Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Styrkir eru veittir til hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi vegna rannsóknarverkefna sem falla að markmiðum sjóðsins. Sjóðurinn var stofnaður 29. júní 2007 af Ingibjörgu R. Magnúsdóttur og Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði. Aðrir sem lögðu til stofnfé voru Glitnir, Ljósmæðrafélag Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og ýmsir einstaklingar. Þá hefur stofnandi sjóðsins, Ingibjörg R. Magnúsdóttir, lagt fram viðbótarframlög við stofnfé sjóðsins á árinu 2008 og 2009. Ingibjörg var námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræðideild Háskólans og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði árið 1973. Sjóðurinn starfar eftir staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstæða stjórn. Sjóðsstjórn er skipuð formanni stjórnar Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði, sem jafnframt er formaður sjóðsstjórnar, fulltrúa rektors Háskóla Íslands, fulltrúa Ljósmæðrafélags Íslands, fulltrúa Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fulltrúa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Sjóðsstjórn er skipuð til fjögurra ára. Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóðanna HÍ er 571292-3199. Frekari upplýsingar veitir Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild, johanna@hi.is, sími 525-4987. Stjórn sjóðsins Í stjórn sjóðsins sitja: Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor og stjórnarformaður Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði, fulltrúi rektors og formaður stjórnar, johannab@hi.is. Stefán Bragi Bjarnason, lögfræðingur og fulltrúi Ingibjargar R. Magnúsdóttur, stefan@velaborg.is. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, lektor og fulltrúi Ljósmæðrafélags Íslands, olofol@hi.is. Auðna Ágústsdótir, hjúkrunarfræðingur og fulltrúi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, audnaag@hi.is. Dagmar Huld Matthíasdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, dagmar.matthiasdottir@vel.is. Staðfest skipulagsskrá SKIPULAGSSKRÁ fyrir Rannsóknasjóð Ingibjargar R. Magnúsdóttur l. grein. Sjóðurinn heitir Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Sjóðurinn er stofnaður af Ingibjörgu R. Magnúsdóttur (kt. 230623-2799) og Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahús (hér eftir nefnd Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði). Ingibjörg R. Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur er fyrrverandi námsbrautarstjóri námsbrautar í hjúkrunarfræði Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi. Hún var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Stofnfé sjóðsins eru samtals 5.000.000 krónur og samanstendur af: Gjafafé frá Ingibjörgu R. Magnúsdóttur kr. 1.134.000 Framlagi Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði kr. 2.000.000 Framlagi frá Glitni kr. 1.000.000 Framlagi frá Ljósmæðrafélagi Íslands kr. 200.000 Framlagi frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu kr.200.000 Gjafafé frá Magnúsi Friðriki Guðrúnarsyni kr. 100.000 Gjafafé í tilefni doktorsprófs Sigrúnar Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðings kr. 80.000 Öðru gjafafé kr. 286.000 2. grein. Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur er í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands, Sæmundargötu 6 og er varnarþing sjóðsins í Reykjavík. Styrktarsjóðir Háskólans annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma miðað við fjárfestingastefnu styrktarsjóðanna. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir og birtir með sama hætti og aðrir reikningar í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. 3. grein. Tekjur sjóðsins eru vextir og stofnfé, svo og gjafir er sjóðnum kunna að berast. 4. grein. Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Styrkir eru veittir til rannsóknaverkefna hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi, sem falla að markmiði sjóðsins. 5. grein. Sjóðsstjórn er skipuð til tveggja ára í senn. Rektor Háskóla Íslands skipar stjórn sjóðsins. Stjórnin er skipuð 4-5 fulltrúum: formanni stjórnar Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði sem jafnframt er fulltrúi rektors og formaður sjóðsstjórnar, fulltrúa Ljósmæðrafélags Íslands, fulltrúa Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, fulltrúa Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og fulltrúa skipaðan af Ingibjörgu R. Magnúsdóttur. Falli atkvæði jöfn í afgreiðslu mála hefur atkvæði formanns tvöfalt vægi. Sjóðstjórn skal koma saman að minnsta kosti árlega. 6. grein. Hlutverk stjórnar er að setja úthlutunarreglur og nánari starfsreglur um úthlutanir svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Reglur um úthlutanir styrkja úr sjóðnum skal endurskoða árlega. 7. grein. Úthluta má úr sjóðnum árlega eða sjaldnar eftir því sem sjóðsstjórn finnst tilefni til, en ekki má úthluta meira en 3/4 af raunávöxtun sjóðsins skv. endurskoðuðum ársreikningi hans. Óúthlutaðir vextir leggjast við stofnfé. 8. grein. Stjórnin hefur umsjón með styrkveitingum og gerir tillögur til rektors um úthlutanir styrkja. Sjóðsstjórn heldur formlega fundargerðarbók um starf sitt og afritum fundargerða skal skilað til Styrktarsjóða Háskóla Íslands. 9. grein. Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari. Heimilt er að breyta skipulagsskránni en til þess þarf samþykki allra stjórnarmanna á tveimur fundum stjórnar, sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili svo og samþykki þeirra aðila sem hafa lagt fram minnst 2/3 hluta stofnfjár. Breytingar á skipulagsskrá skulu hljóta staðfestingu sýslumannsins á Sauðárkróki. 10. grein. Komi fram tillögur um slit og/eða skipti á sjóðnum, skal fara með þær eins og um breytingar á skipulagsskrá. Komi til þess að sjóðurinn verði lagður niður skal hrein eign hans renna til hliðstæðra verkefna og tilgreind eru í 4. gr. eftir nánari ákvörðun stjórnar. 11.grein. Skipulagsskrá Rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur staðfestist hér með af sýslumanninum á Sauðárkróki samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988. Reykjavík 29. júní 2007. Ingibjörg R. Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands Skipulagskrá þessi staðfestist hér með skv. lögum um sjóði og stofnanir, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagskrá nr. 19/1988. facebooklinkedintwitter