Gleðilegt sumar, kæru nemendur og samstarfsfólk
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (23. apríl):
„Gleðilegt sumar kæru nemendur og samstarfsfólk.
Háskóli Íslands hefur ríkulegar skyldur við íslenska tungu og menningu og í starfi sínu leggur hann mikla rækt við sögu lands og þjóðar. Fyrr í vikunni var hálf öld liðin frá því Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða komu hingað frá Danmörku og í kjölfarið fylgdu fleiri handrit íslensku þjóðarinnar.
Það var því táknrænt að þessum tveimur handritum var fyrir komið á stafrænu sniði í hornsteini sem lagður var að nýju Húsi íslenskunnar á síðasta vetrardag. Húsið sem stendur vestan Suðurgötu verður höfuðvígi íslenskunnar við Háskóla Íslands auk þess að hýsa handritin okkar og stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þegar handritin komu til landsins fyrir réttum 50 árum tók þáverandi menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, við þeim og afhenti þau rektor Háskóla Íslands, Magnúsi Má Lárussyni, til varðveislu. Það er til marks um náin tengsl Háskólans við íslenskt þjóðlíf að Gylfi var um árabil prófessor við Háskóla Íslands auk þess að veita mörgum ráðuneytum forystu.
Háskóli Íslands býr ekki einungis ykkur, kæru nemendur, undir þátttöku og störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins heldur stuðlar nýsköpun innan skólans að jákvæðum efnahagslegum áhrifum á okkur öll. Fyrir skömmu bárust þær ánægjulegu fréttir að Háskóli Íslands er þriðja árið í röð á lista yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg og efnahagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þetta er dýrmætur vitnisburður en áherslur okkar í alþjóðastarfi treysta líka áhrif okkar í víðara samhengi. Við erum leiðandi í Aurora, bandalagi öflugra evrópskra háskóla, þar sem mikil áhersla er á samfélagsleg áhrif, loftslagsmál og sjálfbærni. Við munum áfram láta gott af okkur leiða á þeim vettvangi allri íslensku þjóðinni til góða.
Nú er hafinn sá tími þegar mest á reynir enda hefjast vorpróf strax eftir helgi og fara þau fram samkvæmt auglýstri próftöflu. Á henni má finna upplýsingar um bæði staðpróf og fjarpróf. Ég hvet ykkur kæru nemendur til að kynna ykkur töfluna vel og líka gagnleg ráð fyrir undirbúning prófa og töku þeirra. Við framkvæmd prófa verður fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda fylgt og ég hvet ykkur öll til að gæta vel að sóttvörnum. Þau ykkar sem tilheyra áhættuhópi vegna COVID-19 getið sent tölvupóst á urraedi@hi.is og lýst aðstæðum ykkar og munum við leitast við að koma til móts við ykkur eftir fremsta megni.
Mjög góð aðsókn er að framhaldsnámi við Háskólann og eru umsóknir fleiri en árin 2018 og 2019 en þó færri en í fyrra þegar aðsókn jókst um helming á milli ára sem var algjört met. Sú mikla aðsókn helgaðist ekki síst af versnandi efnahagsástandi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Með auknum bólusetningum mun okkur án vafa takast bráðlega að koma böndum á þennan faraldur sem hefur haft gríðarleg áhrif á mannlíf og starf undanfarna fjórtán mánuði.
Vikan sem nú er að líða hefur verið um margt merkileg. Við kvöddum vetur sem hefur reynt á seiglu okkar og samstöðu og við fögnuðum sumri sem ber með sér betri tíð og blóm í haga eins og Nóbelsskáldið Halldór Laxness orti. Hann fæddist einmitt á þessum degi á Laugaveginum í Reykjavík árið 1902. Þessi dagur er líka helgaður bókinni og það er í sjálfu sér táknrænt að fátt annað en bóklestur kemst að hjá háskólanemum þessa dagana. Við sem störfum og nemum í Háskóla Íslands vitum að bókvitið er í askana látið enda er þekkingin að sönnu gjaldmiðill framtíðarinnar. Megi það vera ykkur hvatning við undirbúning prófanna, kæru nemendur. Munum samt að líta upp úr bókunum öðru hverju og tæma hugann. Það skilar miklu og líka hitt að njóta þess stund og stund sem er að vakna með vorinu.
Góða helgi.“