Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindadeild
Surtseyjargosið 1963 til 1967 er með frægari atburðum í jarðfræði heimsins á seinni hluta 20. aldar. Gosið sýndi hvernig land byggist upp í eldgosi í sjó og varpaði jafnframt ljósi á eðli sprengivirkni gosa þar sem vatn og kvika mætast.“
Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, sem í sumar leiddi fjölþjóðlegan hóp vísindafólks í Surtsey í einu yfirgripsmesta jarðvísindaverkefni sem fram hefur farið hérlendis. Með honum við stjórnvölinn var Marie Jackson, dósent við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum.
„Þær skipulegu mælingar sem farið hafa fram allt frá myndun Surtseyjar, undir hatti Surtseyjarfélagsins, gera það að verkum að hún er sérstaklega vel fallin til frekari rannsókna. Nú var einfaldlega tímabært að taka þetta skref. Tilgangur verkefnisins er að varpa ljósi á myndun og þróun eldfjallaeyja með því að samþætta eldfjallafræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði, mannvirkjajarðfræði og örverufræði,“ segir Magnús Tumi. „Minn áhugi tengist ekki síst skyldleika Surtseyjar við móbergshryggi og stapa sem myndaðir eru undir jökli. Eldgos í jöklum hafa verið eitt meginviðfangsefni mitt gegnum árin.“
Í verkefninu í sumar flutti Landhelgisgæslan gríðarlegt magn af búnaði og tækjum út í eyjuna undir vökulu auga vísindamanna og Umhverfisstofnunar. Þótt tvær nýtilegar holur hafi verið boraðar í eynni með nokkru umstangi og margir vísindamenn hafi verið við störf vikum saman er ekki að sjá að nokkur hafi stigið þarna fæti í sumar. Gögnin sem fengust úr borholunum eru nú hagnýtt til margvíslegra og flókinna rannsókna.
„Samanburður við borkjarnann sem náðist í Surtsey árið 1979 sýnir að ummyndun móbergsins er orðin miklu meiri en þá var. Við boruðum núna skáholu undir annan megingíginn og niður í gosrásina undir eyjunni. Við áttum von á að hún væri orðin köld en svo er ekki. Gosrásin er enn volg, eins og hitaveituvatn.“
„Samanburður við borkjarnann sem náðist í Surtsey árið 1979 sýnir að ummyndun móbergsins er orðin miklu meiri en þá var. Við boruðum núna skáholu undir annan megingíginn og niður í gosrásina undir eyjunni. Við áttum von á að hún væri orðin köld en svo er ekki. Gosrásin er enn volg, eins og hitaveituvatn.“
Jarðvísindamenn gegna mikilvægu hlutverki í almannavörnum og vöktun þeirra á eldstöðvum, ásamt stöðugum rannsóknum á þeim, skilar almenningi æ meiri ávinningi. Magnús Tumi segir að rannsóknin í Surtsey hjálpi okkur að skilja betur sprengigos í vatni og hafi því óbeint almannavarnagildi. „Einnig varpar hún ljósi á myndun og þróun jarðhitasvæða og eykur skilninginn á þróun og myndun lífs. Vísindarannsóknir eru almennt gríðarlega mikilvægar og eitt helsta tækið til að leysa vandamál. Þær eru undirstaða þess að þróa aðferðir til að leysa vanda eins og loftslagsbreytingar og mengun og þróa umhverfisvæna orkugjafa. Vísindi sem hagnýtt eru með siðferðileg gildi að leiðarljósi eru öllum til góðs.“
Vinnan í Surtsey, m.a. flutningur bors frá Bandaríkjunum, var fjármögnuð með styrkjum frá International Continental Drilling Program (ICDP), úr Rannsóknasjóði til öndvegisverkefnisins IceSUSTAIN, frá þýska rannsóknasjóðnum og Center for Geobiology í Bergen, Landsvirkjun, Orkuveitunni og fleiri aðilum.
Þátttakendur hér á landi voru Jarðvísindastofnun Háskólans, Ísor, Matís og Náttúrufræðistofnun. Verkfræðistofan Verkís og Jarðfræðistofan lögðu einnig til mikilvæga sérfræðivinnu í Surtsey auk þess sem Vestmannaeyjabær lagði til aðstöðu í Heimaey. Framlag sjálfboðaliða frá Íslandi og víðar að var einnig mikilvægt.