Skip to main content

Hvernig móta samgöngur Strandir?

Katrín Anna Lund, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild

„Markmiðið með rannsókninni er að skoða hvernig samgöngur eiga þátt í að móta og þróa svæði sem áfangastaði ferðamanna, að staðsetja þau á huglægan hátt og hvernig sú staðsetning hefur áhrif á þá mynd sem fólk hefur af tilteknu svæði. Athugun okkar beinist að Ströndum sem áfangastað ferðamanna. Skoðað er hvernig samgöngur hafa mótað svæðið í sögulegu samhengi og er því litið til mismunandi tegunda ferðamáta, þess að ferðast fótgangandi, á hestum, með skipum, flugvélum og á bílum.“ Þetta segir Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði, um rannsókn sem hún vinnur að ásamt ásamt Gunnari Þór Jóhannessyni, lektor í ferðamálafræði, og Guðrúnu Þóru Gunnarsdóttur, doktorsnema í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og lektor við Hólaskóla.

„Strandir hafa verið þekktar fyrir erfitt vegakerfi. Ströndin þar er bæði fjöllótt og vogskorin og stór hluti veganna er ómalbikaður og það sveipar svæðið áru hins afskekkta – sem í sjálfu sér virkar einnig sem aðdráttarafl í hugum margra,“ bendir Katrín á.

Katrín Anna Lund

„Strandir hafa verið þekktar fyrir erfitt vegakerfi. Ströndin þar er bæði fjöllótt og vogskorin og stór hluti veganna er ómalbikaður og það sveipar svæðið áru hins afskekkta – sem í sjálfu sér virkar einnig sem aðdráttarafl í hugum margra.“

Katrín Anna Lund

Rannsóknin er viðbót við stórt alþjóðlegt samstarfsverkefni um þróun og mótun áfangastaða í jaðarbyggðum á norðurslóðum. „Hugmyndin að rannsókninni fæddist þegar við ferðuðumst um Strandir og söfnuðum gögnum sumarið 2011,“ segir Katrín. Nýlegar breytingar á vegakerfinu til Stranda, þ.e. nýr vegur um Þröskulda sem var opnaður 2010, vöktu þau til umhugsunar um áhrif vegakerfisins á ferðaþjónustu á svæðinu. „Það segir sig sjálft að vegurinn hefur fært Strandir „nær Reykjavík“ og hann hefur þannig jákvæð áhrif en lega hans þýðir einnig að umferð um Strandir sunnan Hólmavíkur hefur minnkað til muna,“ segir Katrín enn fremur.

Liður í rannsókninni var farandljósmyndasýning sem fór um Strandir sumarið 2012. „Þar voru sýndar myndir frá Ströndum sem við söfnuðum frá ferðamönnum og nokkrum heimamönnum sumarið 2011. Myndirnar áttu að varpa ljósi á hvað þeim þætti lýsandi fyrir Strandirnar. Við teljum að þetta sé grunnur að frekari samvinnu við Strandamenn,“ segir Katrín og bætir við að úrvinnsla á samgönguhluta verkefnisins standi enn yfir.

Katrín bendir á að ekki hafi verið skoðað áður á Íslandi hvernig tiltekinn staður eða svæði verður að áfangastað ferðamanna og því hafi verkefnið mikla þýðingu. „Samfélagslegt gildi verkefnisins felst einnig í að skapa þekkingu um svæðið sem auðlind í ferðaþjónustu,“ segir Katrín að lokum.