Ragnheiður Júníusdóttir, aðjunkt við Kennaradeild
„Rannsóknin snýst um að kanna hvort gæði og magn matar sem börn neyta í skólanum, skólamáltíðir, hafi áhrif á frammistöðu eða hegðun barna í grunnskóla. Rannsóknin fellur vel að áhuga mínum á fæðuvenjum barna í skólanum, bæði í nestistíma og hádeginu. Ég var áður heimilisfræðikennari við grunnskóla og þá skoðaði ég oft nesti barnanna; það var mjög misjafnt að gæðum og hollustan ekki alltaf í fyrirrúmi,“ segir Ragnheiður Júníusdóttir, aðjunkt í heimilisfræði.
Ragnheiður Júníusdóttir
„Rannsóknin fellur vel að áhuga mínum á fæðuvenjum barna í skólanum, bæði í nestistíma og hádeginu. Ég var áður heimilisfræðikennari við grunnskóla og þá skoðaði ég oft nesti barnanna; það var mjög misjafnt að gæðum og hollustan ekki alltaf í fyrirrúmi.“

Rannsókn Ragnheiðar er hluti af stórri rannsókn á skólamáltíðum á Norðurlöndum sem nýtur stuðnings Nordforsk, norrænnar stofnunar sem hefur umsjón með samstarfi um rannsóknir á Norðurlöndunum. Ragnheiður segir að verkefnastjórar og aðrir rannsakendur frá þátttökulöndunum hafi víðtæka og ólíka reynslu, annars vegar af næringarfræði og hins vegar af uppeldisfræði og sálfræði. Hér er því um að ræða þverfræðilega nálgun. „Það er gaman að geta þess að íslenski hópurinn sem stendur að rannsókninni starfar á tveimur fræðasviðum háskólans, Heilbrigðisvísindasviði og Menntavísindasviði,“ segir Ragnheiður.
Hún segir gagnasöfnun nýhafna og niðurstöður liggi því ekki fyrir. Þær komi til með að færa okkur nýja þekkingu sem tengjast gildi skólamáltíða fyrir heilsu og frammistöðu barna í skólanum, bæði fræðilega og ekki síður hagnýta. Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar veiti nýjar upplýsingar um raunveruleg áhrif mismunandi gerða skólamáltíða á heilsufar og nám barna.
Ragnheiður segir að þessi áhrif hafi lítið verið rannsökuð. „Niðurstöðurnar gætu varpað nýju ljósi á hvort gæði og magn þess matar sem neytt er í skólanum tengist frammistöðu, hegðun og líðan barnanna í skólanum. Þannig nýtast niðurstöðurnar eflaust til að bæta, ef þörf er á, þann mat sem boðið er upp á í mötuneytum í grunnskólum landsins,“ segir hún.
Leiðbeinendur: Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.