Tilgangur sjóðsins er að styrkja rannsóknir á dulrænum fyrirbærum og meintri dulrænni reynslu í anda þeirra rannsókna sem Erlendur Haraldsson sinnti á starfsferli sínum. Einnig má styrkja rannsóknir í heilsusálfræði, trúarlífssálfræði og skyldum greinum. Þá má verðlauna nemendur fyrir sérlega athyglisverð fullunnin verkefni á þessum sviðum. Gera skal kröfu um aðferðafræðilega vönduð vinnubrögð. Styrkir eru veittir til rannsóknaverkefna sem falla að tilgangi sjóðsins. Styrkþegar skulu vera kennarar við Háskóla Íslands, fræðimenn innan og utan Háskóla Íslands, og nemendur í meistara- eða doktorsnámi við Háskóla Íslands. Sjóðurinn er stofnaður árið 2007 af dr. Erlendi Haraldssyni sálfræðingi og prófessor við Háskóla Íslands frá 1974 til 1999. Hann kenndi lengstum námskeið um tilraunasálfræði, sálfræðileg próf og aðferðafræði og var mikilvirkur rannsóknarmaður eins og sjá má af ritskrá hans. Stór hluti rannsókna Erlendar fjallar á einn eða annan hátt um svonefnd dulræn fyrirbæri eða meinta dulræna reynslu (tilraunir, kannanir og vettvangsrannsóknir). Áður höfðu sinnt slíkum rannsóknum við Háskóla Íslands þeir Ágúst H. Bjarnason prófessor í Heimspekideild, Guðmundur Hannesson prófessor í Læknadeild og Haraldur Níelsson prófessor í Guðfræðideild. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstæða stjórn. Stjórn sjóðsins Stjórn sjóðsins skipa þrír menn og er skipunartími stjórnar þrjú ár. Rektor Háskóla Íslands skipar formann sjóðsins og skal taka mið af tilgangi sjóðsins við tilnefningu í stjórn. Forseti Félagsvísindadeildar skipar einn mann og skal það vera fræðimaður sem sinnt hefur verkefnum eða fræðasviðum sem falla undir tilgang sjóðsins. Forseti Parapsychological Association, sem eru alþjóðleg samtök fræðimanna um rannsóknir meintra dulrænna fyrirbæra, tilnefnir einn mann. Sitjandi stjór var stofnuð árið 2007 í kjölfar stofnunar sjóðsins. Í stjórn sjóðsins sitja: Erlendur Haraldsson, stofnandi sjóðsins og formaður stjórnar, erlendur@hi.is. Þór Jakobsson stjórnarmaður, thor.jakobsson@gmail.com. Loftur Reimar Gissurarson, loftur.reimar.gissurarson@or.is. Staðfest skipulagsskrá SKIPULAGSSKRÁ Styrktarsjóður Erlendar Haraldssonar við Háskóla Íslands. 1. grein Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Erlendar Haraldssonar. Sjóðurinn er stofnaður af Erlendi Haraldssyni kt. 031131-3329. Dr. Erlendur Haraldsson sálfræðingur og prófessor starfaði við Háskóla Íslands frá 1974 til 1999. Hann kenndi lengstum námskeið um tilraunasálfræði, sálfræðileg próf og aðferðafræði og var mikilvirkur rannsóknarmaður eins og sjá má af ritskrá hans. Stór hluti rannsókna Erlendar fjallar á einn eða annan hátt um svonefnd dulræn fyrirbæri eða meinta dulræna reynslu (tilraunir, kannanir og vettvangsrannsóknir). Áður höfðu sinnt slíkum rannsóknum við Háskóla Íslands þeir Ágúst H. Bjarnason prófessor í heimspekideild, Guðmundur Hannesson prófessor í læknadeild og Haraldur Níelsson prófessor í guðfræðideild. Sjóðurinn er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands, Sæmundargötu 6. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. 2. grein Tilgangur Styrktarsjóðs Erlendar Haraldssonar er að styrkja rannsóknir á dulrænum fyrirbærum og meintri dulrænni reynslu í anda þeirra rannsókna sem Erlendur Haraldsson sinnti á starfsferli sínum. Einnig má styrkja rannsóknir í heilsusálfræði (t.d. um áhrif hugrænna þátta á líkamlega heilsu), trúarlífssálfræði og skyldum greinum. Þá má verðlauna nemendur fyrir sérlega athyglisverð fullunnin verkefni á þessum sviðum. Gera skal kröfu um aðferðafræðilega vönduð vinnubrögð. Styrkir eru veittir til rannsóknaverkefna sem falla að tilgangi sjóðsins. Styrkþegar skulu vera kennarar við Háskóla Íslands, fræðimenn innan og utan Háskóla Íslands, og nemendur í meistara- eða doktorsnámi við Háskóla Íslands. 3. grein Stofnframlag sjóðsins er sem hér segir: Framlag stofnanda kr. 900.000. Framlag úr Sjóði til rannsókna í dulsálarfræði kr. 100.000. Erfðaskrá stofnanda samkvæmt nánari fyrirmælum sem þar koma fram. Stofnframlag sjóðsins, verðbætt, er óskerðanlegt. Tekjur sjóðsins eru eftirfarandi: Vextir og arður af eignum sjóðsins/vaxtatekjur af stofnfé. Fé, gjafir og annað verðmæti sem sjóðnum kann að áskotnast eða safnast í nafni sjóðsins. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma og taka mið af fjárfestingastefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Heimilt er að úthluta styrkjum sem nema allt að þremur fjórðu af ávöxtun hvers reikningstímabils, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Fjórðungur ávöxtunarinnar leggst við verðbætt stofnframlag og verður hluti af óskerðanlegu stofnfé. Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af endurskoðanda Styrktarsjóða Háskóla Íslands og þeir birtir með sama hætti og aðrir reikningar í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. 4. grein Stjórn sjóðsins skipa þrír menn og er skipunartími stjórnar þrjú ár. Rektor Háskóla Íslands skipar formann sjóðsins og skal taka mið af tilgangi sjóðsins við tilnefningu í stjórn. Forseti Félagsvísindadeildar skipar einn mann og skal það vera fræðimaður sem sinnt hefur verkefnum eða fræðasviðum sem falla undir tilgang sjóðsins. Forseti Parapsychological Association, sem eru alþjóðleg samtök fræðimanna um rannsóknir meintra dulrænna fyrirbæra, tilnefnir einn mann. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Hlutverk stjórnar er að setja úthlutunarreglur og nánari starfsreglur um úthlutanir, svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Stjórnin hefur umsjón með styrkveitingum og gerir tillögur til rektors um úthlutanir styrkja. Sjóðsstjórn heldur formlega fundargerðarbók um starf sitt og afritum fundargerða skal skilað til Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Stjórn er heimilt að úthluta styrkjum úr sjóðnum án auglýsingar. 5. grein Fyrsta úthlutun fer fram hið minnsta einu reikningsári eftir stofnun, enda liggi fyrir endurskoðuð reikningsskil og upplýsingar um laust fé til úthlutunar styrkja. Að jafnaði tilkynnir rektor Háskóla Íslands styrki við hátíðlega athöfn. Stjórn getur ákveðið í ljósi ávöxtunar eða annarra aðstæðna að safna saman leyfilegri úthlutun milli reikningsára, og úthluta í einu lagi lausum hlut samkvæmt reikningsskilum. Úthluta má úr sjóðnum árlega eða sjaldnar eftir því sem sjóðsstjórn finnst tilefni til, en ekki má úthluta meira en ¾ af raunávöxtun sjóðsins skv. endurskoðuðum ársreikningi hans. Styrkþegar skulu skila skýrslu til stjórnar um framkvæmd og niðurstöður rannsókna. Slík skil eru forsenda frekari styrkveitinga. 6. grein Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður eða gera breytingar á hlutverki hans og tilgangi, af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Verði sjóðurinn lagður niður skulu fjármunir hans renna til málefna tengdum tilgangi sjóðsins. 7. grein Staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki skal leitað á breytingum sem kunna að vera gerðar á skipulagsskrá þessari. Reykjavík 2. maí 2007. Erlendur Haraldsson prófessor Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands Skipulagskrá þessi staðfestist hér með skv. lögum um sjóði og stofnanir, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagskrá nr. 19/1988. facebooklinkedintwitter