Tilgangur og markmið Sigrúnarsjóðs er að efla og styrkja rannsóknir í félagsráðgjöf á sviði barna- og fjölskyldumálefna. Megintilgangurinn er að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf með því að veita fjárstyrki til: Doktorsverkefna í félagsráðgjöf sem snerta málefni barna- og fjölskyldna. Frumrannsókna, þ.e. sem fela í sér nýsköpun þekkingar á sviðinu. Aðferðaþróunar á sérsviðum sem varða hagsmuni barna og fjölskyldna. Þróunar- og tilraunaverkefna sem efla fræðilegt og faglegt framlag á sviðinu. Fræðsluverkefna á sérsviðum félagsráðgjafar sem varða hagsmuni barna og fjölskyldna. Markmiðunum með stofnun sjóðsins skal náð með beinum fjárframlögum og styrkjum sem nánar greinir í skipulagsskrá þessari. Sjóðurinn var stofnaður árið 2012 af Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor í félagsráðgjöf, en hún er einnig stofnandi Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) við Háskóla Íslands. Sigrún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar menntunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf. Sigrúnarsjóður heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands frá árinu 2016. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagssrá. Sjá nánar um styrktarsjóði Háskóla Íslands Stjórn Sigrúnarsjóðs Í stjórn sjóðsins sitja: Dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir dósent Helga Sól Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og lektor Halldór Sigurður Guðmundsson, félagsráðgjafi og dósent Skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Sigrúnarsjóð 1. gr. Nafn, heimili og varnarþing Sjóðurinn heitir Sigrúnarsjóður, í skipulagsskrá þessari nefndur sjóðurinn. Hann er stofnaður af Sigrúnu Júlíusdóttur kt. 030244-2309, prófessor í félagsráðgjöf og stofnanda Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd, RBF, við Háskóla Íslands. Sigrún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík. Sjóðurinn er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Sjóðurinn starfar á grundvelli laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun en mun ekki hafa með höndum atvinnurekstur. 2. gr. Tilgangur og markmið sjóðsins Markmið með stofnun sjóðsins er að efla og styrkja rannsóknir í félagsráðgjöf á sviði barna- og fjölskyldumálefna. Megintilgangurinn er að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf með því að veita fjárstyrki til: a) doktorsverkefna í félagsráðgjöf sem snerta málefni barna- og fjölskyldna. b) frumrannsókna, þ.e. sem fela í sér nýsköpun þekkingar á sviðinu. c) aðferðaþróunar á sérsviðum sem varða hagsmuni barna og fjölskyldna. d) þróunar- og tilraunaverkefna sem efla fræðilegt og faglegt framlag á sviðinu. e) fræðsluverkefna á sérsviðum félagsráðgjafar sem varða hagsmuni barna og fjölskyldna. Markmiðunum með stofnun sjóðsins skal náð með beinum fjárframlögum og styrkjum sem nánar greinir í skipulagsskrá þessari. 3. gr. Stjórn sjóðsins Rektor Háskóla Íslands skipar þriggja manna stjórn til þriggja ára í senn. Við skipun stjórnar skal taka mið af tilgangi sjóðsins. Rektor Háskóla Íslands skipar sjóðsstjórn samkvæmt tilnefningu forseta Félagsráðgjafardeildar en meðan stofnandi óskar þess skal einn þessara stjórnarmanna vera tilnefndur af honum. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Hlutverk stjórnar er að halda utan um málefni sjóðsins og kynningar- og umsóknarferli í samstarfi við umsjónarmann Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Stjórnin tekur ákvörðun um einstakar styrkveitingar og tilnefnir styrkþega. Stjórnin hefur eftirlit með ráðstöfun og meðferð fjármuna. Stjórnin kemur saman að minnsta kosti árlega. Stjórnin fer yfir ársreikning sjóðsins og setur sér nánari starfsreglur um úthlutanir, svo sem einstakar styrkfjárhæðir, umsóknarfresti og ferli umsókna, innan ákvæða skipulagsskrár. Starfsreglur sjóðsins skulu endurskoðaðar reglulega. Sjóðsstjórn heldur fundargerðarbók og skilar fundargerðum til umsjónarmanns Styrktarsjóða Háskóla Íslands til varðveislu 4. gr. Stofnframlag og tekjur sjóðsins Stofnframlag sjóðsins er kr. 3.000.000.- sem er gjöf frá Sigrúnu Júlíusdóttur. Aðrar tekjur sjóðsins skulu vera frjáls framlög einstaklinga, félagasamtaka eða fyrirtækja, auk fjármagnstekna af eignum sjóðsins. 5. gr. Frekari framlög Sjóðurinn tekur á móti frekari fjárframlögum, hvort sem er frá stofnaðila eða öðrum er veita vilja markmiðum hans brautargengi skv. 2 gr. 6. gr. Umsýsla sjóðsins Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Endurskoðendur sjóðsins eru endurskoðendur Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Reikningar sjóðsins skulu birtir með sama hætti og annarra sjóða í vörslu Háskóla Íslands. 7. gr. Um breytingar á skipulagsskránni Ekki er hægt að leggja sjóðinn niður eða gera breytingar á hlutverki hans og tilgangi, af öðrum ástæðum en kveðið er á um í lögum og ekki án þess að sjóðsstjórn og rektor Háskóla Íslands séu einhuga um þá ákvörðun. Verði sjóðurinn lagður niður, skulu fjármunir hans renna til Háskóla Íslands eða til málefna er tengjast tilgangi sjóðsins. Reykjavík, 14. desember 2016 Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands Sigrún Júlíusdóttir, stofnandi sjóðsins Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar sýslumanns Norðurlands vestra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytingum sem kunn að vera gerðar á henni. Við staðfestingu þessarar skipulagsskrár fellur úr gildi eldri skipulagsskrá nr. 942/2012 og síðari breyting nr. 916/2013. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. facebooklinkedintwitter