Skip to main content

Höfrungar, hegðun og hljóð

Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík

Til forna skipti afar miklu máli hvernig menn nýttu reka en í Jónsbók er svokallaður Rekabálkur þar sem meðal annars er allað sérstaklega um hvalreka. Ákvæði Rekabálks um hvalreka eru enn grundvöllur gildandi laga í íslensku lagasafni sem er stórmerkilegt því að Jónsbók er frá 1281. Áhersla á hvalreka í Jónsbók sýnir svo að ekki verður um villst hversu mikilvæg auðlind hvalir hafa verið Íslendingum frá upphafi. Hvalir og hvalveiðar hafa enda verið samofin sögu Íslands allt frá landnámi.

Við fræðumst um þetta í Fjársjóði framtíðar, nýrri þáttaröð um rannsóknir vísindamanna við Háskóla Íslands.  Í þriðja þætti raðarinnar fáum við innsýn inn í rannsóknir á hvölum frá mörgum ólíkum sjónarhornum.

Í samtímanum hafa Íslendingar nýtt hvali, þessa verðmætu auðlind á nýjan hátt, en mikilvægi smá- og stórhvela í ferðaþjónustu hefur aukist ár frá ári. Hartnær hundrað þúsund manns komu til að mynda til Húsavíkur til að skoða hvali á Skjálfanda árið 2015. 
Þar eru líka stundaðar yfirgripsmiklar rannsóknir á hvölum. Rannsóknirnar snúast ekki síst um að kanna hvernig hvalir tengja saman hljóð og atferli.

„Mörg rannsóknarverkefna minna snúast um hljóð höfrunga og hvala og ég legg kapp á að skilja hvernig þeir nota hljóðin,“ segir Marianne Rasmussen sem hefur veitt Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík forystu í allmörg ár. Hún segir okkur frá rannsóknum sínum í nýju röðinni.

Marianne Rasmussen

„Mörg rannsóknarverkefna minna snúast um hljóð höfrunga og hvala og ég legg kapp á að skilja hvernig þeir nota hljóðin,“ segir Marianne Rasmussen sem hefur veitt Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík forystu í allmörg ár. Hún segir okkur frá rannsóknum sínum í nýju röðinni.

Rannsóknir Marianne hafa verið gríðarlega fjölbreyttar í áranna rás en hún hefur þó sérstakan áhuga á samskiptum hnýðinga. Hún hefur reyndar tekið upp hljóð ýmissa hvalategunda en síðsumars 2015 tók hún upp hljóð með hátæknibúnaði og sérstaklega þróuðum neðansjávarhljóðnema ásamt samstarfsfólki sínu frá Þýskalandi. Nemanum var í þetta sinn beint að blettahnýðingum sem er algengasta tegund höfrunga við Íslandsstrendur.

Hann er mjög algengur í Faxaflóa og út af Reykjanesi yfir sumarmánuðina og vitað er að hann beitir mjög markvisst hljóðum við fæðuöflun. Þótt vísindamenn leggi æ meira kapp á að kynna sér samskipti hnýðinga og annarra hvala með hljóðum eiga þeir langt í land með að geta túlkað blístur og önnur hljóð hvalanna yfir á táknkerfi mannanna. Þó er vitað að hnýðingar hafa sums staðar einstaklingsbundið blístur sem er jafnvel hægt að túlka sem eiginnöfn þeirra.

„Niðurstöður í þessu nýja verkefni okkar munu gefa nýja sýn á samskiptamáta bletta- hnýðinga og þær verða birtar í alþjóðlegum tímaritum. Þær verða einnig aðgengilegar almenningi, til dæmis í Hvalasafninu á Húsavík og hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum,“ segir Marianne sem leggur mikla áherslu á að rannsóknir sínar nýtist atvinnulífinu beint. Nokkur sprotafyrirtæki hafa enda orðið til sem tengjast rannsóknum við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík.