Rússneska - Grunndiplóma


Rússneska
Grunndiplóma – 60 einingar
Rússneska er eitt af útbreiddustu tungumálum veraldar og hafa um 150 milljónir manna rússnesku að móðurmáli. Kunnátta í rússnesku er mikilvæg fyrir pólitísk, efnahagsleg og ekki síst menningarleg samskipti við Rússland, löndin sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og Austur-Evrópu.
Skipulag náms
- Haust
- Rússnesk málfræði I
- Rússnesk málnotkun I
- Rússnesk málfræði II
- Rússnesk málnotkun II
- Rússland: Saga og menning AB
- Rússnesk stjórnmál og samfélagB
- Einstaklingsverkefni AB
- Einstaklingsverkefni BB
- Vor
- Úkraína og RússlandB
- Rússneskar bókmenntir I: 19. öldB
- Rússneskar bókmenntir II: 20. öldB
- Rússnesk kvikmyndagerð á tuttugustu öldB
- Einstaklingsverkefni AB
- Einstaklingsverkefni BB
- Valdastjórnmál, hugmyndabarátta og andspyrna á 20. öld: Heimssaga IVV
Rússnesk málfræði I (RÚS103G)
Ítarlega er farið yfir stafrófið, framburðar- og réttritunarreglur og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skila á, s.s.:
- nafnorð, lýsingarorð og fornöfn í nefnifalli eintölu og fleirtölu
- beyging nafnorða og fornafna í eintölu
- töluorð
- nútíðarbeyging sagna
- einfaldar spurningar og svör
- setningafræði
Nemendur fá einnig þjálfun í lestri og ritun einfaldra texta.
Í námskeiðinu er farið yfir fyrri hluta þess efnis sem ætlaður er til að ná þekkingu á færnistigi A1 - samkvæmt Evrópurammanum (CEFR).
Engrar forkunnáttu er krafist.
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi tal- og málfræðiþjálfun. Kennsluefni byggir á töflum og yfirliti yfir málfræði, textum og æfingum af ýmsu tagi.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu og séu virkir í kennslustundum.
- Auk hefðbundinnar kennslu í málfræði eru haldnir vikulegir 40 mínútna málfræðiæfingatímar.
- Námskeiðið er kennt á fyrri hluta misserisins.
Rússnesk málnotkun I (RÚS104G)
Ítarlega er farið yfir framburðarreglur. Unnið verður með orðaforða sem ætlaður rússneskunemum á byrjendastigi. Nemendur fá þjálfun í að setja fram einfaldar spurningar og svör, halda uppi einföldum samræðum, segja frá sjálfum sér, fjölskyldu sinni, áhugamálum og nærumhverfi, endursegja texta og fjalla um þá. Byggt er á þeirri málfræði sem unnið er með í RÚS103G (Rússnesk málfræði I).
Í námskeiðinu er farið yfir fyrri hluta þess efnis sem ætlaður er til að ná þekkingu á málfærnistigi A1 - samkvæmt Evrópurammanum (CEFR).
Til að geta tekið þátt í þessu námskeiði þurfa nemendur jafnframt að vera þátttakendur í, eða hafa lokið, RÚS103G Rússnesk málfræði I.
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Kennsluefni byggir textum og æfingum af ýmsu tagi. Áhersla er lögð á talþjálfun, hlustun og skriflegar æfingar.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu og séu virkir þátttakendur í kennslustundum.
- Auk hefðbundinnar kennslu eru vikulegir tímar í málveri.
- Námskeiðið er kennt á fyrri hluta misserisins.
Rússnesk málfræði II (RÚS108G)
Í námskeiðinu verður haldið áfram að vinna með málfræði sem nemendur á byrjendastigi eiga að kunna skil á, svo sem:
- beygingu nafnorða, lýsingarorða og fornafna
- raðtölur
- sagnir í nútíð, þátíð og framtíð
- setningafræði
Í námskeiðinu er lokið við að fara yfir málfræði á færnistigi A1 samkvæmt Evrópurammanum (CEFR), og byrjað að fara yfir efni á færnistigi A2.
Til þess að geta tekið þátt í námskeiðinu þurfa nemendur að hafa lokið:
- RÚS103G (Rússnesk málfræði I)
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi tal- og málfræðiþjálfun. Kennsluefni byggir á töflum og yfirliti yfir málfræði, textum og æfingum af ýmsu tagi.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu og séu virkir í kennslustundum.
- Auk hefðbundinnar kennslu í málfræði eru haldnir vikulegir 40 mínútna málfræðiæfingatímar.
- Námskeiðið er kennt á seinni hluta misserisins.
Rússnesk málnotkun II (RÚS109G)
Nemendur fá áframhaldandi þjálfun í ritun, lestri og talmáli. Unnið verður með ákveðin þemu sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að geta fjallað um í samtölum, sem og munnlegri og skriflegri frásögn (áhugamál, nám, vinnu, kvikmyndir o.fl.) Sérstök áhersla verður lögð á þjálfa framburð og tónfall, bæði í talmáli og lestri.
Í námskeiðinu er lokið við að fara yfir málnotkunarefni á stigi A1 og byrjað á efni á stigi A2.
Til að taka þátt í námskeiðinu þurfa nemendur að hafa lokið:
- RÚS103G Rússnesk málfræði I
- RÚS104G Rússnesk málnotkun I
Jafnframt að vera skráðir í, eða hafa lokið RÚS203G Rússnesk málfræði II.
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Kennsluefni byggir textum og æfingum af ýmsu tagi. Áhersla er lögð á talþjálfun, hlustun og skriflegar æfingar.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu og séu virkir þátttakendur í kennslustundum.
- Auk hefðbundinnar kennslu eru vikulegir tímar í málveri.
- Námskeiðið er kennt á seinni hluta misserisins.
Rússland: Saga og menning A (RÚS106G)
Stiklað verður á stóru í sögu Rússlands frá upphafi hins forna Kænugarðs-ríkis og fram að byltingunni 1917. Fjallað verður um hvernig t.d. landfræði- og náttúrfarslegar aðstæður, rétttrúnaðurinn, einráðir keisarar og bændaánauðin höfðu áhrif á þróun lands og þjóðar. Þá verður sjónum beint að stöðu samfélagsstofnana og ólíkra hópa í landinu, hugmyndasögu og hvað varð til þess að jarðvegur skapaðist fyrir byltingu bolshévíka árið 1917.
Námskeiðið er kennt á fyrri hluta misserisins.
Rússnesk stjórnmál og samfélag (RÚS110G)
Í námskeiðinu er fjallað um stjórnkerfi Rússlands eins og það hefur þróast frá hruni Sovétríkjanna. Áhersla verður lögð á umbreytingu stofnana frá sovéttímanum og til dagsins í dag, og birtingarmyndir valds fyrr og nú. Rætt verður um hlutverk forsetaembættisins, þróun og áhrif fjölmiðla og hvernig samspil pólitískra afla og togstreita hagsmuna hefur mótað orðræðu rússneskra stjórnmála. Einnig er fjallað um uppgang þjóðernishyggju, hlutverk rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, virka og óvirka stjórnarandstöðu og vaxandi einangrun Rússlands gagnvart Vesturlöndum. Loks er hugað að sovéskri arfleifð Rússlands og hvernig orðræðuform fortíðarinnar eru endurframleidd og endurnýtt í samtímaumræðu, og túlkun á sögunni vopnvædd í viðleitni rússneskra stjórnvalda til að endurheimta yfirráð fortíðarinnar.
Úkraína og Rússland (RÚS215G)
Í námskeiðinu er fjallað um Úkraínu og stöðu hennar í kjölfar innrásar Rússa 2014 þegar Krímskagi var innlimaður og allsherjarinnrásarinnar 2022. Byrjað er á sögulegu yfirliti og farið stuttlega yfir stofnun ríkis í Kænugarði á miðöldum og tengsl þess við bæði Konstantínópel og Norðurlönd, stöðuna á tímum mongólskra yfirráða í Rússlandi, togstreitu og ríkjamyndanir á svæðinu í kjölfar þeirra og samninga við Rússakeisara á sautjándu öld. Nemendur kynnast þjóðlegri vakningu á nítjándu öld, skammvinnu sjálfstæði á tímum Rússnesku byltingarinnar og yfirtöku bolsévika 1918. Þá er fjallað um stöðu Úkraínu innan Sovétríkjanna og stjórnmála- og samfélagsþróun eftir hrun þeirra. Megináhersla námskeiðsins er á innrás Rússa og ásælni þeirra, tilraunir til að beita sögulegum rökum til að réttlæta innrásina og tilkall til stórs hluta Úkraínu og þróun mála í stríðinu.
Rússneskar bókmenntir I: 19. öld (RÚS201G)
Fjallað verður um strauma og stefnur í rússneskum bókmenntum á 19. öld. Lesin verða verk í íslenskum eða enskum þýðingum eftir nokkra helstu rithöfunda Rússlands. Við skoðum bókmenntatýpur og þemu, sem og hlutverk og stöðu bókmennta í samfélagsumræðu og gagnvart ríkisvaldinu og ritskoðuninni í Rússlandi á gullöld rússneskra bókmennta á 19. öld og við aldahvörf.
Kennsluhættir / vinnulag:
- Kennsla byggir á fyrirlestrum og umræðum í tímum.
- Mikilvægt er að nemendur séu duglegir að lesa, ígrundi þær spurningar og umhugsunarefni sem sett verða fram í tengslum við lesefnið hverju sinni (á Canvas) og taki þátt í umræðum í tímum.
- Stuðst verður við kvikmyndir eða upptökur á sviðsuppfærslum í tengslum við efnið eftir því sem hægt er og tími vinnst til.
Námskeiðið er kennt á fyrri hluta misserisins
Rússneskar bókmenntir II: 20. öld (RÚS213G)
Í upphafi 20. aldar var mikil gróska í öllu menningarlífi í Rússlandi og bókmenntirnar voru þar engin undantekning. Hver urðu örlög bókmenntanna og rithöfunda í umróti byltingar og borgarastríðs, á tímum ógnarstjórnar í Sovétríkjunum og síðar á tímum þíðu, stöðnunar og hruns Sovétríkjanna? Fjallað verður um samfélagslegt, pólitískt og heimspekilegt hlutverk bókmennta í Rússlandi/Sovétríkjunum, stöðu höfundarins gagnvart einræði og ritskoðun, og samtali bókmenntanna við fortíð, samtíð og framtíð.
Kennsluhættir / vinnulag:
- Kennsla byggir á fyrirlestrum og umræðum í tímum.
- Mikilvægt er að nemendur séu duglegir að lesa, ígrundi þær spurningar og umhugsunarefni sem sett verða fram í tengslum við lesefnið hverju sinni (á Canvas) og taki þátt í umræðum í tímum.
- Stuðst verður við kvikmyndir eða upptökur á sviðsuppfærslum í tengslum við efnið eftir því sem hægt er og tími vinnst til.
Námskeiðið er kennt á seinni hluta misserisins.
Rússnesk kvikmyndagerð á tuttugustu öld (RÚS214G)
Námskeiðið er ferðalag um helstu vörður rússneskrar kvikmyndagerðar á tuttugustu öld. Rússland var framan af öldinni – og einkum á þriðja áratugnum – sannkölluð tilraunastofu þessa nýja listforms og sovéskir kvikmyndagerðarmenn á borð við Sergei Eisenstein voru dáðir á Vesturlöndum, síðar einnig Dzhiga Vertov og Aleksandr Dovzhenko. Á sjötta og sjöunda áratugnum komu fram fleiri merkir kvikmyndagerðarmenn á borð við Andrei Tarkovskí, Larisa Shepitko – síðar Nikita Mikhalkov og Aleksandr Sokurov svo einhverjir séu nefndir. Í námskeiðinu kynnast nemendur þessum leikstjórum og fleirum. Fjallað er um ólíkar greinar rússneskrar kvikmyndalistar frá því í kringum byltingu og til loka tuttugustu aldar og nemendur rýna þær í ljósi samfélagsþróunar og menningarástands.
Valdastjórnmál, hugmyndabarátta og andspyrna á 20. öld: Heimssaga IV (SAG269G)
Á námskeiðinu verður fjallað um alþjóðasögu á 20. öld með áherslu á þær breytingar sem orðið hafa á alþjóðakerfinu og –stjórnmálum. Í fyrsta lagi verður sjónum beint að nýrri ríkjaskipan í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöld og áhrifum nýrra stjórnmálastefna eins og kommúnisma og nasisma/fasisma. Í annan stað verður gerð grein fyrir aðdraganda og þróun síðari heimsstyrjaldar og afleiðingum hennar, einkum afnám nýlendustefnunnar og þjóðernisbaráttu í Afríku og Asíu. Í þriðja lagi verður fjallað um birtingarmyndir þess valdakerfis sem lá kalda stríðinu til grundvallar og forræðisstöðu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Loks verður vikið breyttri heimsskipan og nýjum valdahlutföllum í samtímanum, þar sem rætt verður um uppgang Kína og samkeppni við Bandaríkin.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.