Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum á sviði jarðefnafræða, byggingariðnaðar og skipasmíða með því að styrkja vísindamenn á sviði jarðefnafræða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga og iðnaðarmenn til framhaldsnáms, svo og að veita styrki til rannsókna á hagnýtum úrlausnarefnum í þessum greinum. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita lán í sama tilgangi. Við mat á því hvort umsækjandi skuli hljóta styrk skal lagt til grundvallar hvort framhaldsnám umsækjanda eða rannsóknir geti stuðlað að raunhæfum framförum í þeirri grein, sem um ræðir. Sjóðurinn er stofnaður árið 1980 af Svövu Storr, ekkju Ludvigs Storr, og dóttur hans, Önnu Dúfu Storr. Tekjur sjóðsins eru húsaleigutekjur af Laugavegi 15 í Reykjavík. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Um Ludvig Storr Ludvig Storr var fæddur í Kaupmannahöfn 21. október 1897. Að loknu verslunarprófi starfaði hann í glerfyrirtæki foreldra sinna en árið 1922 settist hann að á Íslandi. Hann stofnaði byggingavöruverslun Ludvigs Storr & Co. sem síðar varð árið 1937 Glerslípun og speglagerð hf. og úr varð umsvifamikill rekstur hér á landi. Ludvig Storr lét til sín taka í félagsmálum og starfaði í ýmsum félagsskap Dana hér á Íslandi. Hann var aðalræðismaður Dana á Íslandi frá árinu 1956 til dauðadags 1978. Meðal áhugamála hans var endurreisn Skálholtsstaðar og eru kirkjugluggar og fleiri listmunir í kirkjunni gjöf frá fjölskyldu hans. Ludvig Storr var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Elín Storr Sigurðardóttir (1901-1944) og áttu þau eina Dóttur, Önnu Dúfu Storr, sem lést fyrir nokkrum árum. Síðari kona Ludvigs Storr var Svava Einarsdóttir Storr (1917-2009) og voru þau barnlaus. Stjórn sjóðsins Í skipulagsskrá sjóðsins segir: Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum, sem háskólaráð Háskóla Íslands kýs til þriggja ára í senn. Auk þeirra skipa sjóðsstjórnina Svava Storr, ekkja Ludvigs Storr, og Anna Dúfa Storr, dóttir hans, meðan þær lifa og óska að sitja í stjórninni. Svava Storr er formaður sjóðsstjórnar, en sjóðsstjórn kýs formann úr sínum hópi er Svava lætur af formennsku. Stjórn sjóðsins skipa 2017-2020: David Pitt, framkvæmdastjóri Ebba Þóra Hvannberg, prófessor Sigrún Nanna Karlsdóttir, dósent Umsjónarmaður sjóðsins: Frank Óskar Pitt viðskiptafræðingur, fopitt@outlook.com Staðfest skipulagsskrá Staðfesting forsetans á skipulagsskrá Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr, útgefin á venjulegan hátt ad mandatum af dómsmálaráðherra 8. Janúar 1980. Skipulagsskráin er þannig:Skipulagsskrá Menningar- og framarasjóðs Ludvigs Storr. 1. gr. Sjóðurinn heitir Menningar- og framfarasjóður Ludvigs Storr og er stofnaður samkvæmt ákvörðun hans af Svövu Storr og Önnu Dúfu Storr. 2. gr. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum á sviði jarðefnafræða, byggingariðnaðar og skipasmíða með því að styrkja vísindamenn á sviði jarðefnafræða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga og iðnaðarmenn til framhaldsnáms, svo og að veita styrki til rannsókna á hagnýtum úrlausnarefnum í þessum greinum. Stjórn sjóðsins er ennfremur heimilt að veita lán i sama tilgangi. Við mat á því, hvort umsækjandi skuli hljóta styrk, skal lagt til grundvallar, hvort framhaldsnám umsækjanda eða rannsóknir geti stuðlað að raunhæfum framförum í þeirri grein, sem um ræðir. 3. gr. Stofnfé sjóðsins er öll fasteignin nr. 15 við Laugaveg í Reykjavík. Framangreinda fasteign má ekki selja. Eigi má heldur veðsetja eignina nema vegna lántöku til viðhalds hennar, enda samþykki allir stjórnarmeðlimir veðsetninguna. 4. gr. Eignir sjóðsins eru fasteign, sem um getur í 3. gr. svo og aðrar eignir, sem honum kunna að áskotnast. Tekjur sjóðsins eru leiga af húseigninni nr. 15 við Laugaveg í Reykjavík, svo og vextir og tekjur af öðrum eignum. 5. gr. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun í vörslu Háskóla Íslands. Stjórn sjóðsins skal varðveita eignir hans, og gæta þess að þær rýrni ekki að verðmætum. Lausafé sjóðsins skal varðveitt á reikningi í Landsbanka Íslands, er hljóðar á nafn sjóðsins. Stjórninni er heimilt að ávaxta fé sjóðsins með kaupum á verðbréfum, sem eru ríkistryggð eða tryggð með 1. veðrétti í fasteignum eða öðrum jafn tryggilegum hætti. Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður á sama hátt og reikningar sjóða Háskóla Íslands. 6. gr. Í lok reikningsárs ákveður sjóðsstjórn, hversu miklum hluta af árlegum tekjuafgangi sjóðsins skuli varið til úthlutunar styrkja. Nú telur sjóðsstjórn ekki ástæðu til að úthluta öllum tekjuafgangi til styrkþega, og getur hún þá ákveðið, hvort leggja skuli þann hluta við höfuðstól eða geyma hann til úthlutunar síðar. 7. gr. Sjóðsstjórnin úthlutar styrkjum einu sinni á ári. Auglýsa skal eftir umsóknum um styrki. Heimilt er þó að veita styrki, án umsóknar, aðilum, sem að mati stjórnarinnar teljast verðugir styrkveitingar. Sjórnin ákveður hversu marga styrki skuli veita árlega og upphæð þeirra. 8. gr. Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum, sem háskólaráð Háskóla Íslands kýs til þriggja ára í senn. Auk þeirra skipa sjóðsstjórnina Svava Storr, ekkja Ludvigs Storr, og Anna Dúfa Storr, dóttir hans, meðan þær lifa og óska að sitja í stjórninni. Svava Storr er formaður sjóðsstjórnar, en sjóðsstjórn kýs formann úr sínum hópi er Svava lætur af formennsku. 9. gr. Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem nauðsynlegt þykir, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum. Fundargerðir skulu bókaðar í sérstaka gerðarbók. 10. gr. Til þess að fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart sjóðnum séu gildar þarf formaður auk annars stjórnarmanns hið minnsta að undirrita þær, Sjóðsstjórn er heimilt að veita starfsmanni prókúruumboð. 11. gr. Stjórnin ákveður þóknun fyrir stjórnarstörf, ef ástæða þykir til, svo og þóknun fyrir önnur störf, sem unnin eru á vegum sjóðsins. 12. gr. Leita skal staðfestingar forseta Islands á skipulagsskrá þessari. facebooklinkedintwitter