Tilgangur sjóðsins er að styrkja stúdenta til náms við verkfræðideild Háskóla Íslands eða til framhaldsnáms þeirra við annan háskóla, einkum þá er að dugnaði og reglusemi skara fram úr öðrum, og skulu fyrstu árin að öðru jöfnu ganga fyrir stúdentar ættaðir úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu. Sjóðurinn er stofnaður af ekkju Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, frú Ingibjörgu Claessen Þorláksson, og kjördætrum þeirra, frú Önnu Margréti Hjartarson og frú Elínu Kristínu Halldórsson, á sjötíu og fimm ára afmæli Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, 3. mars 1952. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstæða stjórn. Stjórn sjóðsins Í skipulagsskrá sjóðsins segir: Stjórn sjóðsins skipa rektor Háskóla Íslands, sem skal vera formaður stjórnarinnar, forseti Verkfræðideildar Háskóla Íslands og Geir G. Zoëga, vegamálastjóri, meðan hans nýtur við, en síðan formaður Verkfræðingafélags Íslands. Samkvæmt breyttu skipulagi Háskóla Íslands frá júlí 2008 er verkfræðideild ekki til. Verkfræðideild hefur verið skipt í þrjár deildir, Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild, Rafmagns – og tölvuverkfræðideild og Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, sem allar heyra undir Verkfræði- og náttaúruvísindasvið. Sem stendur er engin starfandi stjórn fyrir sjóðinn. Staðfest skipulagsskrá Staðfesting handhafa forsetavaldsins á skipulagsskrá, fyrir „Minningarsjóð Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, til styrktar verkfræðinemum við Háskóla Íslands eða til framhaldsnáms þeirra við annan háskóla“, útgefin á venjulegan hátt ad mandatum af dómsmálaráðherra 18. apríl 1952. Skipulagsskráin er þannig: Skipulagsskrá fyrir Minningarsjóð Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, til styrktar verkfræðinemum við Háskóla Íslands eða til framhaldsnáms þeirra við annan háskóla. 1. gr. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, til styrktar verkfræðinemum við Háskóla Íslands eða til framhaldsnáms þeirra við annan háskóla. 2. gr. Sjóðurinn er stofnaður af ekkju Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, frú Ingibjörgu Claessen Þorláksson, og kjördætrum þeirra, frú Önnu Margréti Hjartarson og frú Elínu Kristínu Halldórsson, á sjötíu og fimm ára afmæli Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, 3. marz 1952. Stofnfé sjóðsins er kr. 50.000.00 – fimmtíu þúsund krónur –. 3. gr. Höfuðstól sjóðsins má aldrei skerða. Stendur hann nú í skuldabréfi, tryggðu með veði í húseigninni nr. 14 við Austurstræti í Reykjavík, en skal, eftir því sem það bréf greiðist niður, ávaxtaður í Aðaldeild Söfnunarsjóðs Íslands, í ríkistryggðum skuldabréfum eða á annan hátt eftir ákvörðun sjóðstjórnarinnar. Höfuðstólinn skal auka með því að leggja við hann árlega hluta af vöxtunum, svo sem greint verður hér á eftir, svo og með gjöfum og áheitum og á annan hátt, eftir því sem sjóðstjórnin ákveður. 4. gr. Tilgangur sjóðsins er að styrkja stúdenta til náms við verkfræðideild Háskóla Íslands eða til framhaldsnáms þeirra við annan háskóla, einkum þá er að dugnaði og reglusemi skara fram úr öðrum, og skulu fyrstu árin að öðru jöfnu ganga fyrir stúdentar ættaðir úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. 5. gr. Verja skal árlega til styrkveitinga samkv. 4. gr. tveimur þriðju af vöxtum sjóðsins. Mismunurinn leggst við höfuðstólinn á hverjum tíma. Þó skal ríflegri styrkur veittur á tugsafmælum Jóns Þorlákssonar og á aldarafmæli hans skal verja ársvöxtum sjóðsins til styrkveitinga. Svo skal sjóðstjórninni, ef henni þykir henta, heimilt að draga saman handbært styrktarfé tveggja ára í senn, þannig að eitt ár sé enginn styrkur veittur, en hið næsta sé ráðstafað styrktarfé tveggja ára. 6. gr. Stjórn sjóðsins skipa rektor Háskóla Íslands, sem skal vera formaður stjórnarinnar, forseti Verkfræðideildar Háskóla Íslands og Geir G. Zoëga, vegamálastjóri, meðan hans nýtur við, en síðan formaður Verkfræðingafélags Íslands. 7. gr. Stjórnin annast ávöxtun sjóðsins og setur sér að öðru leyti starfsreglur, eftir því sem henni þurfa þykir. Enn fremur annast hún um úthlutun styrkja úr sjóðnum eftir þeim reglum, er hér á undan greinir. Skal árleg úthlutun úr sjóðnum fram fara á afmælisdegi Jóns Þorlákssonar, verkfræðings, 3. marz. 8. gr. Stjórn sjóðsins skal halda fundarbók og færa í hana skipulagsskrá sjóðsins, úthlutun styrkja úr sjóðnum og aðrar fundarsamþykktir, svo og annað það, er varðar hag og rekstur sjóðsins. Enn fremur skal stjórnin halda sérstaka bók yfir hag og rekstur sjóðsins. 9. gr. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Skal stjórnin hafa lokið ársreikningi hverju sinni eigi síðar en 1. febrúar. Sendir hún síðan reikninginn til endurskoðunar og skal endurskoðun framkvæmd af mönnum kjörnum af háskólaráði. Að lokinni endurskoðun skal reikningur sjóðsins árlega birtur í árbók háskólans eða í B-deild Stjórnartíðinda. 10. gr. Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari og skal hún síðan prentuð í B-deild Stjórnartíðinda. Reykjavík, 12. apríl 1952. Ingibjörg Claessen Þorláksson. Anna M. Hjartarson. Elín K. Halldórsson. facebooklinkedintwitter