6/2023
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2023, fimmtudaginn 1. júní var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Hólmfríður Garðarsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Rebekka Karlsdóttir (varamaður fyrir Brynhildi Kristínu Ásgeirsdóttur), Silja Bára R. Ómarsdóttir, Vilborg Einarsdóttir (á fjarfundi) og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Davíð Þorláksson, Katrín Atladóttir og Katrín Björk Kristjánsdóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hún verið samþykkt með rafrænni undirritun. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a. Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-apríl 2023.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Jenný Bára fór yfir framlagt rekstraryfirlit Háskóla Íslands fyrir tímabilið janúar-apríl 2023. Fram kom að fjárhagsstaða Háskólans er þröng. Málið var rætt.
Jenný Bára vék af fundi.
b. Staða framkvæmda- og viðhaldsverkefna.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi nýframkvæmdir og viðhald fasteigna, sbr. yfirlit sem samþykkt var á fundi háskólaráðs 12. janúar sl. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum.
c. Undirbúningur gjaldtöku fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands.
Kristinn gerði grein fyrir stöðu mála varðandi stýringu bílastæða á lóð Háskóla Íslands, þ.m.t. fyrirhugaða gjaldtöku og útboð á þjónustu, sbr. samþykkt háskólaráðs 12. janúar sl. Fram kom að unnið hefur verið að málinu í samstarfi við Landspítalann. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá ráðsins í haust.
Kristinn og Guðmundur R. viku af fundi.
3. Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2022-2023.
Rektor fór yfir lokayfirlit funda- og starfsáætlunar háskólaráðs sem upphaflega var samþykkt í ráðinu 7. október sl. og uppfærð hefur verið reglulega á umliðnu starfsári. Málið var rætt.
4. Skilagrein starfshóps háskólaráðs um störf ráðsins á undangengnu starfsári.
Ólafur Pétur Pálsson, varaforseti háskólaráðs og formaður starfshóps ráðsins um störf þess á liðnu starfsári, gerði grein fyrir skilagrein starfshóps háskólaráðs um störf ráðsins á undangengnu starfsári, en hlutverk hópsins er að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja eftir atvikum til umbætur á starfsháttum þess. Auk Ólafs Péturs voru í nefndinni Vilborg Einarsdóttir, Davíð Þorláksson og Brynhildur Ásgeirsdóttir.
– Rektor og ritara háskólaráðs falið að fara yfir ábendingar er fram komu og undirbúa útfærslu og framkvæmd fyrir næsta fund ráðsins eftir sumarhlé.
5. Málefni Sögu: Vinna við endurbætur og skipulag starfsemi í húsinu. Staða mála, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Daði Már Kristófersson, formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf. (á fjarfundi), Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og Kristján Garðarsson, arkitekt og ráðgjafi.
Rektor fór yfir aðdraganda og forsendur þess að Háskóli Íslands fékk Sögu til afnota og þá vinnu sem fram hefur farið varðandi endurbætur á byggingunni í þágu starfsemi Háskóla Íslands.
Guðmundur gerði grein fyrir framlagðri útfærslu á tillögu framkvæmdanefndar um málefni Sögu, sem miðar m.a. að fjölbreyttri og sveigjanlegri vinnuaðstöðu starfsfólks og nemenda í formi verkefnamiðaðra vinnurýma. Daði Már áréttaði fjárhagsforsendur við kaup og endurnýjun byggingarinnar. Kolbrún greindi frá þeirri undirbúningsvinnu sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum á vettvangi Menntavísindasviðs og Kristján fór yfir teikningar af tillögunni.
Málið var rætt ítarlega.
Daði Már, Kolbrún, Kristinn og Kristján viku af fundi.
– Samþykkt samhljóða að unnið verði að endurbótum og útfærslu á Sögu á grundvelli tillögu framkvæmdanefndar sem kynnt var á fundinum og innan þess fjárhagsramma sem fyrir liggur. Rebekka Karlsdóttir sat hjá. Áformað er að flutningi Menntavísindasviðs og annarrar starfsemi í Sögu verði lokið um mitt ár 2024.
Kaffihlé.
6. Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., sbr. fund ráðsins 3. nóvember sl.
Inn á fundinn komu Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., og Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða. Greindu þeir frá málefnum félagsins og áformum um uppbyggingu svonefnds djúptæknikjarna, sbr. fund háskólaráðs 3. nóvember sl. Málið var rætt.
Sigurður Magnús, Hrólfur og Guðmundur R. viku af fundi.
– Rektor falið að fara yfir málið í samráði við framkvæmdastjóra sameiginlegrar stjórnsýslu, formann stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og formann stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf.
7. Frá vísinda- og nýsköpunarsviði:
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs.
a. Málefni nýdoktora.
Fyrir fundinum lá minnisblað um starfsheiti og stöðu nýdoktora við Háskóla Íslands. Halldór og Guðbjörg Linda gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Ráðgert er að leggja fram tillögu að verklagsreglum um málefni nýdoktora á fundi háskólaráðs í haust.
b. Tilfærsla þjónustu vegna styrkja frá fræðasviðum til vísinda- og nýsköpunarsviðs.
Fyrir fundinum lá tillaga um tilfærslu þjónustu vegna styrkja frá fræðasviðum til vísinda- og nýsköpunarsviðs og gerði Halldór grein fyrir henni. Áformað er að leggja fram tillögu að uppfærðum verklagsreglum um málið á fundi háskólaráðs í haust.
c. Málefni starfsfólks sem látið hefur af störfum fyrir aldurs sakir.
Fyrir fundinum lá minnisblað um málefni starfsfólks sem látið hefur af störfum fyrir aldurs sakir við Háskóla Íslands ásamt tillögu að uppfærðum verklagsreglum. Málið var rætt.
– Samþykkt samhljóða niðurstaða starfshópsins að ekki sé unnt við núverandi aðstæður að koma til móts við óskir um sérstakan vinnumatssjóð fyrir emerita. Tillögur að breyttum verklagsreglum voru jafnframt samþykktar. Hólmfríður Garðarsdóttir sat hjá við afgreiðsluna.
8. Bókfærð mál.
a. Starfsnefndir háskólaráðs og aðrar nefndir.
– Samþykkt að fela rektor að ganga frá skipun nefndanna.
b. Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl. nr. 244/2014.
– Samþykkt.
c. Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á grein 6.3 verklagsreglna um námsleiðir – skipulag og samþykkt (VLR-0057).
– Samþykkt.
d. Frá rektor: Tillaga um fulltrúa í stjórn Háskólabíós, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Gylfi Magnússon, prófessor við Viðskiptafræðideild á Félagsvísindasviði, formaður, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu. Skipunartíminn er frá 1. janúar 2024 til 30. júní 2026.
e. Tillaga starfshóps um sameiningu bókasafns Menntavísindasviðs við Landsbókasafn Íslands-háskólabókasafn.
– Samþykkt.
f. Viðauki við stofnanasamning Félags prófessora við ríkisháskóla og Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
g. Samkomulag Félags háskólakennara og Háskóla Íslands í aðdraganda kjarasamnings 2023.
– Samþykkt.
h. Málefni Tæknigarðs.
– Samþykkt.
i. Frá samráðsnefnd um kjaramál: Málefni aðjunkta 2. Varðar launasetningu.
– Samþykkt.
j. Stjórnir ýmissa styrktarsjóða Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
k. Málefni Halldórsstaða.
– Samþykkt.
l. Erindi frá Heilbrigðisvísindasviði varðandi inntöku nemenda í MS-nám í sjúkraþjálfun við Læknadeild haustið 2023. Breyta þarf 3. mgr. 4.gr. reglna nr. 153/2010 til samræmis.
– Samþykkt.
9. Mál til fróðleiks.
a. Árbækur Háskóla Íslands 2015 og 2016.
b. Drög að dagatali Háskóla Íslands 2023-2024.
c. Ársfundur Háskóla Íslands 2023, 2. júní.
d. Brautskráning kandídata 24. júní nk.
e. Ársreikningur Háskóla Íslands 2022.
f. Nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands 2023.
g. Íslenskir vísindamenn í úrslitum keppni um uppfinningamenn ársins í Evrópu 2023.
h. Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands.
i. Úthlutun úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands 2023.
j. Nýsköpunarvikan 2023.
k. Fréttabréf Háskólavina, dags. 1. júní 2023.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.