Tilgangur sjóðsins er að veita stúdentum eða kandídötum í íslensku og sagnfræði styrki til einstakra rannsóknarverkefna er tengjast námi þeirra. Sjóðurinn er stofnaður árið 1983 til minningar um prófessor Jón Jóhannesson, er lést 4. maí 1957, með gjöf ekkju prófessors Jóns, frú Guðrúnar P. Helgadóttur, og með minningargjöfum samstarfsmanna, nemenda, ættingja og vina hans. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Stjórn sjóðsins Samkvæmt skipulagsskrá er varsla sjóðsins í höndum rektors og háskólaráðs. Með stjórn sjóðsins fer að öðru leyti þriggja manna stjórnarnefnd, er háskólaráð kýs til þriggja ára í senn. Í stjórn sjóðsins sitja síðan árið 2003: Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og formaður stjórnar, ghalfd@hi.is. Margrét Eggertsdóttir, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, megg@hi.is. Guðrún Ása Grímsdóttir, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, gudrungr@hi.is Staðfest skipulagsskrá Staðfesting forsetans á skipulagsskrá fyrir Minningarsjóð dr. phil. Jóns Jóhannessonar prófessors, útgefin á venjulegan hátt ad mandatum af dómsmálaráðherra 31. maí 1983. Skipulagsskrá um Minningarsjóð dr. phil. Jóns Jóhannessonar prófessors. 1. gr. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður dr. phil. Jóns Jóhannessonar prófessors. Sjóðurinn er stofnaður til minningar um prófessor Jón Jóhannesson, er lést 4. maí 1957, með gjöf ekkju prófessors Jóns, frú Guðrúnar P. Helgadóttur, og með minningargjöfum samstarfsmanna, nemenda, ættingja og vina hans. Fé sjóðsins er nú kr. 60.000,00 kr. Sjóðurinn veitir gjöfum viðtöku. 2. gr. Sjóðurinn er eign Háskóla Íslands, og er varsla hans og ávöxtun í höndum rektors og háskólaráðs. Með stjórn sjóðsins fer að öðru leyti þriggja manna stjórnarnefnd, er háskólaráð kýs til þriggja ára í senn. 3. gr. Framangreindan höfuðstól sjóðsins má aldrei skerða. Vaxtatekjum hans skal varið til að veita stúdentum eða kandidötum í íslensku og sagnfræði styrki til einstakra rannsóknarverkefna, er tengjast þeirra námi. Úthluta skal árlega úr sjóðnum, ef ástæða þykir til, á afmælisdegi prófessors Jóns, hinn 6. júní. 4. gr. Háskólaráð lætur árlega gera reikninga sjóðsins, og skulu þeir birtir í árbók háskólans. Reikningarnir skulu endurskoðaðir með sama hætti sem reikningar annarra háskólasjóða. 5. gr. Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari. facebooklinkedintwitter