Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild
„Áhugi minn á þroska og velferð barna og ungmenna leiddi mig í rannsóknir á áhættuhegðun ungs fólks í leit að svörum við því hvernig styrkja megi unga fólkið í glímu við ögrandi viðfangsefni lífsins.“ Þetta segir Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild, en hún hefur hluta vísindaferils síns rannsakað áhrif ólíkra uppeldisaðferða á þroska ungmenna og hegðun fram á fullorðinsár.
Sigrún vinnur að langtímarannsókn með það að markmiði að kanna áhættuþætti í lífi ungs fólks, sérstaklega í tengslum við vímuefnaneyslu og námsgengi. Við rannsóknir sínar beinir Sigrún sjónum að ýmsum félagslegum, uppeldislegum og sálfræðilegum þáttum.
„Ég hef sérstakan áhuga á hugmyndum ungmenna um áhættuhegðun, hvernig þau líta á samskipti við sína nánustu og hvernig styrkleiki þeirra kemur fram.“
Sigrún Aðalbjarnardóttir
„Áhugi minn á þroska og velferð barna og ungmenna leiddi mig í rannsóknir á áhættuhegðun ungs fólks í leit að svörum við því hvernig styrkja megi unga fólkið í glímu við ögrandi viðfangsefni lífsins.“
Sigrún segir það einnig meginmarkmið rannsóknarinnar að hanna þroskalíkan til að greina sálfélagslegan þroska ungmenna og nota síðan líkanið til að skoða tengsl þroska við vímuefnaneyslu. Síðarnefndi þáttur rannsóknarinnar er unninn í samstarfi við Robert L. Selman, prófessor við Harvard-háskóla.
„Eftir að fyrri rannsóknir mínar bentu til að hægt væri að efla samskiptahæfni grunnskólanemenda með markvissum kennsluaðferðum vildi ég skoða hvort samskiptahæfni ungs fólks tengdist áhættuhegðun þess,“ segir Sigrún.
Sigrún segir að spurningalistar hafi verið lagðir fyrir fjórum sinnum á árunum 1994 til 2002 fyrir fólk sem var fætt 1979 og búsett í Reykjavík. Einnig hafi verið tekin djúpviðtöl við sum ungmennanna allt frá því að þau voru á sextánda ári.
„Ég er einmitt þessa dagana að taka viðtöl og það er mjög áhugavert að fylgja eftir hugsun unga fólksins á þessu 16 ára tímabili. niðurstöðurnar gefa ýmsar gagnlegar vísbendingar,“ segir Sigrún, „til dæmis að unglingar foreldra, sem nota leiðandi uppeldisaðferðir, eru líklegri til að stilla vímuefnaneyslu sinni í hóf en hinir. Þeir sýna meiri samskiptahæfni, hafa meira sjálfstraust og meiri trú á eigin getu til að hafa áhrif á líf sitt, jafnvel þegar litið er fram í tímann.“
Sigrún segir að þessir unglingar sýni jafnframt betri námsárangur en hinir og séu líklegri til að ljúka framhaldsskólaprófi eins og fram komi í doktorsverkefni sem Kristjana Stella Blöndal lektor vinnur að úr gögnum langtímarannsóknarinnar.
„Margt annað nýtt er í þessari rannsókn sem hefur vísindagildi almennt. Sem dæmi má nefna hönnun líkansins um sálfélagslegan þroska en með því má sjá hvernig sá þroski getur spáð fyrir um vímuefnaneyslu.“