Skip to main content
10. desember 2018

240 spennandi rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum

""

19. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan fer fram á Háskólatorgi dagana 3. og 4. janúar 2019. Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir ráðstefnunni en þar koma saman allir helstu vísindamenn landsins á þessum sviðum.

Á dagskrá eru kynningar á 240 rannsóknum sem ná yfir öll fræðasvið líf- og heilbrigðisvísinda. Umfjöllunarefnin eru allt frá sameindalíffræði og erfðafræði til endurhæfingar, lyflæknisfræði og andlegrar og líkamlegrara heilsu manna á öllum æviskeiðum. Boðið verður upp á málstofur sem fara að öllu leyti fram á ensku til þess að koma til móts við við vaxandi fjölda enskumælandi nemenda og starfsfólks við Háskóla Íslands. Einnig verður hluti af málstofunum þverfræðilegar til þess að tengja saman vísindafólk úr ólíkum áttum.

Efnt verður til opinna fyrirlestra fyrir almenning þar sem fjallað verður um spennandi málefni úr líf- og heilbrigðisvísindum á aðgengilegan hátt. Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor í næringarfræði, og Bertrand Lauth, lektor í geðlæknisfræði, munu fjalla um áhrif mataræðis á geðraskanir barna. Á undanförnum árum hefur rannsóknum á mataræði, bæði sem mögulegri forvörn og sem meðferðarrúrræði fleygt fram. Í fyrirlestrinum munu þau varpa þau ljósi á hvað vísindin segja um tengsl þessara þátta. Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði mun fjalla um fæðuöryggi Íslendinga og hver eru áhrif framleiðsluþátta og uppruna matvæla á bakteríur.

Þrír spennandi gestafyrirlesarar munu einnig taka til máls á ráðstefnunni. Martin Ingi Sigurðsson, svæfingalæknir, mun greina frá starfi sínu með Team Heart hjálparamtökunum í Rúanda við framkvæmd opinna hjartaskurðaðgerða, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði, mun fjalla um hvort hægt sé að meta heilsu til fjár, og Bergþór Hauksson, þróunarstjóri hjá CCP, mun greina frá samþættingu leikja og vísinda.

Tvær sérstakar gestamálstofur verða á dagskrá. Helga Arnardóttir, fjölmiðlafræðingur mun stýra málstofu undir yfirskriftinni „Samfélag, umhverfi og lýðheilsa – Uppfærslan“. Þar verður samspilið á milli umhverfisþátta og einstaklingsins skoðað, hvað hefur breyst á undanförnum árum og hvernig hægt er að hafa áhrif á heilsueflingu til framtíðar. Ragna Benedikta Garðarsdóttir, dósent í sálfræði, mun fjalla um áhrif umhverfis á heilsu og Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent í viðskiptafræði, mun fjalla um málefnið frá hlið einstaklingsins. Kristján Erlendsson, dósent við Læknadeild og formaður Vísindasiðanefndar, mun stýra opinni vinnustofu undir yfirskriftinni „Að vita eða vita ekki! Hvenær á að tjá þátttakendum í vísindarannsóknum nýjar heilsufarsupplýsingar um þá sjálfa?“

Ágrip allra rannsókna á dagskrá verða birt í fylgiriti Læknablaðsins sem dreift er á ráðstefnunni og gert aðgengilegt á heimasíðu ráðstefnunnar lifogheil.hi.is.

Allir eru velkomnir á ráðstefnuna og aðgangur er ókeypis.

Skráning á ráðstefnuna

Skoða dagskrá

Ráðstefnan á Facebook

19. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan fer fram á Háskólatorgi 3. og 4. janúar 2019