Tilgangur sjóðsins er að veita norrænum mönnum og konum verðlaun fyrir rannsóknir í lyfjafræði og lyflæknisfræði og fyrir ritgerðir um þau efni, byggðar á sjálfstæðum rannsóknum. Úthlutunarnefnd getur einnig tekið til sérstakt verkefni til rannsóknar og veitt verðlaun fyrir besta úrlausn. Enn fremur má veita styrk til framhaldsnáms í áðurtöldum greinum. Sjóðurinn var stofnaður 17. janúar 1955 á aldarafmæli Alfreds Benzons lyfsala og verksmiðjueiganda í Kaupmannahöfn. Stjórn sjóðsins Ekki er starfandi stjórn í sjóðnum. Samkvæmt skipulagsskrá ákveður rektor úthlutun úr sjóðnum hverju sinni og hefur um það frjálsar hendur. Skal hann leita samráðs við forseta Lyfjafræðideildar. Staðfest skipulagsskrá Staðfesting forsetans á skipulagsskrá fyrir „Verðlaunasjóð Alfreds Benzons“, útgefin á venjulegan hátt ad mandatum af dómsmálaráðherra 8. sept. 1954. Skipulagsskráin er þannig: Skipulagsskrá fyrir Verðlaunasjóð Alfreds Benzons. 1. gr. Sjóðurinn heitir Verðlaunasjóður Alfreds Benzons og er stofndagur hans 17. janúar 1955 á aldarafmæli Alfreds Benzons lyfsala og verksmiðjueiganda í Kaupmannahöfn. 2. gr. Sjóðurinn er eign Háskóla Íslands. 3. gr. Höfuðstól sjóðsins má aldrei skerða. Skal ávaxta hann með því að kaupa fyrir hann bankavaxtabréf, bréf gefin út eða tryggð af ríkissjóði eða á annan jafnöruggan hátt að dómi háskólaráðs. 4. gr. Reikninga sjóðsins skal endurskoða með sama hætti og reikninga annarra sjóða háskólans og birta á hverju ári í Árbók háskólans. 5. gr. Af vöxtum sjóðsins skal jafnan leggja þriðjung við höfuðstól, en tveim þriðju vaxtanna má úthluta á hverju ári. Verði minni upphæð úthlutað eitthvert ár leggst afgangur vaxtanna við höfuðstól. Af úthlutunarfénu má veita norrænum mönnum og konum verðlaun fyrir rannsóknir í lyfjafræði og lyflæknisfræði og fyrir ritgerðir um þau efni, byggðar á sjálfstæðum rannsóknum. Úthlutunarnefnd getur einnig tekið til sérstakt verkefni til rannsóknar og veitt verðlaun fyrir bezta úrlausn. Enn fremur má veita styrk tilframhaldsnáms í áðurtöldum greinum. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram 17. janúar ár hvert. 6. gr. Sérstök nefnd ákveður fjárveitingar úr sjóðnum, og eiga sæti í henni lyfsalinn í Reykjavíkur Apóteki, formaður nefndarinnar, kennarinn í lyflæknisfræði í læknadeild, forstöðumaður Lyffræðingaskóla Íslands, þangað til sá skóli verður væntanlega lagður undir háskólann, en síðar forstöðumaður (kennari) þeirrar deildar, kennarinn í lyfjafræði í læknadeild, læknir tilnefndur af Læknafélagi Íslands, lyfsali tilnefndur af stéttarfélagi lyfsala og lyfjafræðingur tilnefndur af Lyffræðingafélagi Íslands. Meðan nefndarmenn eru aðeins 6 skal formaður hafa úrslitaatkvæði, ef atkvæði eru jöfn. Kjörtímabil þeirra þriggja nefndarmanna, sem tilnefndir eru, skal vera 3 ár. Af þeim, sem eru tilnefndir í upphafi, skal einn ganga úr eftir 1 ár og annar eftir 2 ár, samkvæmt hlutkesti. Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari og birta hana í Árbók háskólans. facebooklinkedintwitter