Betri háskóli, betra samfélag
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (24. september):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Nú er starfið hafið af fullum krafti í öllum einingum Háskóla Íslands og samhliða því er hafin innleiðing á nýrri heildarstefnu okkar. Á upplýsingafundi í vikunni kynnti ég lykilatriði stefnunnar þar sem höfuðþunginn er á einn öflugan og alþjóðlegan háskóla sem vinnur þvert á einingar. Í stefnunni er líka lagt kapp á nýsköpun nemenda og vísindafólks til að efla íslenskt samfélag og auka hér lífsgæði.
Við leggjum einnig áherslu á að aflið sem í okkur býr sé virkjað á grunni gæða þar sem sjálfbærni og jafnrétti eru vörðurnar. Við leggjum meiri kraft í miðlun en áður og samstarf við samfélagið til að auka traust á vísindum og hindra framgang falsfrétta. Við viljum að nýtt og samræmt kynningarefni skólans, með einn bláan höfuðlit og einfalt myndmerki, sýni þá staðfestu okkar að vera opinn og þverfræðilegur háskóli sem ryðji burt hindrunum.
Í nýju stefnunni er fjölbreytileiki í fyrirrúmi þar sem gæði náms og sífelld framþróun þess verða í háskerpu, m.a. með augun á stafrænni tækni. Við viljum líka auka notendamiðaða þjónustu fyrir nemendur og starfsfólk og þá sem eru að leita að námi. Við ætlum okkur að treysta innviði og hafa Háskóla Íslands góðan vinnustað allra þar sem hvetjandi starfsumhverfi og vellíðan eru leiðarljósið.
Samkvæmt stefnunni mun metnaðarfull þekkingarsköpun við skólann styðja samfélagið við að takast á við mjög fjölþættar áskoranir. Á meðal þeirra eru umhverfisbreytingar og loftslagsvá sem geta haft veruleg áhrif á lífríki og samfélag okkar á næstu áratugum. Í dag reisum við eina vörðu af fjölmörgum á þeirri vegferð okkar að kljást við flókin viðfangsefni samtímans. Þá frumsýnum við heimildarmyndina Hinn stóri samhljómur sandsins hér í Háskóla Íslands. Myndin er afrakstur samvinnu Þorvarðar Árnasonar, forstöðumanns rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði, og Gunnlaugs Þórs Pálssonar kvikmyndagerðarmanns. Í myndinni er linsunni beint að áhrifum loftslagsbreytinga á jökla en Jökulsárlón er m.a. til umfjöllunar í myndinni sem verður í beinu streymi. Þorvarður hefur ítrekað fangað loftslagsbreytingar í vísindalegum tilgangi með aðferðum kvik- og ljósmyndunar í öllum þeim mögnuðu víddum sem hún býður.
Háskóli Íslands leggur áherslu á gagnvirkt samstarf við samfélög utan höfuðborgarsvæðisins og rannsóknasetrin okkar eru partur af þeirri vegferð. Á þessu ári eru tuttugu ár liðin frá því að Rannsóknasetrið á Höfn í Hornafirði var stofnað og fer vel á því að fagna því með frumsýningunni í dag. Ætlun okkar á næstu árum er að kortleggja styrkja samstarf okkar við landsbyggðina enn betur.
Í þessari viku innleiddum við kerfi til að tryggja lágmarksröskun í starfi HÍ komi upp COVID-smit í kennslu. Til þess notum við QR-kóða sem er að finna á öllum borðum í kennslustofum skólans og er hann lesinn af snjalltækjum þeirra sem setjast við hvert borð. Innleiðingin hefur tekist vel og vil ég þakka ykkur, kæru nemendur, fyrir góða þátttöku í þessu verkefni. Hér er hægt að kynna sér þessa nýju lausn.
Á dögunum kom í ljós að HÍ væri í hópi þeirra 25 háskóla sem standa fremst á alþjóðavísu í fjölþjóðlegu samstarfi um birtingar rannsóknarniðurstaðna. Um sama leyti kom fram að HÍ væri meðal fremstu háskóla heims á sviði lífvísinda, raunvísinda, í sálfræði og innan klínískra heilbrigðisvísinda. Þetta er samkvæmt nýjum listum tímaritsins Times Higher Education og er HÍ eini háskólinn á Íslandi sem kemst á þessa lista.
Þetta mat viðurkenndra aðila er dæmi um hversu staða Háskóla Íslands er sterk í alþjóðlegu samhengi. En við viljum gera enn betur eins og fram kemur í nýju stefnunni okkar. Kæru nemendur og samstarfsfólk. Ég veit að markmið okkar eru háleit en háskólar verða að hafa kjark til að breytast og þróast áfram. Saman höfum við ítrekað unnið sigra og við munum gera það áfram til tryggja árangur á þeirri vegferð sem nú er að hefjast.
Við viljum öll gera góðan háskóla betri og betri háskóli leiðir til betra samfélags í þágu okkar allra.
Góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor“