Halldóra Björg Sævarsdóttir, M.Ed. frá Kennaradeild
Halldóra Björg Sævarsdóttir kemur við sögu í nýrri þáttaröð um rannsóknir innan Háskóla Íslands. Í lokaþættinum er fjallað um rannsóknir sem tengjast hinu illvíga krabbameini, sem er í raun ekki einn sjúkdómur – heldur margir. Halldóra Björg vann lokaverkefni til M.Ed.-prófs við Kennaradeild Háskóla Íslands þar sem hún hafði gildi skapandi handverks fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein í háskerpu.
Tilgangur rannsóknar Halldóru Bjargar var að varpa ljósi á gildi skapandi handverks fyrir aukin lífsgæði einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og hve mikilvægt það er að hafa stuðning fagaðila í handverkinu.
Markmið rannsóknarinnar var að kynnast upplifun og viðhorfum þessara einstaklinga til handverksins. Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknaraðferð og var gagna aflað með sex hálfopnum viðtölum við sjö einstaklinga sem greinst höfðu með krabbamein og fagaðila. Rannsóknarspurningin var: Hvernig upplifir einstaklingur í veikindaferli eða bataferli að vinna að skapandi handverki með stuðningi?
Halldóra Björg Sævarsdóttir
„Niðurstöður benda til þess að skapandi handverk sé mikilvægt bjargráð fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein þar sem skapandi handverk er uppbyggjandi, róandi og gefandi, bæði andlega og líkamlega, og að stuðningur fagaðila sé nauðsynlegur til að leiðbeina og gefa fagleg ráð.
Þátttakendur voru markvisst valdir til þess að fá svör við rannsóknarspurningunni. Gagnagreining leiddi í ljós samhljóm sem lagði grunninn að fimm aðalþemum sem eru: að listsköpun og skapandi handverk kveiki lífsneista, að lifa í núinu, samvera með fólki með svipaða reynslu, að skilja eitthvað áþreifanlegt eftir sig og að geta stutt aðra sem eru í svipuðum sporum.
„Niðurstöður benda til þess að skapandi handverk sé mikilvægt bjargráð fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein þar sem skapandi handverk er uppbyggjandi, róandi og gefandi, bæði andlega og líkamlega, og að stuðningur fagaðila sé nauðsynlegur til að leiðbeina og gefa fagleg ráð. Jafnframt sýna niðurstöður að með skapandi handverki gefist einstaklingnum tækifæri til að stækka stuðningsnet sitt. Stuðningur eftir greiningu krabbameins er mikilvægur þar sem greiningin er mikið áfall fyrir viðkomandi og veldur mikilli tilfinningaólgu. Einnig getur jafningjastuðningur komið í veg fyrir félagslega einangrun og vanlíðan þar sem einstaklingurinn getur samsamað sig hópnum. Einnig kom í ljós að mikil þörf er á skapandi handverki með stuðningi fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein á landsbyggðinni,“ segir í ritgerð Halldóru Bjargar.
Meira um verkefni hennar í Fjársjóði framtíðar sem sýnt er á miðvikudagskvöldum á RÚV í maí og júní.