Tilgangur Ingjaldssjóðs helgast af fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds Hannibalssonar. Sjóðurinn skal styrkja efnilega nemendur Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun, alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist. Ingjaldssjóður er stofnaður af Háskóla Íslands til minningar um Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild skólans, f. 17. nóvember 1951, d. 27. október 2014. Ingjaldur arfleiddi háskólann að öllum eigum sínum. Rektor Háskóla Íslands hefur yfirumsjón með sjóðnum. Um Ingjald Hannibalsson Ingjaldur var sonur Hólmfríðar Ingjaldsdóttir kennara og Hannibals Valdimarssonar ráðherra. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1971, prófi í eðlisfræði og stærðfræði frá HÍ 1974, M.Sc. prófi 1975 og Ph.D. prófi 1978 í iðnaðarverkfræði frá Ohio State University. Ingjaldur starfaði á áttunda áratugnum sem stundakennari við MR. Hann starfaði sem aðstoðarkennari og við rannsóknir meðan á dvöl hans við Ohio State University stóð. Hann varð deildarstjóri tæknideildar Félags íslenskra iðnrekenda þegar hann kom heim úr námi. Árið 1978 hóf Ingjaldur stundakennslu við Háskóla Íslands og varð fastráðinn dósent árið 1982, lengst af í hlutastarfi. Á níunda áratugnum sinnti hann öðrum störfum og var m.a. forstjóri Iðntæknistofnunar, forstjóri Álafoss og framkvæmdastjóri Útflutningsráðs Íslands. Árið 1993 kom hann í fullt starf í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og varð prófessor við skólann árið 1997. Ingjaldur sinnti mörgum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina innan Háskóla Íslands m.a. sem skorarformaður og deildarforseti Viðskipta- og hagfræðideildar, síðar Viðskiptafræðideildar. Hann var formaður fjármálanefndar Háskólans, framkvæmdastjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs skólans og sinnti þar margvíslegum nefndarstörfum. Ingjaldur sat einnig í stjórnum fyrirtækja og stofnana, í ráðgjafanefndum og faglegum dómnefndum. Ingjaldur var heimshornaflakkari og þegar hann lést hafði hann nýlokið því markmiði að heimsækja öll 193 þátttökulönd Sameinuðu þjóðanna. Það verkefni sem tók 49 ár en síðustu 63 löndin heimsótti hann í 10 heimsreisum sem hann skipulagði á árunum 2005-2014. Sjá nánar um styrktarsjóði Háskóla Íslands Stjórn Ingjaldssjóðs Rektor Háskóla Íslands fer með yfirumsjón sjóðsins skv. skipulagsskrá. Stjórn sjóðsins er skipuð til þriggja ára í senn. Í henni sitja: Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor og formaður stjórnar Karólína Eiríksdóttir tónskáld Þórður Sverrisson viðskiptafræðingur Skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Ingjaldssjóð 1. grein Sjóðurinn heitir Ingjaldssjóður. Sjóðurinn er stofnaður af Háskóla Íslands, kt. 600169-2039, til minningar um Ingjald Hannibalsson f. 17. nóvember 1951, d. 27. október 2014. Í erfðaskrá, dags. 27.06.2000, arfleiðir Ingjaldur Hannibalsson eftir sinn dag Háskóla Íslands að öllum sínum eigum að frádregnum útfararkostnaði. Til eigna teljast m.a. íbúð að Lækjargötu 4, Reykjavík, bankainnstæður, verðbréf og séreignarsparnaður. Stofnfé Ingjaldssjóðs er andvirði þessara eigna. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. Sjóðurinn er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. 2. grein Tilgangur Ingjaldssjóðs helgast af fyrirmælum í erfðaskrá Ingjalds. Sjóðurinn skal hafa það hlutverk að styrkja efnilega nemendur Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun, alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist. Rektor Háskóla Íslands hefur yfirumsjón með sjóðnum. 3. grein Stofnframlag sjóðsins er 70.000.000 kr. – sjötíu milljónir króna. Þar af eru 50.000.000 kr. – fimmtíu milljónir króna – verðbættar og óskerðanlegar. Tekjur sjóðsins eru eftirfarandi: Vextir og arður af eignum sjóðsins. Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni sjóðsins. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands annast ávöxtun sjóðsins og skal hún vera sem hagkvæmust á hverjum tíma og taka mið af fjárfestingarstefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Heimilt er að úthluta til styrkja raunávöxtun sjóðsins á hverju reikningstímabili með tilliti til verðlagsbreytinga og að frádregnum kostnaði við rekstur sjóðsins. Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af endurskoðanda Styrktarsjóða Háskóla Íslands og þeir birtir með sama hætti og aðrir reikningar Háskóla Íslands. 4. grein Rektor Háskóla Íslands skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Við skipun stjórnar skal taka mið af tilgangi sjóðsins og skal a.m.k. einn stjórnarmaður vera tónlistarmenntaður. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Hlutverk stjórnar er halda utan um málefni sjóðsins og kynningar- og umsóknarferli í samstarfi við umsjónarmann Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Stjórnin gerir tillögur til rektors um einstakar styrkveitingar, hefur eftirlit með ráðstöfun styrkja og meðferð fjármuna. Stjórnin kemur saman að minnsta kosti árlega. Stjórnin fer yfir ársreikning sjóðsins og setur sér nánari starfsreglur um úthlutanir, svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Starfsreglur sjóðsins skulu endurskoðaðar reglulega. Sjóðsstjórn heldur fundargerðabók og skilar fundargerðum til umsjónarmanns Styrktarsjóða Háskóla Íslands til varðveislu. Stjórnin skal úthluta styrkjum á grundvelli auglýsingar. Auglýsing eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum skal gerð á þann hátt að hún nái til sem flestra sem hún getur átt erindi til. Lögð skal áhersla á að auglýsa í þeim miðlum sem talið er hverju sinni að nái til viðkomandi hóps. 5. grein Minningu Ingjalds Hannibalssonar skal ávallt haldið á lofti með sýnilegum hætti af hálfu Háskóla Íslands. Að jafnaði skal úthlutun tilkynnt við hátíðlega athöfn, á afmælisdegi Ingjalds þann 17. nóvember árlega. Stjórn getur í ljósi ávöxtunar eða annarra aðstæðna ákveðið að safna saman leyfilegri úthlutun á milli reikningsára og úthluta í einu lagi lausum hlut samkvæmt reikningsskilum. Fyrsta úthlutun fer fram í fyrsta lagi einu reikningsári eftir stofnun, enda liggi fyrir endurskoðuð reikningsskil og upplýsingar um laust fé til úthlutunar styrkja. 6. grein Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður eða gera breytingar á hlutverki hans og tilgangi af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Verði sjóðurinn lagður niður, renna fjármunir hans til málefna er tengjast tilgangi sjóðsins. 7. grein Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni. Reykjavík 17. nóvember 2015. Samþykkur fyrir hönd Háskóla Íslands Jón Atli Benediktsson rektor Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá númer 19/1988 facebooklinkedintwitter