Við sumarrannsóknir í einum fremsta háskóla heims
Guðrún Höskuldsdóttir, BS-nemi í verkfræðilegri eðlisfræði, er nýkomin heim úr tíu vikna ferð til Bandaríkjanna þar sem hún vann að rannsóknarverkefni við einn fremsta rannsóknarháskólaheims, California Institute of Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu.
Guðrún er annar tveggja nemenda við Háskóla Íslands sem hlutu styrk úr svokölluðum Kiyo og Eiko Tomiyasu sjóði til að vinna að sumarverkefni en auk hennar fór Eyvindur Árni Sigurðarson, nemi í lífefna- og sameindalíffræði, vestur um haf. Um er að ræða svokölluð SURF-verkefni eða Summer Undergraduate Research Fellowship hjá Caltech, en SURF gengur út á rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi.
Aðspurð hvers vegna hún hafi ákveðið að sækja um styrk til sumarverkefnisins segisti hún ekki hafa viljað missa af frábæru tækifæri til að fá að vinna í einum besta tækniháskóla í heimi með frábæra rannsóknaraðstöðu og um leið dvelja í Kaliforníu sumarlangt.
„Ég hafði starfsaðstöðu í svokallaðari Mixed-mode Integrated Circuits and Systems rannsóknastofu við Caltech. Verkefnið sem ég vann að nefnist „A Fully Integrated CMOS Biofuel-Cell-Based Energy Harvesting System“. Það snerist um að þróa kerfi með glúkósaskynjara sem t.d. væri hægt að setja í úr. Það gæti svo nýst fólki með sykursýki en þá myndi t.d. sviti frá höndinni nægja til að mæla styrk blóðsykurs,“ segir Guðrún um verkefnið.
Aðspurð segist Guðrún hafa lært afar mikið á verkefninu, bæði í bóklegri og verklegri vinnu. Hún hafi enn fremur kynnst fjöldanum öllum af frábæru fólki víðs vegar að úr heiminum sem séu í svipuðu námi og hún. „Það var líka ótrúlega gaman að nýta helgarnar til að ferðast um og skoða Kaliforníu,“ segir hún.
Guðrún segist hafa nýtt helgarfrí vel til þess að skoða sig um í Kaliforníu. Hér er hún fyrir miðju ásamt tveimur námsmönnum sem hún kynntist á meðan á dvölinni stóð.
Langar að starfa á sviði sjálfbærrrar orku í framtíðinni
Guðrún staldrar ekki lengi við á Ísland því hún heldur brátt til Svíþjóðar þar sem hún hyggst dvelja sem skiptinemi við Kunglinga Tekniska Högskolan (KTH), einn fremsta tækniháskóla Norðurlanda, á haustmisseri. Hún reiknar svo með að brautskrást með BS-próf í verklegri eðlisfræði frá Háskóla Íslands á nýju ári. Aðspurð hvort hún hafi ákveðið hvað taki við að því námi loknu segist hún stefna á meistaranám næsta haust. „Eins og staðan er núna langar mig mest í raforkuverkfræði vegna þess að það býður upp á marga starfsmöguleika á sviði sjálfbærrar orku. Ég hef verið að skoða framhaldsnám í Sviss og Þýskaland en er líka opin fyrir háskólum á Norðurlöndunum,“ segir Guðrún enn fremur.
Guðrún og Eyvindur Árni eru í hópi rúmlega 30 nema við Háskóla Íslands sem haldið hafa til sumarverkefna í Caltech frá því að samstarf skólanna á grundvelli SURF-verkefnanna hófst árið 2008. Það er ekki síst fyrir tilstilli svokallaðs Kiyo og Eiko Tomiyasu sjóðs innan Háskóla Íslands sem nemendur hafa komist vestur um haf en dr. Kiyo Tomiyasu (1919-2015) var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði og lykilmaður í að koma á samstarfinu milli Caltech og Háskóla Íslands. Styrkirnir bera nafn Kiyo og konu hans, Eiko Tomiyasu, en þau hafa sýnt íslenskum nemendum við Caltech einstaka velvild í gegnum árin.