Skip to main content
10. september 2020

Ný staða við Háskóla Íslands í minningu skálda í Vesturheimi

""

Staða rannsóknarlektors við Háskóla Íslands í nafni Stephans G. Stephanssonar hefur verið sett á fót. Ásamt því að efla samstarf um alþjóðlegar rannsóknir á landnámi innflytjenda í nútímabókmenntum mun rannsóknarlektorinn hafa umsjón með og efla samstarf Háskóla Íslands og Manitóbaháskóla á sviði rannsókna og kennslu. Íslensk stjórnvöld munu styðja með beinum hætti við kennsluþáttinn. 

Birna Bjarnadóttir bókmenntafræðingur verður fyrst til að gegna þessu starfi í nafni Stephans G. en með því skapast ótvíræð tækifæri við Háskólann á sviði alþjóðlegra rannsókna. Hugmyndin er m.a. að auðga þekkingu beggja vegna hafs á bókmennta- og menningararfi íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Norður-Ameríku. Í því sambandi má nefna rannsóknir á sköpunarkrafti vistaskipta í menningar- og bókmenntasögu evrópskra innflytjenda í Norður-Ameríku um og eftir aldamótin 1900 og landnámi innflytjenda í nútímabókmenntum. 

Styrktarsjóður í nafni Stephans G. Stephanssonar

Rannsóknarlektorinn mun jafnframt hafa umsjón með áframhaldandi fjáröflun í Stephan G. Stephansson styrktarsjóðinn sem er í vörslu Háskóla Íslands. Tilurð rannsóknastöðunnar má rekja til sjóðsins og í raun ómetanlegs stuðnings afkomenda íslenskra innflytjenda vestan hafs. Það sem víkur að fjáröflun í sjóðinn verður unnið í samstarfi við rektor Háskóla Íslands.

Tilkynnt var um stofnun styrktarsjóðsins við opnun Veraldar – húss Vigdísar vorið 2017. Þau Stephan Benediktson, barnabarn Stephans G., og Adriana Benediktson lögðu þá til stofnfé sjóðsins. Heather Alda Ireland, barnabarn Guttorms J. Guttormssonar, skálds Nýja Íslands, og William Ireland komu einnig að tilurð sjóðsins. Hið sama gildir um Mooréu og Glen Gray. Margir hafa hingað til komið að fjármögnun sjóðsins og má þar sérstaklega nefna þau Donald K. Johnson, Arni Thorsteinson, Oskar Sigvaldason, Susan Rodriguez Abbiati, Paul David Benediktson og Stephan Robert Benediktson. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, lagði sitt lóð á vogarskálarnar á fyrstu stigum söfnunarinnar.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað víðtæk kynning á Stephan G. Stephansson styrktarsjóðnum í Kanada en frá því í júní 2018 hefur Háskóli Íslands notið stöðu góðgerðarstofnunar hjá kanadískum skattayfirvöldum, einn af fáum háskólum utan Kanada, Bandaríkjanna og Bretlands. Fyrirhuguð er markviss kynning í Bandaríkjunum á styrktarsjóðnum. 

Klettafjallaskáldið Stephan G. Stephansson bjó lengst af í Vesturheimi. Hann orti flest sín ljóð á móðurmálinu íslensku og flestar ljóðabækur hans voru gefnar út í Reykjavík. Meðal þekktustu verka hans eru Andvökur. MYND/Wikipedia Commons (Sótt 10.09.2020)

Klettafjallaskáldið Stephan G.

Flestir Íslendingar kannast við þjóðskáldið Stephan G. sem telst slíkur þrátt fyrir að hafa búið lungann úr ævinni í Vesturheimi. Fjölmörg íslensk skáld fundu reyndar farveg sinn til skáldskapar í Vesturheimi og var Stephan G. Stephansson einmitt í þeim góða hópi. Hann fæddist þann 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði og var færður í kirkjubækur sem Stefán Guðmundsson. 

Hartnær tvítugur fluttist hann ásamt foreldrum sínum vestur um haf til að vitja betra lífs í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þar vann hann meðal annars við lagningu járnbrautar og í skógarhöggi við erfið kjör.  

Árið 1889 flutti hann svo til Alberta-fylkis í Kanada við rætur Klettafjalla og gerðist bóndi og höfuðskáld. Stephan G. átti því mörg vistaskipti á sinni ævi en hann hefur oft verið kallaður Klettafjallaskáldið. Aðstæður í Alberta voru ekki alltaf hagfelldar skáldinu og hafði hann lítinn tíma til annars en brauðstrits. Hann orti því öll sín bestu ljóð að næturlagi og er talsverð kaldhæðni í því að ljóðasafn hans nefnist einmitt Andvökur.  Stephan G. gekk ekki menntaveginn en lét aldrei tækifæri úr greipum renna við að sökkva sér ofan í bækur sem hann dáði umfram margt annað. 

Aldrei brugðust bækurnar
bóndanum upp til dala
þegar við enga aðra var
ómaksvert að tala.

Stephan G. orti flest sín ljóð á móðurmálinu íslensku og flestar ljóðabækur hans voru gefnar út í Reykjavík. Afar margir Íslendingar þekkja því brot úr ljóðum hans en líklega er þetta hans þekktasta kvæðabrot sem oft er vitnað til.

Þó[tt] þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers!

Mikið líf í útgáfu

Mikið líf hefur að undanförnu verið í útgáfu á ritum sem tengjast bókmenntaarfi Íslendinga í Vesturheimi. Í  desember 2019 kom út bókin Two Lands, One Poet. The Reflections of Stephan G. Stephansson Through Poetry, tvímála útgáfa (íslenska og enska) á ljóðasafni eftir Stephan G. Stephansson. Enski hluti bókarinnar geymir sögulegt yfirlit yfir glímu þýðenda beggja vegna hafs við ljóð Klettaskáldsins, meðal annars þeirra Bernards Scudders (1954‒2007), Viðars Hreinssonar, Kristjönu Gunnars, Finnboga Guðmundssonar (1924‒2011) og Jakobínu Johnson (1883‒1977). 

Formála bókarinnar skrifar Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Birna Bjarnadóttir er ritstjóri hennar ásamt kanadíska rithöfundinum Mooréa Gray. Allur ágóði af sölu bókarinnar rennur í styrktarsjóð Stephans G. Stephanssonar. 

Nýi rannsóknarlektorinn í nafni Stephans G.

Birna Bjarnadóttir, sem tekur við nýja starfinu, er bókmenntafræðingur að mennt og þekkir afar vel menningartengsl Íslendinga hér og þeirra sem búa í Íslendingabyggðum Kanada. Hún þjónaði sem Chair of Icelandic við Íslenskudeild Manitóbaháskóla frá 2003 til 2015 og stýrði Vesturheimsverkefni Háskóla Íslands á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum frá árinu 2015 þar til nýlega. 

Birna las bókmenntir við Háskóla Íslands, Freie Universität í Berlín og University of Warwick og skrifaði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar. Birna hefur birt fræðirit, skáldskap og greinar beggja vegna hafs og ritstýrt fjölda bóka. Hún stýrir Leiðangrinum á Töfrafjallið (2013‒2020), samstarfsverkefni lista‒ og fræðimanna, og leiðir, ásamt Inga Birni Guðnasyni bókmenntafræðingi, alþjóðlega menningarverkefnið Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða. 

Gjafir í Stephan G. Stephansson styrktarsjóðinn

Gjafir í Stephan G. Stephansson styrktarsjóðinn má leggja inn á eftirfarandi reikning: 
Háskóli Íslands
Kennitala 6001-692039
Reikningur: 0137-26-476
Kanadareikningur: 1373 137492

--
The Stephan G. Stephansson Endowment Fund
Bank: Landsbankinn hf
Address: Hagatorg, 107 Reykjavik, Iceland
Iban no: IS86 0137 2600 0476 6001 6920 39
Swift code: NBIIISRE
Account holder: University of Iceland
Address: Saemundargata 2, 101 Reyjavik, Iceland
Subject: Canada-nr. 1373 137492

Birna Bjarnadóttir