Skip to main content
6. janúar 2020

Er engin spurn eftir konum í æðstu stjórnunarstöður?

""

Er engin eftirspurn eftir konum í æðstu stjórnunarstöður?  Þetta er spurning sem þau  Ásta Dís Óladóttir lektor, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson dósent og Þóra H. Christiansen aðjunkt leita svara við í nýrri grein í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Þau starfa öll við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. 

Greinin byggist á niðurstöðum úr rannsókn þeirra þriggja sem snýst um stöðu kvenna í hlutverki æðstu stjórnenda á Íslandi. Í greininni er vakin athygli á því að Íslendingum hafi tekist að jafna að mestu það kynjabil sem hér hefur ríkt en vitnað er í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins því til staðfestingar. Ísland er enda það land sem hefur náð hvað lengst á sviði jafnréttismála. 

„Þrátt fyrir það gegnir engin kona stöðu forstjóra í skráðu félagi og afar fáar konur eru í framkvæmdastjórnum,“ segir Ásta Dís Óladóttir. Hún bætir því við að markmið rannsóknarinnar hafi verið að skoða hvað þessu valdi og til hvaða ráðstafana væri unnt að grípa, að mati kvenna sem nú þegar gegna stjórnunar- og leiðtogastöðum. Tilgangurinn: Jú, að auka hlutdeild kvenna í æðstu stjórnunarstöðum. 

„Mikil umræða er um þessar mundir um stöðu kvenna í stjórnum og æðstu stjórnendastöðum á Íslandi og fyrirtæki hvött til þess að auka hlut þeirra, en svo undarlegt sem það nú er þá hefur konum verið að fækka í stjórnum félaga og sem stjórnarformönnum í skráðum félögum,“ segir Ásta Dís.

Könnun meðal forystukvenna í íslensku atvinnulífi

Í því skyni að leita skýringa á stöðunni var gerð könnun meðal forystukvenna í íslensku atvinnulífi. Alls tóku 186 konur þátt og helstu niðurstöður eru þær að meirihluti svarenda telur aðgerða þörf, jafnvel lagasetningar sem kveður á um að kynjakvóti verði settur á æðstu stjórnunarstöður. Stór hluti þátttakenda telur að engin smitáhrif hafi orðið af lagasetningunni 2010 um kynjakvóta á stjórnir. 
„Þessar niðurstöður hafa vakið mikla athygli í samfélaginu og miðað við viðbrögðin við rannsókninni er ljóst að þörf er á róttækum breytingum,“ segir Ásta Dís. „Ekki verður lengur unað við núverandi ástand samkvæmt því sem þátttakendur í rannsókninni okkar sögðu.“

Hún segir að eðlilega séu mjög skiptar skoðanir um það hvort kynjakvótar sé lausnin svo jafna megi hlutfall kynjanna meðal æðstu stjórnenda íslenskra fyrirtækja. „En þegar spurt var beint hvort setja ætti sérstakan kynjakvóta á stjórnunarstöður innan fyrirtækja hér á landi voru tæp 60% aðspurðra því fylgjandi og rúmlega 40% á móti. Nokkrar konur nefndu að innleiðing kynjakvóta væri ekki óskaúrræði en slík tilhögun væri eina leiðin til þess að koma á hugarfarsbreytingu og gefa konum tækifæri. Niðurstöður könnunarinnar má því hiklaust túlka sem ákall um aðgerðir.“

Ásta Dís segir að menningin og hugarfar þurfi einnig að breytast. „Konur þurfa fleiri tækifæri og karlmenn að axla meiri ábyrgð á fjölskyldulífi. Samkvæmt rannsókninni er þetta ekki spurning um framboð á hæfum konum, það er til staðar, þetta snýst einfaldlega um eftirspurn.“

Hvers vegna eru svona fáar konur í framkvæmdastjórnum?

Jafnréttismál hafa verið Ástu Dís hugleikin alla tíð og lítið til í hennar huga sem heita karla- eða kvennastörf. „Mig skiptir mestu að hæfur einstaklingur sé að sinna starfinu. Því hef ég oft velt fyrir mér hvers vegna svona fáar konur eru í forsvari hér og þar. Hér áður fyrr þegar ég fletti viðskiptasíðum blaðanna þá var sjaldnast mynd af konum, nánast eingöngu myndir af karlmönnum, hvort heldur sem álitsgjafar eða þegar verið var að segja frá ráðningum í stjórnunarstöður. Sama var upp á teningnum þegar ég skoðaði hverjir væru í forsvari fyrir hin og þessi samtök. Árið 2015 var ein kona í forsvari fyrir helstu samtökin í atvinnulífinu og það var fyrir Samtök aðila í ferðaþjónustu, karlmenn sátu í öðrum stólum.“ 

Ásta Dís segir að þessum tíma hafi hún verið varaformaður stjórnar Vátryggingafélags Íslands þar sem kona sat í forstjórastóli, sú eina í skráðu félagi í Kauphöll Íslands.  „Í dag er þar engin kona og hefur ekki verið frá 2016. Því fórum við Gylfi og Þóra að velta fyrir okkur hvers vegna staðan væri eins og hún er. Við vitum að  nóg er til af hæfum konum, konur sitja í stjórnum, en hvers vegna eru þær ekki forstjórar og hvers vegna eru svona fáar í framkvæmdastjórnum skráðra fyrirtækja? Við vildum vita hvað  konur  segja sjálfar um stöðuna, engin slík rannsókn lá fyrir á viðhorfum kvenna sem eru nú þegar fyrirtækjaeigendur, stjórnendur eða stjórnarmenn.“

Ásta Dís hefur verið stjórnarmaður í fyrirtækjum og stofnunum í bráðum tvo áratugi og oft velt þessu fyrir sér.  „Um og eftir síðustu aldamót voru fáar konur í stjórnum. Ég var oft eina konan í stjórn og í frumkvöðlafyrirtækjunum fékk ég stundum spurningar á fundum með fjárfestum hvort ég væri eiginkona forstjórans,“ segir Ásta Dís og brosir en þó er ljóst á öllu að henni er ekkert sérstaklega skemmt. „Þetta breyttist í raun hægt fram að lagasetningunni um kynjakvóta í stjórnum félaga árið 2010, sem kvað á um að hvort kyn skyldi vera að lágmarki 40% í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli.“

„Nú er tæpur áratugur síðan kynjakvótalög á stjórnir voru sett hér á landi,“ segir Ásta Dís,  „og því má fagna að þau leiddu til talsverðrar breytinga í þá átt að fjölga konum í stjórnum. Margir bundu vonir við að lagasetningin myndi hafa svokölluð smitáhrif, að konum í framkvæmdastjórnum og forstjórastöðum myndi fjölga. En sú hefur ekki orðið raunin. Einungis þrettán prósent framkvæmdastjóra eða forstjóra í stórum fyrirtækjum á Íslandi eru konur.“ MYND/Kristinn Ingvarsson

Jafnrétti á öllum sviðum er okkur mikilvægt

Þau Gylfi og Þóra höfðu öll rannsakað eitthvað á þessu sviði með einum eða öðrum hætti og ákváðu því að taka höndum saman í þessari rannsókn enda telja þau öll að jafnrétti sé mikilvægt á öllum sviðum þjóðlífsins. „Við erum sammála um  að fámenn þjóð eins og Íslendingar hafi ekki efni á því að líta eingöngu í eina átt þegar kemur að stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er tæp 78% á móti 85% þátttöku karla og þetta er mun hærra hlutfall en þekkist í löndunum í kringum okkur. Má í því sambandi nefna að meðaltalið innan OECD er 57%. Það sem svo kveikti áhuga okkar enn frekar var að þó svo að Ísland mælist hæst í könnunum Alþjóðaefnahagsráðsins og að íslenskar konur séu mjög virkar á vinnumarkaði þá er staða þeirra allt önnur og óviðunandi þegar kemur að stjórnunarstöðum í íslensku atvinnulífi.“

Er hægt að nota niðurstöðurnar til samfélagslegra breytinga?

Í stefnu Háskóla Íslands er sú lykiláhersla að starf Háskólans hafi víðtæk áhrif og að í því tekist sé á við áskoranir samtímans. Þessi rannsókn þeirra Ástu Dísar, Gylfa og Þóru uppfyllir þetta svo sannarlega. Hún er einnig í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um að jafnrétti kynjanna verði tryggt. Einn margra kosta við félagslegar rannsóknir er sá að þær geta vakið upp umræðu í samfélaginu og þannig leitt til þess að gripið sé til aðgerða ef nauðsyn krefur. 

„Nú er tæpur áratugur síðan kynjakvótalög á stjórnir voru sett hér á landi,“ segir Ásta Dís,  „og því má fagna að þau leiddu til talsverðrar breytinga í þá átt að fjölga konum í stjórnum. Margir bundu vonir við að lagasetningin myndi hafa svokölluð smitáhrif, að konum í framkvæmdastjórnum og forstjórastöðum myndi fjölga. En sú hefur ekki orðið raunin. Einungis þrettán prósent framkvæmdastjóra eða forstjóra í stórum fyrirtækjum á Íslandi eru konur.“

Ásta Dís segir að rannsóknin sýni að stór hópur kvenna vilji láta setja kynjakvótalög á framkvæmdastjórnir fyrirtækja á Íslandi, þó ekki væri nema tímabundið, til að leiðrétta kynjahallann. Þetta viðhorf kvenna í stjórnunarstöðum  hefur ekki komið fram opinberlega áður. 

„Ástæðan er sú að þær telja að smitáhrif kynjakvótans sem settur var á stjórnir félaga hafi ekki orðið og því þurfi að grípa inn í með þessum hætti. Margar þeirra telja að ákveðið karlaveldi sé til staðar í kringum æðstu stjórnunarstöður. Ástæðan sé ekki sú að skortur sé á hæfileikaríkum konum til að sinna starfi æðstu stjórnenda en þar sem karlar væru í meirihluta þeirra sem taka ákvarðanir um ráðningu í framkvæmdastjórnir væri möguleiki kvenna takmarkaður. Þetta var meðal annars útskýrt með öflugu tengslaneti karla og að það tengslanet horfi síður til kvenna og þekkingar þeirra. Karlar fái því fleiri tækifæri, meiri reynslu og þjálfun yfir starfsævina sem veitir þeim ákveðið forskot. En þetta skýrir ekki hvers vegna engin kona er forstjóri í skráðu félagi, þar sem konur sitja í stjórnum, og svo einfalt sem það nú er, þá ráða stjórnir forstjóra.“

Rannsókn með samfélagsleg áhrif – Konur vilja breytingar

Háskóli Íslands leggur áherslu á að þekkingarsköpun við skólann hafi sem víðtækust áhrif. Háskólinn stefnir að því að vera virkur og ábyrgur þátttakandi í samfélagi sem stuðlar að jafnrétti og fjölbreytni. Sú rannsókn sem hér er til umfjöllunar fellur afar vel að þessari stefnu skólans enda segir Ásta Dís að hún hafi áhrif á samfélagið að því leyti að hún hreyfi við fólki. „Konur eru orðnar óþreyjufullar að sjá breytingar verða og því skipta svona rannsóknir afar miklu máli. Þrátt fyrir árangur Íslands í jafnréttismálum er mikilvægt að rannsóknir á borð við þessa veiti aðhald. Hér koma fram viðhorf kvenna sem standa mjög framarlega í atvinnulífinu, þær gátu tjáð sig undir nafnleynd og sagt skoðanir sínar óhikað. Ég vil taka upp það sjónarhorn sem kom fram í rannsókninni, að stjórnvöld skoði hvort þörf sé á lagasetningu á stjórnunarstöður hjá fyrirtækjum líkt og sett voru á stjórnir félaga. Það eru gríðarlega skiptar skoðanir á þessu en þrátt fyrir það tel ég að þarna séu ákveðin tækifæri.“

Ásta Dís segir að ekki sé skynsamlegt að setja kvóta á forstjórastöður, þar þurfi að höfða til almennrar skynsemi fólks sem situr í stjórnum félaganna því þetta sé spurning um eftirspurn, ekki framboð. „Varðandi framkvæmdastjórnarstöður þar sem karlmenn eru í miklum meirihluta, að minnsta kosti hjá skráðum félögum, væri hægt að byrja á stærstu fjárfestum á Íslandi, lífeyrissjóðunum, að þeir myndu í gegnum eignarhlut sinn í skráðum félögum beita sér markvisst fyrir því að konum fjölgi í æðstu stjórnunarstöðum. Slíkt mætti setja í eigendastefnu félaga, að hlutfall hvors kyns yrði ekki undir 40% í framkvæmdastjórnum félaga sem þeir eiga hlut í.“

Ásta Dís segir að það sama gætu stærstu fyrirtæki landsins gert almennt.  „Einhverjum gætu þótt þetta óhugsandi tillögur en þetta er verið að gera. Breski bankinn Lloyds hefur skuldbundið sig til þess að á þessu ári verði hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum að lágmarki 40% af þeim átta þúsund stjórnendum sem eru hjá félaginu. Þá hefur Royal Bank of Scotland gefið út svipaða yfirlýsingu. Þar á þriðjungur af sex hundruð stjórnendum að verða konur í lok þessa árs. Þá hafa mörg önnur fyrirtæki í Bretlandi gefið út svipaðar yfirlýsingar. Af þessu má sjá að þetta er ekki óraunhæfur möguleiki og fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessarar metnaðarfullu stefnumótunar hjá nágrönnum okkar. Ef við sem samfélag ætlum okkur að breyta þessu, þá er engin spurning að við getum það, spurningin snýst fyrst og fremst um hvar viljum við setja markið.“

Þekking á vísindalegum grunni er forsenda hagvaxtar

Ásta Dís segir engan vafa á því að rannsóknir skipti samfélögin gríðarlegu máli og hagnýta þurfi rannsóknaniðurstöður í auknum mæli til að þær nýtist enn betur. Þekking byggð á vísindalegum grunni sé enda mikilvæg forsenda þess að hægt sé að skapa hagvöxt og takast á við ýmis samfélagsleg viðfangsefni og áskoranir. 

„Alþjóðlegt samstarf um rannsóknir eykur jafnframt áhrif þeirra,“ segir Ásta Dís. „Ég hef sinnt stjórnunarstöðum með hléum í tæp 20 ár og sem stjórnandi hef ég í gegnum tíðina mikið litið til rannsókna á sviði félagsvísinda, sérstaklega til atvinnulífs og atvinnurekstrar og hefur það litað rannsóknaáherslur mínar að miklu leyti, samanber þessa rannsókn á stöðu kvenna í stjórnunarstöðum. Eftir að ég sneri aftur til kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands ákvað ég að leggja áherslu á að skrifa fyrst um sinn á íslensku fyrir íslenskt samfélag. Ég tel mikilvægt að fólk í samfélaginu geti lesið niðurstöður rannsókna okkar og að þær komi að gagni og hafi áhrif. Auðvitað fer það eftir rannsóknarefninu hverju sinni, en þessi rannsókn hefur vakið mikla athygli.“

Ásta Dís Óladóttir