01/2019
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2019, fimmtudaginn 10. janúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðrún Geirsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragna Árnadóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a) Deililíkan og Aldarafmælissjóður. Greinargerð fjármálanefndar.
Fyrir fundinum lá minnisblað fjármálanefndar háskólaráðs um fjármál Háskóla Íslands og tillaga nefndarinnar að breytingu á deililíkani, skiptingu fjárveitingar árið 2019 og skiptingu fjár úr Aldarafmælissjóði. Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Tillaga fjármálanefndar að breytingu á deililíkani, skiptingu fjárveitingar árið 2019 og skiptingu fjár úr Aldarafmælissjóði samþykkt einróma.
b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2019. Tillaga, sbr. síðasta fund.
Jenný Bára gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna.
– Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2019 samþykkt einróma.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs.
c) Húsnæðismál Háskóla Íslands.
Rektor, Daði Már og Guðmundur gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi ályktun:
„Fyrir liggur að framundan eru breytingar á utanumhaldi um fasteignir ríkisstofnana. Einnig liggur fyrir að framundan eru fjölmörg stór verkefni í húsnæðismálum Háskóla Íslands. Núverandi fyrirkomulag eignarhalds á fasteignum Háskólans hefur um árabil tryggt hagkvæman rekstur og skapað fjölmörg tækifæri til hagræðingar og samnýtingar. Það er því eindregin ósk Háskóla Íslands að með nýju fyrirkomulagi varðandi utanumhald um fasteigir ríkisstofnana verði tryggt að Háskólinn geti áfram annast þær fasteignir sem hýsa starfsemi hans og framtíðaruppbyggingu og rekstur þeirra. Háskólaráð telur mikilvægt að fasteignir Háskóla Íslands verði skráðar í sérstakt félag og skólanum falið að annast þær áfram eins og verið hefur. Þetta er einnig brýnt í ljósi nýrra laga um opinber fjármál og skiptir máli í tengslum við eðlilega skilgreiningu á eignum í efnahagsreikningi skólans.“
Daði Már vék af fundi.
d) Meðferð afskrifta og eignfærslna í bókhaldi Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá minnisblað um afskriftir og eignfærslur varanlegra rekstrarfjármuna Háskóla Íslands. Jenný Bára gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.
Guðmundur og Jenný Bára viku af fundi.
3. Alþjóðleg ráðgjöf um innleiðingu stefnu Háskóla Íslands. Ian Creagh, sérfræðingur í stjórnun og innleiðingu stefnu háskóla, kemur á fundinn og kynnir niðurstöður sínar um innleiðingu stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021.
Inn á fundinn kom Ian Creagh, sérfræðingur í stjórnun og innleiðingu stefnu háskóla, og gerði grein fyrir niðurstöðum greiningar sinnar á innleiðingu HÍ21, stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. Málið var rætt og svaraði Ian Creagh spurningum ráðsmanna.
– Rektor leiðir áframhaldi vinnu á grunni niðurstaðna greiningar Creagh og mun hafa samráð við fulltrúa í háskólaráði.
Ian Creagh vék af fundi.
4. Sameiginleg umsókn nokkurra aðildarháskóla Aurora samstarfsnetsins og Copenhagen Business School um aðild að verkefninu „European Universities”.
Inn á fundinn komu Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og gerðu grein fyrir undirbúningi umsóknar um aðild að verkefninu „European Universities”. Málið var rætt og svöruðu Friðrika og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt einróma að Háskóli Íslands taki ásamt nokkrum öðrum aðildarháskólum Aurora samstarfsnetsins og Copenhagen Business School þátt í umsókn um aðild að verkefninu „European Universities”. Málið verður aftur lagt fyrir háskólaráð þegar fyrir liggur hvaða nánari skuldbindingar felast í mögulegri aðild.
Friðrika og Halldór viku af fundi.
5. Kynning á starfsemi Félagsvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum fulltrúa í háskólaráði.
6. Bókfærð mál.
a) Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár komandi háskólaárs 2019-2020.
– Samþykkt.
b) Skipan mannaflanefndar ásamt erindisbréfi.
– Samþykkt. Í nefndinni eiga sæti Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, sem er formaður, Ásthildur Otharsdóttir, fulltrúi í háskólaráði, Einar Sveinbjörnsson, fulltrúi í háskólaráði, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Ólafur Pétur Pálsson, fulltrúi í háskólaráði og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, fulltrúi í háskólaráði. Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, vinna með starfshópnum.
c) Starfshópur um málefni aldursgreiningar.
– Samþykkt. Starfshópurinn er skipaður þeim Ingibjörgu Gunnarsdóttur, varaforseta háskólaráðs, sem er formaður, Benedikt Traustasyni, fulltrúa í háskólaráði, Rögnu Árnadóttur, fulltrúa í háskólaráði og Siv Friðleifsdóttur, fulltrúa í háskólaráði. Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors og Þórður Kristinsson, ráðgjafi rektors, vinna með starfshópnum.
d) Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands verður óbreytt á árinu 2019. Stjórnin er skipuð Eyvindi G. Gunnarssyni, prófessor við Lagadeild, sem er formaður, Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs og Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur, viðskiptafræðingi.
e) Frá Heilbrigðisvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Tillaga um þverfræðilegt meistaranám í iðnaðarlíftækni í samstarfi við Alvotech.
– Samþykkt.
f) Frá Heilbrigðisvísindasviði. Tillaga að sameiginlegum MS reglum deilda Heilbrigðisvísindasviðs.
– Samþykkt.
g) Uppfærður texti skipulagsskrár Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr.
– Samþykkt.
h) Tillaga að þóknun til stjórnar Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr.
– Samþykkt.
i) Skipan sjálfsmatshóps vegna ytri úttektar á Háskóla Íslands 2020 ásamt erindisbréfi.
– Samþykkt. Sjálfsmatshópurinn er skipaður Jóni Ólafssyni, prófessor við Mála- og menningardeild og formanni gæðanefndar háskólaráðs, sem er formaður, Áslaugu Helgadóttur, gæðastjóra, sem er ritstjóri sjálfsmatsskýrslunnar, Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda, Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra miðlægrar stjórnsýslu, Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísinda- og nýsköpunarsviðs, og N.N., fulltrúa stúdenta.
7. Mál til fróðleiks.
a) Starfshópur um húsnæðismál Menntavísindasviðs ásamt erindisbréfi.
b) Viðbrögð í kjölfar ábendinga innri endurskoðanda um meðferð erlendra styrkja, sbr. samþykkt háskólaráðs 8. desember 2016. Staða mála.
c) Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
d) Afhending Setbergs 20. desember 2018.
e) Uppfært dagatal Háskóla Íslands 2018-2019.
f) Árleg greinargerð Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna Aldarafmælissjóðs.
g) Aðgengi fyrir alla í byggingum Háskóla Íslands. Minnisblað.
h) Fréttabréf háskólavina, 6. tbl. 19. desember 2018.
i) Siðfræðistofnun veitir stjórnvöldum ráðgjöf um siðfræðileg efni.
j) Brynhildur Davíðsdóttir hlaut heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright.
k) 19. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan haldin 3.-4. janúar 2019.
l) Tækniveitan Auðna – tæknitorg ehf. formlega sett á laggirnar.
m) Samstarf Háskóla Íslands og Rauðakross Íslands.
n) Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild, hlýtur heiðursmerki Hinnar íslensku fálkaorðu.
o) Úthlutun styrks úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents.
p) Úthlutun verkefnastyrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.05.