Skip to main content

Hvað segja hvalbeinin?

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur og Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur, bæði við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík

„Verkefnið snýst um að staðfesta tegundasamsetningu hvala sem voru veiddir af baskneskum og hollenskum hvalveiðimönnum á 17. öld annars vegar og af norskum hvalveiðimönnum á 19. öld hins vegar.“ Þetta segir Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, en hann vinnur nú ásamt Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur, líffræðingi við sama setur, að afar spennandi fornleifa- og líffræðirannsókn á Vestfjörðum.

Þau koma bæði við sögu í nýrri þáttaröð Háskóla Íslands um rannsóknir vísindamanna við skólann. Í þriðja þætti er fjallað um sögu hvalveiða og rannsóknir á hvölum. Þar er Ragnar Edvardsson í áhrifamiklu viðtali um hvalveiðar  Norðmanna hér við land. Guðbjörg Ásta er hins vegar í öðrum þætti þar sem áhorfendur fylgjast með rannsóknum á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á jökla. Einnig er fjallað um breytingar á vistkerfum landsins samfara hækkandi hitastigi.

Þau Rangar og Guðbjörg Ásta hafa nú hvalbein til rannsóknar og nálgast þau frá ólíkum sjónar- hornum. Til að ná í hvalbeinin hefur Ragnar grafið á fornum hvalstöðvum en hann hefur að auki kafað niður á sjávarbotn við fallnar hvalstöðvar þar sem mikið liggur í votri gröf, bæði bein og ýmsir munir frá gósentíð hvalverkenda.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Ragnar Edvardsson

„Í þessu verkefni tegundagreinum við hvalbein frá fornum hvalveiðistöðvum með DNA-aðferðum og notum greiningar á stöðugum efnasamsætum þekktra hvaltegunda til að meta breytingar á fæðuvist og umhverfi hvala á sögulegum tíma.“

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Ragnar Edvardsson

„Í þessu verkefni tegundagreinum við hvalbein frá fornum hvalveiðistöðvum með DNA-aðferðum og notum greiningar á stöðugum efnasamsætum þekktra hvaltegunda til að meta breytingar á fæðuvist og umhverfi hvala á sögulegum tíma,“ segir Guðbjörg Ásta.

Ragnar bætir því við að mögulega verði þannig hægt að bera saman erfðabreytileika innan stofns hjá völdum tegundum hvala, t.d. hnúfubak og langreyði, á tímabilum sögulegra veiða og í nútíma. Þau Ragnar og Guðbjörg Ásta eru sammála um að kveikjan að verkefninu sé velgengni þver- fræðilegra rannsókna á þorskbeinum úr fornum öskuhaugum sem þau unnu líka saman.

„Sú rannsókn hefur aukið skilning okkar á þorskstofninum og samfélagslegu hlutverki þorskveiða fyrr á öldum. Hugmyndin er að beita svipaðri aðferðafræði á hvalbein frá hvalveiðistöðvum,“ segir Ragnar. Guðbjörg Ásta, sem er forstöðumaður Rannsóknasetursins, segir að þverfræðilegar rannsóknir á dýrabeinum, sem finnist við fornleifauppgröft, t.d. á verstöðvum eða hval- veiðistöðvum, gefi mikla möguleika á að skilja vistkerfi sjávar fyrr á öldum.

„Einnig áhrif manna á vistkerfi sjávar og auðvitað hvernig mögulegar vistkerfisbreytingar höfðu áhrif á nýtingu manna á sjávarauðlindum.“ Ragnar segir að þótt miklar upplýsingar hafi safnast um búsetu erlendra hvalveiðimanna á Íslandi vanti enn talsverðar upplýsingar um veiðar og nýtingu hvalastofna. „Upplýsingar sem við fáum úr verkefninu verða því bornar saman við ritaðar heimildir.“

Guðbjörg Ásta segir að verkefnið muni í fyrstu veita upplýsingar um þær tegundir sem hvalveiðimennirnir veiddu og þær upplýsingar megi nota m.a. til að sannreyna sagnfræðilegar upplýsingar og þau gögn sem skráð voru um afla. „Síðan verður hægt að skoða gildi stöðugra efnasamsæta til að meta við hvaða umhverfis- aðstæður hvalurinn át og hvar í fæðukeðjunni og greina út frá því breytingar í fæðuvist hvalanna og vistkerfi hafsins.

Til lengri tíma er líklegt að rannsóknir af þessu tagi geti skilað miklu til bæði fræðaheimsins og samfélagsins. Þær auka m.a. þekkingu á áhrifum nýtingar manna á náttúrulega stofna dýra og umhverfisbreytingum á fyrri öldum.“

Langeyri
Hvalbein