er að um að ræða eina vönduðustu félagsvísindakönnun sem gerð er í heiminum og kröfurnar sem eru gerðar um gæði gagna eru með því mesta sem þekkist,“ bætir hún við. Könnuninni sé miðstýrt frá London en hvert þátttökuland hafi þó umtalsvert að segja um þróun hennar.
„Ég hef lengi verið áhugamanneskja um að koma Íslandi í alþjóðlegar kannanir og tel mjög mikilvægt að við tökum þátt í þeim félagsvísindakönnunum sem eru hvað þekktastar og virtastar í heiminum og Guðbjörg Andrea hefur auðvitað verið leiðandi í öllu starfi sem tengist könnunum á Íslandi í áratugi. Þátttakan í ESS var í raun beint framhald af samstarfi okkar um þátttöku í Alþjóðlegu viðhorfakönnuninni (International Social Survey Programme - ISSP). Ég kom Íslandi inn í þá könnun árið 2009 og við Guðbjörg Andrea höfum síðan unnið saman að þeirri könnun síðan 2012,“ útskýrir Sigrún þegar spurt er um ástæður þess að þær Guðbjörg koma að ESS-könnuninni.
Hún bætir við að þeim Guðbjörgu hafi þótt mikilvægt að koma könnuninni í ákveðið ferli hérlendis og sjá til þess að Ísland yrði alltaf með. „Þetta er afar mikilvægt, bæði vegna þess að breytilegu hlutar könnunarinnar eru almennt mjög spennandi fyrir fræðafólk og taka á mikilvægum samfélagsmálum, en ekki síður vegna þess að gögnin bjóða upp á möguleika á að fylgjast með samfélagsþróun í viðhorfum Íslendinga og breytingum á þeim,“ segir Sigrún en auk ofangreindra kannana hafa þær stöllur komið saman að Evrópsku lífsgildakönnuninni (EVS).
„ Þessi gögn eru mikilvæg fyrir félagsvísindafólk þar sem að starf okkar felst í því að skilja og greina samfélagið en þau eru einnig mikilvæg fyrir stefnumótun, þar sem það hlýtur að teljast eðlilegt í lýðræðissamfélagi að stefnumótun endurspegli vilja almennings, a.m.k. að einhverju leyti og í mikilvægustu málunum,“ segir Sigrún.
Tekist á við könnunarþreytu
Styrkurinn stóri frá Evrópusambandinu skiptist á milli þátttökulandanna en hann nýtist til tiltekins verkefnis sem fengið hefur nafnið SUSTAIN 2. Ætlunin er að safna gögnum fyrir Evrópsku samfélagskönnunina í gegnum netpanel í tólf löndum til viðbótar við gögn í áðurnefndum heimsóknarkönnnunum. „Þau sem standa að alþjóðlegum könnunum, sem þurfa að uppfylla ströngustu gæðakröfur, standa frammi fyrir tveimur vandamálum. Annars vegar að þær eru mjög dýrar í framkvæmd og hins vegar því umhverfi sem við búum við núna þar sem sífellt er verið að biðja fólk um að taka þátt í könnunum og því hætta á svokallaðri „könnunarþreytu“. Þetta er auðvitað sérstaklega líklegt vandamál í litlum samfélögum eins og hér á Íslandi þar sem að þýðið sem við höfum úr að moða er mjög lítið. Þegar ströngustu gæðakröfum um hvernig eigi að taka úrtök sem endurspegla þjóðina er fylgt þá þurfum ekki mikið fleiri til að svara í 360.000 manna samfélagi, eins og á Íslandi, og í 83 milljóna samfélagi, eins og til dæmis Þýskalandi,“ bendir Sigrún á.
Markmiðið í rannsókninni sé því að meta hvort mögulegt sé að fá jafn góð eða jafnvel betri gögn með því að notast við netpanela og með heimsóknarkönnunum, sem hingað til hafa fengið á sig ímynd gullstaðals í félagsvísindarannsóknum. „Við munum því vinna með tvö úrtök sem endurspegla þjóðina, annars vegar það sem safnað er með heimsóknarkönnun og hins vegar það sem safnað er með netpanel. Svo er hægt að bera saman hvort við fáum sambærileg svör þrátt fyrir að við notum mismunandi aðferð við gagnaöflun,“ útskýrir Sigrún.
Fleiri viðurkenna trú á endurholdgun í netpanel en heimsóknarkönnun
Sigrún segir að helsti kostur þess að nýta netpanel sé á að hann sé ódýrari og fólk sé hugsanlega frekar tilbúið að taka þátt í þess konar könnun. „Að auki má benda á að rannsóknir sýna að einstaklingar geta verið líklegri að játa viðhorf sem eru talin síður félagslega æskileg, t.d. varðandi kynþáttafordóma eða áhættuhegðun með þess konar aðferð,“ segir Sigrún. Niðurstöður úr Evrópsku lífsgildakönnuninni (EVS) hafi t.d. sýnt að hlutfallslega fleiri Íslendingar hafi sagst trúa á endurholdgun í netkönnun en í heimsóknarkönnun „sem gæti verið vísbending um að fólk gæti verið feimið að játa þetta fyrir spyrli sem situr fyrir framan það en tilbúið til þess þar sem það situr væntanlega eitt fyrir framan tölvu.“
SUSTAIN 2 verkefnið hófst nú í upphafi árs og áætlað er að það standi næstu þrjú ár. Aðspurð segir Sigrún að þátttaka í rannsókninni skipti afskaplega miklu máli fyrir íslenskt samfélag. „Hún gefur okkur ekki einungis viðhorf Íslendinga til margra mikilvægustu málaflokka sem við stöndum frammi fyrir heldur leyfir hún okkur að setja þessi viðhorf í evrópskt samhengi. Gögnin gera okkur kleift að skoða samfélagslega þróun á Íslandi. Það er til dæmis hægt að ímynda sér hversu mikill fjársjóður það væri ef við ættum þessi gögn um íslenskt samfélag síðan 2002 og það er minn draumur að íslenskt félagsvísindafólk muni árið 2050 hafa aðgang að gögnum sem mæla viðhorf Íslendinga og breytingar á þeim yfir rúmlega 30 ára tímabil,“ segir Sigrún.
Gögnin mikilvæg fyrir stefnumótun í samfélaginu
En rannsóknin mælir ekki bara viðhorf og prósentutölur. „Það verður einnig hægt að skoða hvort stuðningur við ákveðnar hugmyndir hafi aukist eða minnkað hjá ákveðnum þjóðfélagshópum yfir tíma. Hér getum við til dæmis skoðað hvort það sé kynjamunur í stjórnmálaþátttöku, notkun á fjölmiðlum eða viðhorfum til innflytjenda, og hvort munurinn á milli kynja standi í stað, aukist eða minnki. Þessi gögn eru mikilvæg fyrir félagsvísindafólk þar sem starf okkar felst í því að skilja og greina samfélagið en þau eru einnig mikilvæg fyrir stefnumótun þar sem það hlýtur að teljast eðlilegt í lýðræðissamfélagi að stefnumótun endurspegli vilja almennings, a.m.k. að einhverju leyti og í mikilvægustu málunum,“ segir Sigrún að endingu.