Markmið sjóðsins er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti ogbæta fyrir afleiðingar þess. Þetta er þriðji sjóðurinn sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Sjóðurinn var stofnaður 25. september 2001 með framlagi kr. 11.910.000. Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis og fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og hinn er Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, til styrktar rannsóknum á sviði lyfjafræði. Bent er sonur Þorsteins Scheving Thorsteinssonar og barnsmóður hans, Guðrúnar Sveinsdóttur, er síðar giftist Óskari Þórðarsyni barnalækni. Samtals nema gjafir Bents til Háskóla Íslands á sl. 10 árum rúmlega kr. 60 milljónum króna og er það rannsóknarstarfi við Háskólann mikil lyftistöng að eiga jafngóðan velunnara og Bent Scheving Thorsteinsson. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Rektor Háskóla Íslands skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins. Forseti Félagsvísindasviðs tilnefnir tvo menn í stjórn og skal annar þeirra vera fulltrúi Lagadeildar. Forseti Menntavísindasviðs tilnefnir einn mann í stjórn. Við tilnefningar í stjórn sjóðsins skal taka mið af tilgangi og markmiði sjóðsins. Sjá nánar um styrktarsjóði Háskóla Íslands Stjórn sjóðsins Í stjórn sjóðsins sitja: Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild, bryngf@hi.is. Hanna Björg Sigurjónsdóttir, dósent í fötlunarfræðum við Félags- og mannvísindadeild, hbs@hi.is. Gunnar E. Finnbogason, prófessor í kennslufræði, námskrárfræði og siðfræði, gef@hi.is. Staðfest skipulagsskrá Nr. 111 30. janúar 2002 Breytingar á 4. gr. staðfestar af sýslumanni Sauðárkróks 31. mars 2010. Breytingar á 5. gr. staðfestar af sýslumanni Sauðárkróks 10. júlí 2012. SKIPULAGSSKRÁ fyrir Styrktarsjóð Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar. l. gr. Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar. Hann er stofnaður 25. september 2001 af Bent Scheving Thorsteinsson með framlagi kr. 11.910.000. 2. gr. Markmið sjóðsins er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess. 3. gr. Sjóðurinn skal vera í vörslu Háskóla Íslands og ávaxtaður á sem hagkvæmastan hátt á hverjum tíma og skulu reikningar sjóðsins endurskoðaðir með reikningum Háskólasjóða. 4. gr. Rektor Háskóla Íslands skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins. Forseti Félagsvísindasviðs tilnefnir tvo menn í stjórn og skal annar þeirra vera fulltrúi lagadeildar. Forseti Menntavísindasviðs tilnefnir einn mann í stjórn. Við tilnefningar í stjórn sjóðsins skal taka mið af tilgangi og markmiði sjóðsins. Hlutverk stjórnar er að gera tillögur til rektors um einstakar styrkveitingar og kemur stjórnin saman að minnsta kosti árlega. Stjórnin setur sér nánari starfsreglur um úthlutanir svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Reglur um úthlutanir skal endurskoða árelga. Stjórnin ritar fundargerðir, heldur fundargerðabók og skal afrit fundargerða sent umsjónarmanni styrktarsjóða Háskóla Íslands. Stjórn er heimilt að úthluta styrkjum úr sjóðnum án auglýsingar. 5. gr. Úthluta má úr sjóðnum árlega eða sjaldnar. Ekki má úthluta hærri upphæð en 3/4 af ávöxtun næstliðins árs. Óúthlutaðir vextir leggjast við stofnfé. 6. gr. Það er ósk gefanda að úthlutun úr sjóðnum fari fram við hátíðlega opinbera athöfn og nánar greint frá henni í fjölmiðlum og Árbók Háskólans. 7. gr. Heimilt er að breyta skipulagsskrá þessari ef stjórn sjóðsins telur það nauðsynlegt. 8. gr. Verði sjóðurinn lagður niður skulu eignir hans renna til málefna tengdra markmiðum sjóðsins. 9. gr. Leita skal staðfestingar á skipulagsskrá Styrktarsjóðs Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar hjá dómsmálaráðuneytinu í samræmi við lög um sjóði nr. 19/1988. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 30. janúar 2002. F. h. R. Jón Thors. Fanney Óskarsdóttir. facebooklinkedintwitter