Skip to main content
4. september 2020

Breytingar á sóttvarnahólfum og stuðningur við starfsfólk og stúdenta

Breytingar á sóttvarnahólfum og stuðningur við starfsfólk og stúdenta - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi skilaboð til starfsfólks og stúdenta í dag (4. september 2020):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Það hefur verið sérlega ánægjulegt að sjá líf færast yfir háskólasvæðið síðustu daga þótt það sé vissulega með talsvert öðrum blæ en undanfarin ár. Ég veit að það hefur reynst mörgum nemendum flókið að stíga fyrstu skrefin í háskólanámi á þessu hausti vegna aðstæðna en ég er þess fullviss að kennarar og annað starfsfólk mun áfram leggja sig fram um að taka eins vel á móti nemendum og framast er kostur.

Rýmkaðar reglur um samkomubann og aflétting hólfaskiptingar

Heilbrigðisráðherra hefur gefið út reglugerð um að frá og með mánudeginum 7. september nk. verði samkomur takmarkaðar við 200 manns (í stað 100 eins og verið hefur). 

Þetta hefur engin áhrif á fjölda fólks í kennslustofum sem stjórnast áfram af 1m reglunni. Hólfaskipting í byggingum Háskólans mun hins vegar breytast og verður sem hér segir: 

  • Askja: Hólf falla niður.
  • VRII: Hólf falla niður.
  • Árnagarður: Hólf falla niður.
  • Háskólabíó: Stóra sal skipt í tvennt
  • Háskólatorg: Hólf verða sameinuð eins og hægt er á 1. hæð, en 2. hæð (þar sem Háma er) verður áfram sérstakt hólf. Opnað verður fyrir ferðaleiðir inn í húsið til að auðvelda umferð.
  • Stakkahlíð: 

- Enni og Klettur: Hólf falla niður.

- Hamar: Húsinu verður skipt í tvö hólf, 146 sæti á 1. hæð og 166 sæti á 2. hæð. Opnað verður fyrir ferðaleiðir á milli svæða og hólfa. 

Teikningar af hólfaskiptingu bygginga á COVID-19 síðu Háskóla Íslands verða uppfærðar til samræmis. 

Almennt gildir að hreyfihömluðum er heimilt að fara á milli hólfa en áríðandi er að huga sérstaklega að hreinlæti og sóttvörnum þegar það er gert. Ekki hika, kæru nemendur og samstarfsfólk, við að leita til umsjónamanna ef eitthvað kemur upp á. 

Stuðningsviðtöl fyrir starfsfólk

Aðstæður eru erfiðar fyrir margt af okkar góða starfsfólki og við megum aldrei gleyma að huga hvert að öðru. Starfsfólki sem finnur fyrir vanlíðan vegna faraldursins er boðið upp á stutt fjarfundarviðtöl við sérfræðinga hjá Auðnast. Tilgangurinn er m.a. að gefa fólki færi á að létta á áhyggjum sínum og þiggja stuðning. Frekari upplýsingar fást hjá mannauðsþjónustu í einingum ykkar eða mannauðssviði í Aðalbyggingu.

Gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta fyrir nemendur

Háskóli Íslands býður líka nemendum upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu og hvet ég þau ykkar sem finnið til kvíða vegna aðstæðna að bóka tíma á netinu en í sálfræðiþjónustunni er veittur stuðningur í einstaklingsviðtölum. 

Ef sjúkdómseinkenni gera vart við sig

Ef nemandi eða starfsmaður finnur einkenni sem líkjast COVID-19 á viðkomandi án tafar að hafa samband við heilsugæslu. Allir sem þetta á við um eiga að halda sig heima á meðan beðið er niðurstöðu skimunar. Ef smit er staðfest skal upplýsa viðkomandi starfseiningu innan skólans og fylgja í einu og öllum reglum almannavarna og fyrirmælum smitrakningarteymis. 

Spurningar og svör

Það er ekki nema eðlilegt að margt sé óljóst við núverandi aðstæður. Hikið ekki við að leita svara í þjónustueiningum Háskólans sem allar eru aðgengilegar í Netspjalli. Eins er helstu spurningum svarað á COVID-19-síðu skólans. 

Við vitum að kórónaveiran er því miður ekki horfin en við getum treyst því að heilbrigðisyfirvöld og Almannavarnir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma smám saman aftur á eðlilegu ástandi. Munum öll að sóttvarnir byrja og enda hjá okkur sjálfum.

Það verður ekki nógu oft endurtekið að núverandi ástand er ekki varanlegt og með seiglu og samstöðu munum við fara í gegnum þetta. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk, njótið helgarinnar og hugið vel að ykkur sjálfum og ykkar nánustu.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Nemandi labbar út af Háskólatorgi.