9/2024
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2024, fimmtudaginn 7. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir og Viktor Pétur Finnsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Silja Bára frá því að hún myndi víkja af fundi undir dagskrárlið 6. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri í sameiginlegri stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a. Fjárlagafrumvarp 2025. Staða mála.
Rektor greindi frá stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 og samskipti við stjórnvöld þar að lútandi. Málið var rætt.
b. Rekstraryfirlit fyrstu níu mánaða ársins 2024.
Jenný Bára fór yfir rekstraryfirlit tímabilsins janúar-september 2024. Fram kom að reksturinn er almennt í jafnvægi og í samræmi við áætlun.
c. Drög að deililíkani Háskóla Íslands.
Guðmundur R. gerði grein fyrir drögum að breytingum á deililíkani Háskóla Íslands í samræmi við nýtt reiknilíkan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Málið var rætt og svaraði Guðmundur R. spurningum. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
d. Meðhöndlun happdrættisfjár.
Inn á fundinn komu Víðir Smári Petersen, prófessor og formaður stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ), og Daði Már Kristófersson, prófessor og formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands (FHÍ). Daði Már gerði grein fyrir hugleiðingum um meðhöndlun happdrættisfjár í tengslum við aðkomu FHÍ að nýframkvæmdum og Víðir Smári reifaði sjónarmið stjórnar HHÍ um málið. Málið var rætt og verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
Víðir Smári, Daði Már og Jenný Bára viku af fundi.
e. Fyrirhuguð gjaldtaka fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands. Staða mála.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og greindi frá stöðu mála varðandi fyrirhugaða gjaldtöku fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands. Greindi Kristinn frá því að viðræður standa yfir við Landspítalann um samflot um útboð á rekstri bílastæða á lóðum beggja stofnana. Einnig liggur fyrir að Þjóðarbókhlaðan hefur óskað eftir að sama fyrirkomulag muni gilda á bílastæðum Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns og á lóðum Háskóla Íslands. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.
Kristinn og Guðmundur R. viku af fundi.
3. Starfsemisskýrsla innri endurskoðanda til háskólaráðs fyrir tímabilið frá október 2023 til september 2024.
Inn á fundinn kom Sigurjón Guðbjörn Geirsson, innri endurskoðandi. Ólafur Pétur Pálsson, formaður endurskoðunarnefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir minnisblaði nefndarinnar um starfssemisskýrslu innri endurskoðanda fyrir tímabilið frá október 2023 til september 2024 og í kjölfarið reifaði innri endurskoðandi helstu niðurstöður starfssemisskýrslu sinnar. Málið var rætt og svaraði Sigurjón spurningum fulltrúa í háskólaráði.
Sigurjón vék af fundi.
Kaffihlé.
4. Netöryggismál Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og fór yfir stöðu mála varðandi upplýsingaöryggi og netöryggismál Háskóla Íslands, þ.m.t. varnir gegn netógnum. Málið var rætt. Fram kom m.a. að öryggisnefnd Háskóla Íslands stendur fyrir öryggisþingi 12. nóvember nk. og fjallað verður um öryggismál á háskólaþingi 20. nóvember nk.
Guðmundur H. Kjærnested vék af fundi.
5. Málefni fyrirhugaðrar háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum.
Inn á fundinn komu Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, Snæbjörn Pálsson, prófessor, og Sæunn Stefánsdóttir, þróunarstjóri. Fyrir fundinum lágu drög að samningi um háskólasamstæðu Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólans á Hólum (HH), dags. 31.10.2024, og útreikningur á kostnaði samfara mögulegri myndun háskólasamstæðunnar. Málið var rætt ítarlega og verður áfram á dagskrá ráðsins.
Ingibjörg, Halldór, Snæbjörn, Sæunn og Silja Bára viku af fundi.
6. Um rektorskjör, breyting á 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og verklagsreglum um rafræna kosningu, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir tillögu að breytingu á 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Tillagan felur í sér að (1.) embætti rektors verði auglýst laust til umsóknar í janúar í stað desember áður; (2.) varðandi skilyrði um embættisgengi verði áréttað að einungis þeir sem þegar hafa fengið formlegan hæfnisdóm sem prófessor við viðurkenndan háskóla áður en umsóknarfrestur rennur út teljist uppfylla skilyrði um prófessorshæfi; (3.) rafrænn kjörfundur standi í tvo virka daga (frá kl. 9.00 fyrri daginn til kl. 17.00 síðari daginn) í stað þriggja sólarhringa áður; (4.) viðmið um að kjördagur verði sem næst 5. mars verði fellt niður en áfram miðað við að kjördagur verði innan sjö vikna frá því að umsóknarfrestur rennur út. (5.) Þá liggur fyrir að í reglugreininni þarf að breyta heitinu „mennta- og menningarmálaráðuneyti“ í „háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti“.
– Samþykkt einróma.
7. Bókfærð mál.
a. Skrifstofa rektors: Nýr formaður í kærunefnd í málefnum nemenda.
– Samþykkt. Nýr formaður kærunefndar í málefnum nemenda verður Trausti Fannar Valsson, dósent við Lagadeild. Skipunartími hans er frá 1. janúar 2025 og út skipunartíma nefndarinnar 31. janúar 2026.
b. Skrifstofa rektors: Tillaga að breytingu á skipan framkvæmdanefndar vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands við Læknagarð og endurbóta á Læknagarði.
– Samþykkt. Eftirfarandi breyting verður á skipan framkvæmdanefndar vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindavið Háskóla Íslands við Læknagarð og endurbóta á Læknagarði: Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, kemur í stað Ingibjargar Gunnarsdóttur, aðstoðarrektors vísinda sem tímabundið gegndi starfi forseta Heilbrigðisvísindasviðs, Daði Már Kristófersson, prófessor og formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., tekur við formennsku í nefndinni af Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra (sem situr áfram í nefndinni), Ólafur Pétur Pálsson, professor, hverfur úr nefndinni en situr fundi eftir atvikum, og Hilmar Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri Fasteigna Háskóla Íslands ehf. situr fundi nefndarinnar. Skipunartíminn er til ársloka 2027.
e. Skrifstofa rektors: Tillaga að reglum um gjaldskrá vegna leigu á kennslustofum og annarri aðstöðu í byggingum Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
f. Skrifstofa rektors: Valnefnd vegna árlegrar viðurkenningar til starfsfólks Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Nefndin er skipuð þeim Ingileif Jónsdóttur, prófessor emerita, formaður, Arnari Þór Mássyni, fulltrúa í háskólaráði og Bryndísi Brandsdóttur, fyrrverandi vísindamanns.
g. Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á 101. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.
h. Frá kennslusviði: Tillaga að breytingu á verklagsreglu um Námsleiðir – skipulag og samþykkt.
– Samþykkt.
i. Frá vísinda- og nýsköpunarsviði: Tillaga að uppfærðum verklagsreglum um starf nýdoktora við Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
j. Frá vísinda- og nýsköpunarsviði: Tillaga um skipun framgangs-dómnefnda.
– Samþykkt.
l. Stefna HÍ [ríkisaðila] til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
– Samþykkt.
m. Frá Hugvísindasviði: Tillaga um inntökupróf í námsleiðinni íslenska sem annað mál – hagnýtt nám, ásamt tillögu að próftökugjaldi.
– Samþykkt.
8. Mál til fróðleiks.
a. Umsögn Háskóla Íslands um drög að nýjum viðmiðum um æðri menntun og prófgráður, dags. 30. september 2024.
b. Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til fjárlaga 2025, dags. 7. október 2024.
c. Drög dagskrár háskólaþings 20. nóvember 2024.
d. Háskóli Íslands hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í fimmta sinn.
e. Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024.
f. Skýrsla um akademískt frelsi á Norðurlöndum.
g. Fréttabréf háskólavina, dags. 30. október 2024.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.