Friðbert Jónasson, prófessor í Læknadeild
„Ég hef haft mikinn áhuga á að skýra tengsl umhverfis- og erfðaþátta við augnsjúkdóma á Íslandi,“ segir Friðbert Jónasson, margverðlaunaður augnlæknir og prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands. Friðbert hefur hlotið verðlaun fyrir ævistarf sitt frá Evrópusamtökunum um sjón- og augnrannsóknir.
Friðbert hefur átt þátt í að finna genið sem orsakar fjóra augnsjúkdóma. „Ég hafði fundið að arfgeng blettótt hornhimnuveiklun er algengari á Íslandi en annars staðar í heiminum.“ Sjúkdómurinn erfist ef báðir foreldrar ganga með erfðavísinn en sjúkdómurinn veldur skertri sjón milli tvítugs og þrítugs hjá flestum. Þá er ekki margt sem hægt er að gera annað en að græða nýja hornhimnu í sjúklinginn og við það hef ég unnið undanfarin 30 ár,“ segir Friðbert.
Í sumar hlutu Friðbert og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), verðlaun World Glaucoma Association. Rannsókn þeirra og samstarfsaðila á flögnunargláku var talin merkasta glákurannsókn sem gerð var í heiminum árið 2007, en niðurstöður hennar birtust í tímaritinu Science.
„Þessi tegund gláku er sérstaklega algeng á Íslandi,“ segir Friðbert. „Um tveir þriðju blindu vegna gláku á landinu eru af völdum þessa sjúkdóms.“
Friðbert Jónasson
Á síðustu árum hefur Friðbert einnig beint sjónum sínum að ellihrörnun í augnbotnum og fundið að hér á landi er þurra lokastigsbreytingin algengari en annars staðar. Einnig hefur hann á undanförnum árum rannsakað ættgenga sjónhimnurýrnun sem leiðir stundum til blindu. Sjúkdómurinn finnst einkum á Íslandi og í afkomendum Íslendinga erlendis. Í samvinnu hans og Íslenskrar erfðagreiningar fannst svo genið bak við þennan sjúkdóm og skýring á breyttum efnaskiptum.

Á síðustu árum hefur Friðbert einnig beint sjónum sínum að ellihrörnun í augnbotnum og fundið að hér á landi er þurra lokastigsbreytingin algengari en annars staðar. Einnig hefur hann á undanförnum árum rannsakað ættgenga sjónhimnurýrnun sem leiðir stundum til blindu. Sjúkdómurinn finnst einkum á Íslandi og í afkomendum Íslendinga erlendis. Í samvinnu hans og Íslenskrar erfðagreiningar fannst svo genið bak við þennan sjúkdóm og skýring á breyttum efnaskiptum.
Friðbert hefur lagt stund á faraldsfræði síðustu þrjátíu ár og erfðafræði í tuttugu ár. Hann hefur numið og kennt við Háskólann í Edinborg og verið ráðgjafi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Árið 1996 fékk hann fyrst styrki til að hleypa af stokkunum Augnrannsókn Reykjavíkur í samvinnu við japanska vísindamenn og standa þær rannsóknir enn. Friðbert hefur fengið fjölda fræðigreina birtan í virtustu vísindatímaritum heims. Í Háskóla Íslands kennir Friðbert meðal annars nemendum sem stunda rannsóknatengt framhaldsnám í læknisfræði.
Samhliða kennslu heldur Friðbert rannsóknum sínum áfram, auk þess að sinna sjúklingum vegna augnsjúkdóma. „Sannleikurinn er að fjörutíu tíma vinnuvika er of stutt. Stundum eru 80–100 tímar á viku nauðsynlegir,“ segir Friðbert. „Ég hef haft tækifæri til að vera annaðhvort bara í rannsóknum og kennslu annars vegar eða eingöngu í læknisstörfum hins vegar en mér finnst svo skemmtilegt að gera hvort tveggja að ég get hvorugu hætt.“