Skip to main content

Kortleggur víðerni á Íslandi

Rannveig Ólafsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild

Íslensk víðerni þykja ægifögur og sífellt fleiri kjósa að njóta þeirra. Færri vita hins vegar hvert gildi þeirra er fyrir þjóðina. Rannveig Ólafsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild, hefur bætt úr því með því að þróa aðferð til að meta og kortleggja íslensk víðerni í tíma og rúmi.

„Með breyttri og fjölþættari landnýtingu hálendisins síðastliðna áratugi og auknum kröfum um aukið aðgengi ökutækja hefur jafnt og þétt verið gengið á íslensk víðerni. Engar rannsóknir voru til sem sýna þessar breytingar á nýtingu hálendisins. Víðernishugtakið er auk þess mjög umdeilt og skilgreiningar þess margar. Kveikjan að rannsókninni var því þessi knýjandi þörf á þekkingu og skilningi á breytingum á svo mikilvægri auðlind sem íslensk víðerni eru,“ segir Rannveig um rannsóknina.

Rannveig Ólafsdóttir

„Með breyttri og fjölþættari landnýtingu hálendisins síðastliðna áratugi og auknum kröfum um aukið aðgengi ökutækja hefur jafnt og þétt verið gengið á íslensk víðerni. Engar rannsóknir voru til sem sýna þessar breytingar á nýtingu hálendisins.“

Rannveig Ólafsdóttir

Í rannsókninni sameinaði Rannveig áhuga sinn og sérþekkingu í landfræði og ferðamálafræði. „Til að meta og greina íslensk víðerni nýtti ég landfræðileg upplýsingakerfi til að reikna mælibreytur á borð við fjarlægð frá mannvirkjum, ásýnd og ástand náttúrunnar og áhrif landslags,“ segir hún.

Auk fjarlægðargreiningar studdist Rannveig við útsýnisgreiningu þar sem metið var hversu stór hluti landsins er laus við sjónræn áhrif mannvirkja. Niðurstöðurnar sýna að um 30% landsins eru laus við sjónræn áhrif mannvirkja miðað við þær forsendur og gögn sem líkanið styðst við. Þá má geta þess að rannsóknin hefur alið af sér framhaldsverkefni þar sem sjónum er m.a. beint að því að þróa aðferðir til að kortleggja viðhorf og upplifun ferðamanna til víðerna.

„Fyrir íslenskt samfélag liggur gildi rannsóknarinnar ekki síst í gögnum sem unnt er að nýta til skipulagningar ferðamennsku og annarrar landnýtingar. Þá er það von mín að niðurstöður verkefnisins veki upp umræður um gildi víðerna og hvernig þjóðin vilji sjá íslensk víðerni um ókomna framtíð,“ segir Rannveig að lokum.