Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild
„Sláandi er hve algengi allra tegunda verkja hefur aukist. Hjá börnum í tíunda bekk hefur vikulegt algengi allra verkja hækkað marktækt á 17 árum, tíðnin hefur allt að því tvöfaldast. Algengi vikulegra verkja hefur aukist í hópnum í heild úr 40,4 prósentum í 52,6 prósent. Einnig er aukning í algengi samsettra verkja, einkum þriggja vikulegra verkja, en þar hækkar hlutfallið úr 4,7 prósentum í 9,4 prósent.“
Þetta segir Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor í barnahjúkrun, en hún hefur rannsakað tíðni endurtekinna verkja hjá unglingum og breytingar á algengi bak-, maga- og höfuðverkja meðal íslenskra unglinga milli áranna 1989 og 2006. Guðrún hefur alltaf haft mikinn áhuga á heilsu og velferð ungs fólks. Í störfum sínum sem hjúkrunarfræðingur og vísindamaður hefur hún fengist við að rannsaka verki, meta þá og finna leiðir til að draga úr þeim hjá veikum börnum og unglingum. Í rannsókninni skoðaði hún sérstaklega breytingar á algengi vikulegra verkja eftir aldri og kyni.
Guðrún Kristjánsdóttir
„Rannsóknin hefur ásamt öðrum svipuðum staðfest að endurteknir verkir eru vaxandi heilbrigðisvandamál meðal íslenskra skólabarna og sérstaklega unglinga.“

„Þetta er orðið það algengt að rætt er um einhvers konar faraldur þar sem talið er að allt að þriðjungur allra barna og unglinga þjáist af endurteknum eða krónískum verkjum.“
Guðrún segir að nýlegar rannsóknir sýni vaxandi tíðni langvarandi verkja hjá skólabörnum víðar á Norðurlöndum og annars staðar á Vesturlöndum. „Þessi rannsókn sem gerð er hér sker sig þó úr hvað varðar svo mikla aukningu á algengi endurtekinna verkja, sérstaklega hjá eldri unglingunum. Rannsóknin hefur ásamt öðrum svipuðum staðfest að endurteknir verkir eru vaxandi heilbrigðisvandamál meðal íslenskra skólabarna og sérstaklega unglinga. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi rækilegra athugana á verkjum í samhengi við almenna heilbrigðisskoðun á unglingum. Brýnt er að yfirfara og endurskoða verklag og verkferla í heilsugæslu við mat á heilsu barna, vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum og veita þeim börnum sem þjást af verkjum tafarlausa aðstoð.“