Tilgangur sjóðsins er að veita nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum viðurkenningu fyrir góðan námsárangur á sviði heilsugæslu, að styrkja hjúkunarfræðinga til framhaldsnáms og að styðja börn hinnar látnu til 25 ára aldurs. Minningarsjóður Guðrúnar Marteinsdóttur var stofnaður árið 2004 til minningar um Guðrúnu Marteinsdóttir, lektor og síðan dósents við námsbraut í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands. Guðrún var fædd 15. janúar 1952 og lést 24. nóvember 1994. Skólasystur, starfsfélagar í námsbraut í hjúkrunarfræði og aðrir hjúkrunarfræðingar sem átt höfðu samstarf við hana stofnuðu minningarsjóð í þakklætis- og virðingarskyni við hana fyrir brautryðjendastörf í þágu hjúkrunarmenntunar á Íslandi. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagskrá og hefur sjálfstæða stjórn. Stjórn sjóðsins Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun. Stjórn hans skipa: Deildarforseti hjúkrunarfræðideildar við Háskóla Íslands. Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Fulltrúi fjölskyldu Guðrúnar Marteinsdóttur, á meðan sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja börn hinnar látnu, en síðar fulltrúi heilsugæsluhjúkrunarfræðinga sem skipaður er af stjórn fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sjóðsstjórnin skal annast úthlutun úr sjóðnum og setja um það starfsreglur. Hún heldur gerðabók um sjóðinn, reikninga hans og annað er varðar hag sjóðsins og starf. Í stjórn sjóðsins sitja: Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti hjúkrunarfræðideildar, herdis@hi.is. Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, elsa@hjukrun.is. Guðbjörg Marteinsdóttir, systir Guðrúnar. Staðfest skipulagsskrá Skipulagsskrá um Minningarsjóð Guðrúnar Marteinsdóttur Guðrún Marteinsdóttir, f. 15. janúar 1952, d. 24. nóvember 1994, var lektor og síðar dósent við námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Hún var formaður stjórnar námsbrautar í hjúkrunarfræði auk þess að gegna margvíslegum nefndar- og trúnaðarstörfum fyrir námsbrautina. Skólasystur, starfsfélagar í námsbraut í hjúkrunarfræði og aðrir hjúkrunarfræðingar sem átt höfðu samstarf við hana stofnuðu minningarsjóð Guðrúnar Marteinsdóttur, dósents, í desember 1994 í þakklætis- og virðingarskyni við hana fyrir brautryðjendastörf í þágu hjúkrunarmenntunar á Íslandi. Sjóðnum var sett skipulagsskrá við stofnun hans er kemur þessi skipulagsskrá í stað hennar. 1. gr. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Guðrúnar Marteinsdóttur. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. Sjóðurinn er í umsjá styrktarsjóða Háskóla Íslands. 2. gr. Stofnfé sjóðsins er kr. 598.000. Miðast höfuðstóll hans við þá upphæð. Grunnvísitala er neysluvísitala janúar 2005. Höfuðstól skal uppreikna árlega með neysluvísitölu janúarmánaðar. Ekki má skerða höfuðstólinn. Úthlutun úr sjóðnum skal miðast við fyrri hluta árs, annað hvert ár. 3. gr. Tilgangur sjóðsins er tvíþættur. Annars vegar að veita nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum viðurkenningu fyrir góðan námsárangur á sviði heilsugæslu og hins vegar að styrkja börn hinnar látnu. Miða skal við þessa tilhögun á styrkveitingu úr sjóðnum fram að 25 ára aldri barna hennar, Héðins til og með árinu 2006 og Marenar til og með árinu 2011. Eftir þann tíma verður tilgangur sjóðsins einnig að styrkja hjúkrunarfræðinga til framhaldsnáms. 4. gr. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun. Stjórn hans skipa: Deildarforseti hjúkrunarfræðideildar við Háskóla Íslands. Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Fulltrúi fjölskyldu Guðrúnar Marteinsdóttur, á meðan sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja börn hinnar látnu, en síðar fulltrúi heilsugæsluhjúkrunarfræðinga sem skipaður er af stjórn fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sjóðsstjórnin skal annast úthlutun úr sjóðnum og setja um það starfsreglur. Hún heldur gerðabók um sjóðinn, reikninga hans og annað er varðar hag sjóðsins og starf. 5. gr. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og skal sjóðsstjórn árlega leggja endurskoðaða ársreikninga til kynningar á deildarfundi í hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. 6. gr. Sjóðinn skal efla með minningargjöfum, minningarkortum og öðrum ráðum er sjóðsstjórn telur heppileg. 7. gr. Stjórn sjóðsins getur breytt skipulagsskrá þessari enda sé hún einhuga um breytinguna. 8. gr. Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar dómsmálaráðherra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni. Reykjavík, 13. desember 2004. Elsa B. Friðfinnsdóttir Guðbjörg Marteinsdóttir Erla Kolbrún Svavarsdóttir facebooklinkedintwitter