Eiríkur Jónsson, prófessor við Lagadeild
„Þær hröðu breytingar sem eru að verða á fjölmiðlaumhverfi bæði hér á landi og annars staðar í heiminum og þau fjölmörgu álitaefni sem komið hafa upp á síðustu misserum kalla á ítarlega skoðun á réttarstöðu fjölmiðla,“ segir Eiríkur Jónsson, prófesor í lögfræði. Hann hefur í rannsóknum sínum beint sjónum að þessari mikilvægu stoð í lýðræðislegri umræðu samtímans en eins og kunnugt er hafa fjölmiðlar stundum verið nefndir fjórða valdið sem ætlað er að veita dómsvaldi, framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi aðhald.
Eiríkur hefur ásamt Halldóru Þorsteinsdóttur, sérfræðingi við lagadeild Háskólans í Reykjavík, unnið að heildarrannsókn á íslenskum fjölmiðlarétti en í henni felst greining á þeim réttarreglum sem snerta stöðu og starfsemi fjölmiðla og þeirra sem við þá starfa. „Þótt rannsóknin beinist að íslenskum rétti lýtur hún um leið að margvíslegum yfirþjóðlegum reglum sem áhrif hafa á hérlendan rétt, svo sem ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og tilskipunum Evrópusambandsins á umræddu sviði,“ segir Eiríkur.
„Það hafa komið upp fjölmörg mál á síðustu árum og misserum sem flestir þekkja, eins og meiðyrðamál gagnvart blaðamönnum sem Mannréttindadómstólinn hefur fjallað um, lekamálið, Panamaskjölin og nú síðast lögbannsmálið. Þarna er tekist á um grundvallarspurningar um réttarstöðu fjölmiðla og fjölmiðlamanna.“

Spurður um kveikjuna segir Eiríkur að brýn þörf hafi verið á greiningu og samantekt á gildandi reglum eftir þá verulegu breytingu og þróun sem átt hefur sér stað á síðustu árum, m.a. með nýjum lögum um fjölmiðla, þróun dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu og Hæstaréttar sem og stöðugri tækniþróun sem hefur m.a. falið í sér tilkomu nýrra miðla. „Það hafa komið upp fjölmörg mál á síðustu árum og misserum sem flestir þekkja, eins og meiðyrðamál gagnvart blaðamönnum sem Mannréttindadómstólinn hefur fjallað um, lekamálið, Panamaskjölin og nú síðast lögbannsmálið. Þarna er tekist á um grundvallarspurningar um réttarstöðu fjölmiðla og fjölmiðlamanna,“ segir Eiríkur enn fremur.
Afrakstur þessarar greiningar Eiríks og Halldóru birtist í bókinni Fjölmiðlaréttur sem kom út hjá Fons Juris í lok árs 2017. „Hún gagnast starfandi lögfræðingum, laganemum og öllum þeim sem þurfa eða vilja kynna sér gildandi reglur um fjölmiðla og starfsfólk þeirra hér á landi. Um leið felst í henni afstaða til ýmissa álitaefna sem uppi hafa verið á sviðinu,“ segir Eiríkur að endingu.