Markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði. Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði sjóðinn 25. maí 2001, með framlagi hlutafjár sem hann gefur til minningar um föður sinn Þorstein Scheving Thorsteinsson lyfsala í Reykjavíkurapóteki og eiginkonu hans Bergþóru Patursson. Bergþóra var fædd 26. febrúar 1898 í Kirkjubæ í Færeyjum, dáin 22. október 1970 í Reykjavík, og Þorstein Scheving Thorsteinsson var fæddur 11. febrúar 1890 á Brjánslæk í Vestur-Barðastrandarsýslu, dáinn 23. apríl 1971 í Reykjavík. Sjóðurinn er einn þriggja sjóða sem Bent hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það markmið að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á sviði eineltis. Það er ósk gefanda að verðlaunum sé úthlutað við hátíðlega opinbera athöfn og þess þá getið í hverra minningu þau eru veitt, og fram tekið hverjum veitt, upphæð verðlauna og framlag verðlaunahafa. Um Þorstein Scheving Thorsteinsson Þorsteinn Scheving Thorsteinsson var lyfjafræðingur og apótekari í Reykjavíkurapóteki frá því hann lauk námi 1918 og fram til ársins 1962. Hann var einn af stofnendum Lyfsalafélags Íslands, sem síðar varð Apótekarafélag Íslands, og formaður Félags íslenskra lyfjafræðinga um hríð. Þorsteinn var velgjörðarmaður Háskóla Íslands, stofnaði meðal annars styrktarsjóð við skólann í minningu foreldra sinna, Þórunnar og Davíðs Scheving Thorsteinssonar árið 1940 og gaf Háskólanum kortasafn sitt. Þá prýða fágætir munir úr Reykjavíkurapóteki húsnæði lyfjafræðideildar í Haga við Hofsvallagötu. Þeir voru fluttir þangað úr húsnæði apóteksins í Austurstræti þegar Háskólinn lagði niður rekstur þess og seldi húsnæðið. Margir þessara muna bera fagurt vitni um stórhug og fagmennsku apótekaranna í Reykjavíkurapóteki á fyrri hluta síðustu aldar. Stjórn sjóðsins Engin stjórn er starfandi fyrir sjóðinn sem stendur. Til þess að hægt sé að skipa stjórn sjóðsins skv. skipulagsskrá þarf að gera breytingar á þeirri grein sem segir til um skipun stjórnar (sjá skipulagsskrá). Með umsjón sjóðsins fóru síðast: Már Másson, mmasson@hi.is Þórdís Kristmundsdóttir, thordisk@hi.is Elín Soffía Ólafsdóttir, elinsol@hi.is Þorsteinn Loftsson, thorstlo@hi.is. Staðfest skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala í Reykjavíkurapóteki 1918-1962. 1. gr. Sjóðurinn heitir Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Hann er stofnaður af Bent Scheving Thorsteinsson 25. maí 2001, með framlagi hlutafjár að verðgildi kr. 10.300.000 sem hann, gefur til minningar um hjónin Bergþóru Paturson fædda 26. febrúar 1898 í Kirkjubæ í Færeyjum, dána 22. október 1970 í Reykjavík og Þorstein Scheving Thorsteinsson fæddan 11. febrúar 1890 á Brjánslæk, V. Barðastrandarsýslu, dáinn 23. apríl 1971 í Reykjavík. Var hlutaféð innleyst strax og eru kr. 10.300.000 stofnfé sjóðsins. 2. gr. Sjóðurinn skal vera í vörslu Háskóla Íslands og ávaxtaður á hagkvæmasta hátt á hverjum tíma og reikningar sjóðsins endurskoðaðir með reikningum Háskólasjóða. 3. gr. Tekjur sjóðsins eru vextir og stofnfé, svo og gjafir er sjóðnum kunna að berast og leggjast við stofnfé. 4. gr. Markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði. 5. gr. Rektor ákveður úthlutun úr sjóðnum hverju sinni og hefur um það frjálsar hendur. Skal hann leita samráðs við forseta lyfjafræðideildar. 6. gr. Úthluta má úr sjóðnum árlega eða sjaldnar eftir því sem rektor finnst tilefni til, en ekki má úthlutameira en ¾ af vaxtatekjum hverju sinni. Óúthlutaðir vextir leggjast við stofnfé. 7. gr. Það er ósk gefanda að verðlaunum sé úthlutað við hátíðlega opinbera athöfn og þess þá getið í hverra minningu þau eru veitt, og fram tekið hverjum veitt, upphæð verðlauna og framlag verðlaunahafa. Jafnframt væri æskilegt að greint væri frá verðlaunaafhendingunni í fjölmiðlum og Árbók Háskóla Íslands. 8. gr. Heimilt er að breyta skipulagsskrá þessari ef rektor telur það nauðsynlegt. 9. gr. Verði sjóðurinn lagður niður skulu eignir hans renna til málefna tengdra markmiðum sjóðsins. 10. gr. Skipulagsskrá Verðlaunasjóðs Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala skal staðfest af dómsmálaráðuneyti samkvæmt lögum nr. 19/1988. Reykjavík, 25. maí 2001. Bent Scheving Thorsteinsson. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988. Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 15. október 2001. F. h. r. Björn Friðfinnsson. Fanney Óskarsdóttir. facebooklinkedintwitter