David Harning, doktorsnemi við Jarðvísindadeild
Drangajökull er eini jökull Vestfjarða og því nyrstur allra íslenskra jökla. Hann dregur nafn sitt af Drangaskörðum, sjö mögnuðum og hrikalegum jarðlagastöflum sem ganga í sjó fram í mynni Drangavíkur á Ströndum. Drangajökull þótti ólíkur öðrum jöklum á Íslandi en hann var mjög fjölfarinn þegar Hornstrandir voru í byggð. Yfir hann héldu menn fótgangandi eða á hestum og var til dæmis fluttur rekaviður yfir jökulinn af Ströndum niður í Djúp.
Drangajökull rís að auki ekki hátt til himins því hann er allur undir eitt þúsund metrum en neitar samt að hopa samkvæmt rannsóknum sem stundaðar eru við Háskóla Íslands.
„Á seinni helmingi tuttugustu aldar hefur Drangajökull átt vaxtarskeið og tíma þar sem hann hefur verið nokkuð stöðugur meðan aðrir jöklar hafa hopað í samræmi við hnattræna hlýnun,“ segir David Harning, doktorsnemi við Háskóla Íslands, en hann hefur varið nokkrum sumrum við rannsóknir á jöklinum.
„Þetta er líklega vegna staðsetningar jökulsins á Vestfjörðum, þar sem hann verður fyrir áhrifum frá lægra hitastigi sjávar samanborið við jöklana við suðurströndina. Þessi einstaka þróun hefur leitt til kenninga um að Drangajökull hafi þróast með öðrum hætti en aðrir íslenskir jöklar í fortíðinni. Rannsóknir okkar hafa engu að síður leitt í ljós að Drangajökull á sér svipaða sögu og aðrir íslenskir jöklar undanfarin 10.000 ár. Hann hopar þegar aðrir stórir jöklar hopa og vex þegar aðrir vaxa. Svo til lengri tíma litið haga íslenskir jöklar sér með svipuðum hætti.“
David Harning
„Jöklar eru ein besta leiðin til að skilja loftslag fortíðarinnar þar sem þeir tengjast tveimur lykilþáttum loftslagsins, hitastigi og úrkomu.“
Harning hefur unnið að rannsóknum á jöklinum og í stöðuvötnum við hann með leiðbeinanda sínum, Áslaugu Geirsdóttur, prófessor í jarðvísindum, undanfarin ár. Áslaug hefur rannsakað borkjarna úr setlögum stöðuvatna á Íslandi og sýnt fram á þróun veðurfars á mörg þúsund ára tímabili með því að lesa í lögin.
„Síðastliðin sex ár hefur teymi safnað setkjörnum úr stöðuvötnum við Drangajökul til að skilja sögulega þróun jökulsins og veðurfar á svæðinu undanfarin tíu þúsund ár. Sérstæðir eiginleikar setlagakjarnanna úr stöðuvötnunum gefa til kynna hvenær jökullinn var staðsettur þar sem vötnin eru nú og hvenær hann hopaði þaðan. Þessar upplýsingar úr stöðuvötnunum gefa besta mynd af sögu Drangajökuls aftur í tímann allt fram til okkar daga.“
Harning segir að jöklar séu alveg frábærir til að skilja breytileika veðurfars í sögunni þar sem vöxtur og hnignun þeirra ræðst fyrst og síðast af hitastigi að sumri til og að takmarkaðra leyti af úrkomu að vetri.
„Ef sumrin eru svöl og mikið snjóar að vetri vex jökullinn, en við gagnstæðar loftslagsaðstæður hopar jökullinn. Hitastigið og úrkoman verða auðvitað fyrir nokkrum áhrifum frá aðstæðum í hafinu í kringum jökulinn. Með því að líkja eftir þróun Drangajökuls í nútíma getum við metið að hvaða marki Norður-Atlantshaf hefur áhrif á loftslagið á Íslandi.“
Miklar rannsóknir hafa verið stundaðar á Drangajökli undanfarin ár og hafa vísindagreinar verið að birtast með jöfnu millibili um niðurstöður þeirra rannsókna. Ólíkir rannsóknahópar rannsaka jökla af ólíkum ástæðum, segir Harning. „Okkar hópur hefur áhuga á langtímaþróun loftslags, fremur en til að mynda virkni og hreyfingu jökla á styttri tímabilum. Með því að skilja hvernig loftslag hefur breyst í fortíðinni sem viðbragð við náttúrulegum sviptingum í loftslagi getum við verið betur búin undir breytingar í framtíðinni. Jöklar eru ein besta leiðin til að skilja loftslag fortíðarinnar þar sem þeir tengjast tveimur lykilþáttum loftslagsins, hitastigi og úrkomu.“
Þess má geta að doktorsnám Harnings er að hluta fjármagnað af öndvegisstyrk Rannís, sem teymið sem hann starfar með hlaut, en auk þess fékk hann doktorsstyrk frá Rannís síðastliðið vor.
Leiðbeinendur: Áslaug Geirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild, og Gifford H. Miller, prófessor við University of Colorado, Boulder